05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Minningarorð: Guðmundur Ingi Eyjólfsson

Það var skemmtilegt vinnu umhverfi á lyflækningadeild Borgarspítalans þegar ég kynntist starfseminni á árunum 1975-79. Spítalinn var til þess að gera nýlegur og sérfræðingarnir flestir ungir, vel menntaðir og áhugasamir læknar nýkomnir úr framhaldsnámi. Nálægð við slysadeildina varð til þess að mörg bráðatilfelli komu inn á spítalann og læknanemarnir og unglæknar nutu góðs af því. Á hjartadeildinni E6 störfuðu á þessum tíma Einar Baldvinsson, Guðmundur Oddsson og Þórður Harðarson. Á almennri lyflækningadeild A6 störfuðu meltingarlæknarnir Birgir Guðjónsson og Sigurður Björnsson, Gunnar Sigurðsson innkirtlalæknir og Jóhann Ragnarsson nýrnalæknir og á A7 Sigurður B. Þorsteinsson smitsjúkdómalæknir og Guðmundur Ingi Eyjólfsson blóðsjúkdómalæknir. Allir voru þessir menn vel að sér í almennum lyflækningum auk sinna sérgreina enda kallaði starfsemin á fjölþætta nálgun.

Þessir skemmtilegu og mótandi tímar rifjast nú upp þegar fréttir hafa borist af því að Guðmundur Eyjólfsson sé látinn, 86 ára að aldri. Hann tók kandídatspróf 1964 og stundaði framhaldsnám í lyflækningum og blóðsjúkdómum við University of Illinois og Loyola University í Chicago á árunum 1965-70. Kom þá heim úr framhaldsnámi og hóf fljótlega störf á lyflækningadeild Borgarspítalans.

Eftir kandídatsárið var ég svo lánsamur að fá stöðu á lyflækningadeildinni í eitt ár, frá júní 1978. Í sex mánuði af þeim tíma vann ég aðallega á A7 með Sigurði B. Þorsteinssyni og Guðmundi Eyjólfssyni. Það var lærdómsríkur tími og mótandi að mörgu leyti. Báðir þessir menn eru meðal færustu lækna sem ég hef starfað með á Íslandi. Inn á deildina komu margvísleg tilfelli og þau verkefni sem Guðmundur sinnti mest voru á sviði blóðsjúkdóma og krabbameinslækninga.

Lyflækningar krabbameina voru þá ný sérgrein og við nutum þess einnig að geta kallað til ráðgjafar Sigurð Björnsson frá Landakoti sem var fyrsti medisínski oncologinn á landinu. Til þess að ræða aðkallandi viðfangsefni voru vikulegir fundir okkar aðstoðarlæknanna með þeim Guðmundi og Sigurði sem Ásbjörn Sigfússon félagi minn kallaði gáfnamannafundi. Það var mikils um vert í þessum erfiðu tilfellum að njóta leiðsagnar þessara færu sérfræðinga sem voru hafsjór af þekkingu. Engan var betra að hafa með sér á vöktum en Guðmund Eyjólfsson. Hann var afburða vel að sér í lyflækningum, fljótur að átta sig á einkennum og sjaldan þurfti að segja honum meira en örfáar setningar um tilfellið áður en rétta sjúkdómsgreiningin var komin.

Eftir framhaldsnámið lék lánið aftur við mig þegar ég fór að starfa í Læknasetrinu. Guðmundur Eyjólfsson og Guðmundur M. Jóhannesson stofnuðu félagið ásamt fleiri sérfræðilæknum í lyflækningum árið 1986. Lungnalæknar bættust fljótlega í hópinn og starfsemin var upphaflega í kjallara húss Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8. Guðmundur var leiðtogi læknanna og á að öðrum ólöstuðum drýgstan þátt í vexti og velgengni Læknasetursins.

Árið 1991 flutti starfsemin í nýtt húsnæði í Þönglabakka 6 í Mjóddinni og læknum fjölgaði. Læknasetrið bjó mönnum frá upphafi mjög ákjósanlega vinnuaðstöðu, meðal annars með rekstri rannsóknarstofu og röntgenstofu. Þannig gafst tækifæri til að leysa fljótt og vel úr vandamálum sjúklinganna en auk þess var afbragðs góður starfsandi og samheldni í hópnum. Það var mikill faglegur metnaður í félaginu og menn voru staðráðnir í að veita fyrsta flokks þjónustu á hagkvæmasta hátt. Guðmundur var á þessum árum einnig formaður samninganefndar sérfræðilækna. Þá ríkti gott traust á milli lækna og samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins þar sem Helgi V. Jónsson lögfræðingur og endurskoðandi stýrði málum fyrir hönd TR. Vöxtur og viðgangur sjálfstæðrar starfsemi lækna utan sjúkrahúsa gekk ekki átakalaust fyrir sig en óhætt er að segja að Guðmundur Eyjólfsson hafi verið skeleggasti baráttumaður lækna á þeim vettvangi.

Þegar líða tók að aldamótum varð ljóst að ekkert gæti stöðvar sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík í einn stóran ríkisrekinn spítala. Mörgum leist ekki vel á þá þróun mála og ég hygg að það hafi átt drjúgan þátt í því að Guðmundur hætti störfum á spítalanum og sneri sér alfarið að Læknasetrinu. Um þetta leyti sameinaðist Læknasetrið og hjartalæknastöðin við Síðumúla í nýju og stærra húsnæði Læknasetursins í Mjódd og meltingarlæknar komu þar til starfa einnig. Guðmundur stjórnaði Læknasetrinu af einstakri alúð og útsjónarsemi og allir báru óskorað traust til hans. Það má með sanni segja að hann hafi verið allt í senn, læknir, kennari og faglegur leiðtogi sem minnst verður fyrir mikilsvert framlag til læknisþjónustu á Íslandi.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica