05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Tveir dagar í lífi skurðlæknis í Neskaupstað. Jón H.H. Sen

07:20 Vekjaraklukkan drífur mig á fætur. Ég set upp hafragrautinn og espressókönnuna og á meðan hvort tveggja mallar á eldavélinni fer ég í sturtu og skola burt því sem eftir er af svefndrunganum. Les fréttirnar yfir morgunmatnum. Fer út með hundinn hana Iridín.

07:55 Fer í vinnuna. Hér eru engin umferðarljós eða umferðarhnútar og leiðin í vinnuna fljótfarin, hvort sem maður fer gangandi, hjólandi eða á bíl eins og í dag í vetrarveðrinu sem er búið að vera viðvarandi vikum saman.

08:00 Fundur þar sem farið er yfir viðburði vaktarinnar og annað sem skiptir máli. Í dag er aðgerðardagur og á prógramminu er gallblöðrutaka, kviðsjáraðgerð á nárakviðsliti, fjarlæging á lyfjabrunni og König-aðgerð. Fer því inn á skurðstofugang að fundi loknum.

Umdæmissjúkrahús Austurlands, áður Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN), hefur verið starfrækt síðan 1957. Margir velta fyrir sér hvers vegna í ósköpunum sjúkrahúsið sé staðsett í Neskaupstað, í botnlanga utan alfaraleiðar, en ekki á Egilsstöðum sem er við hringveginn. Á þeim tíma sem FSN var byggt voru þéttbýlin við sjávarsíðuna og Egilsstaðir ennþá sveitabær. Samgöngur á fjörðunum voru frumstæðar og gat verið mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt að koma sjúklingi á spítala að vetrarlagi. Það var því farið í að byggja sjúkrahús að frumkvæði heimamanna í Neskaupstað. Það var svo stækkað með viðbyggingu 1973 og svo var einni hæð bætt ofan á gömlu bygginguna 2005. Sjúkrahúsið fékk fljótlega það hlutverk að vera Fjórðungssjúkrahús og gegnir því hlutverki enn. Norðfjarðargöngin, sem voru tekin í gagnið fyrir nokkrum árum, hafa bætt aðgengi að sjúkrahúsinu til muna. Hér er starfrækt eina fæðingardeild Austurlands, sólarhringsvakt skurðlæknis, svæfingalæknis og lyflæknis og gegnir sjúkrahúsið afar mikilvægu öryggishlutverki fyrir íbúa fjórðungsins. Hér er einnig fastráðinn almennur læknir, barnalæknir í hlutastarfi og megnið af árinu eru læknanemar hjá okkur í verknámi. Ég hef unnið hér í allmörg ár, fyrst 2002-2009 og svo frá árinu 2014. Helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er að manna allar stöður heilbrigðisstétta.

Að vera landsbyggðarskurðlæknir er skemmtilegt og gefandi þó svo endalausar bakvaktir séu lýjandi til lengdar. Maður þarf að geta leyst úr fjölbreyttum vandamálum. Fæðingarinngrip – sogklukkur og keisarar – eru þar á meðal. Aðgerðir á skurðstofu eru allt frá töku fæðingarbletta yfir í laparotomiur. Auk þess eru gerðar maga- og ristilspeglanir. Það er nauðsynlegt að hafa dómgreindina í lagi og geta metið hverja er hægt að meðhöndla í heimabyggð og hverja þarf að senda á Landspítala eða SAk. Heilsugæsla blandast einnig inn í starfið og maður er í góðum tengslum við samfélagið.

16:30 Dagvinnan búin og bakvaktin byrjuð, aðgerðarsjúklingarnir farnir heim og ég fer til Eskifjarðar á æfingu með félögum mínum í Karatefélagi Fjarðabyggðar. Endurnærandi eftir daginn að fá andlega og líkamlega útrás.

18:30 Æfingunni lokið, við tekur kvöldmatur og afslappelsi með Iridín í kvöld, en við erum ein í kotinu eins og er. Vona að bakvaktarsíminn verði til friðs.

Þetta var hefðbundinn dagur.

Mánudagurinn 27. mars var hins vegar með allt öðru sniði.

 

07:07 Vakthafandi læknir hringir í mig og tilkynnir mér að það hafi fallið snjóflóð á fjölbýlishús sem er beint ofan við spítalann og einhverjir séu meiddir. Búið að snjóa óheyrilega mikið í nótt og engar ýkjur þegar maður segir að bærinn sé algerlega á kafi í snjó og flestar götur ófærar. Björgunarsveitarjeppi sækir mig og skutlar mér í vinnuna. Þegar ég mæti er verið að hlúa að tveimur íbúum úr blokkinni sem eru með skurði eftir glerbrot. Það bætast svo við fjórir íbúar með skurði og skrámur. Sem betur fer ekkert manntjón og enginn alvarlega slasaður. Hurð skall samt verulega nærri hælum, sérstaklega hjá einum íbúa á annarri hæð sem fékk snjóflóðið inn um svefnherbergisgluggann og kaffærðist en náði að krafla sig lausa og hringja á hjálp. Var í kjölfarið bjargað út um glugga á íbúðinni. Annað flóð féll innst í bænum en leiðigarður þar beindi flóðinu fram hjá byggðinni og það endaði úti í sjó. Stórt flóð og lokaði leiðinni inn í bæinn.

08:00 Fundur með lykilstarfsmönnum HSA þar sem var farið yfir stöðuna og upplýsingum frá Samhæfingarstöð Almannavarna miðlað. Neskaupstaður settur á neyðarstig og hús á hættusvæðum rýmd. Komið upp fjöldahjálparstöð í Egilsbúð. Það er talin mikil hætta á að fleiri flóð falli.

12:00 Búið að stækka rýmingarsvæðið og ákveðið að rýma öll hús ofan götu fyrir neðan varnargarðana. Það er gert vegna hættu á skvettuflóðum eins og gerðist á Flateyri 2020 þar sem snjór flæddi yfir varnargarðana og olli tjóni í bænum. Húsið mitt er neðan götu undir varnargarði. Ákveð samt að sækja Iridín svo hún sé örugg ef eitthvað kemur fyrir. Fæ kunningja minn sem á stóran jeppa til að skutlast með mig. Iridín fær að vera með pabba sínum í vinnunni í einn dag í það minnsta.

Farið í undirbúningsvinnu við að rýma sjúkrahúsið þar sem ekki er varnargarður fyrir ofan það. Gilið fyrir ofan hins vegar búið að hreinsa sig með flóðinu í morgun og hættan á öðru flóði þaðan ekki talin mikil. Það er því ákveðið að bíða með rýmingu að svo stöddu.

Árið 1974 féllu stór snjóflóð í Neskaupstað sem ollu miklu tjóni og létust 12 manns en 13 var bjargað. Flóðið í morgun ýfði upp sár hjá mörgum íbúum. Það er búið að verja stóran hluta bæjarins með upptakastoðvirkjum, keilum og varnargörðum. Fjórði og síðasti varnargarðurinn fer í útboð á þessu ári. Hann hefði komið í veg fyrir að flóðið í dag hefði náð niður í byggð.

14:15 Leiguflugvél frá Icelandair lendir á Egilsstöðum með björgunarsveitarfólk frá Reykjavík og svæfingarlækni af Landspítala, en það hefur verið svæfingarlæknislaust á FSN síðan í gærkvöldi. Þyrla Landhelgisgæslunnar komin til Egilsstaða og ákveðið að hún komi með hann til Neskaupstaðar, en ekki er hægt að fara landleiðina vegna ófærðar og snjóflóðahættu. Þyrlan gerir tilraun til að lenda en verður að hætta við vegna óveðursins og fer til baka til Egilsstaða. Áætlað að reyna aftur undir kvöld þegar veðrinu á að fara að slota. Varðskipið Þór á leiðinni frá Akureyri. Ráðgert að ferja björgunarsveitarfólkið til Seyðisfjarðar þar sem Þór mun taka það um borð og sigla svo til Neskaupstaðar.

15:30 Annar fundur og farið yfir stöðuna og atburði dagsins.

17:30 Veðrið orðið skaplegra og við Iridín höldum heim á leið.

18:30 Þyrlan kemur aftur með svæfingarlækninn og tekst að lenda í annarri atrennu.

23:30 Allt hefur verið með kyrrum kjörum í kvöld og ég fer í háttinn. Reiknað með áframhaldandi snjókomu og illviðri frameftir vikunni þannig að ástandið er langt frá því að vera gengið yfir.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica