05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Heimsóknum til stofulækna fækkar um 23.295 milli ára

Formaður Læknafélags Reykjavíkur segir ekki rétta tímann til að draga úr þjónustu:
„Framboð á þjónustu hefur minnkað, bið hefur lengst. Verð hefur hækkað“

Ríkið greiddi fyrir rétt tæplega 23.295 færri komur til sérfræðilækna í fyrra en árið á undan. Heimsóknum til sérfræðilækna fækkaði um 4,7% milli þessara ára, eins og kom fram í ritstjórnarpistli Ragnars Freys Ingvarssonar formanns Læknafélags Reykjavíkur í síðasta Læknablaði.

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur.

Samtals eru 476.422 komur skráðar til sérfræðilækna í fyrra en 499.717 árið á undan. Langflestar voru heimsóknir til augnlækna, eða 68.227, og fækkaði þeim um 5,4% milli ára. Þá voru 56.664 komutímar skráðir til húðlækna og fækkaði um 3,9%. 45.245 tímar voru til hjartalæknis og fækkaði þeim einnig, eða um 1,2%. Þetta kemur fram í tölum sem Læknablaðið fékk hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Hvergi fækkaði niðurgreiddum komum skjólstæðinga til lækna hlutfallslega eins mikið og til krabbameinslækna á milli áranna 2021 og 2022. Þeim fækkaði um 50,1%. Næstur varð samdrátturinn á komum til heimilislækna, um 34,9%, þá til ofnæmis- og ónæmislækna, um 33,4%.

Ragnar útskýrir að samdrátturinn hjá krabbameinslæknum hafi orðið þegar annar af tveimur hætti stofurekstri og enginn fyllti það skarð. Þá hafi einn af 5 heimilislæknum hætt. Hann segir óljóst hvernig skýra megi samdráttinn í heild sinni.

„Annaðhvort er fólk ekki að leita sér að þjónustu sérfræðilækna eða fer annað innan heilbrigðiskerfisins. Við vitum ekkert hvað er að gerast. Við vitum hins vegar að heilsugæslan er að drukkna, spítalinn er að drukkna og bið eftir hverjum tíma hefur aldrei verið meiri. Þetta er ekki rétti tíminn til að draga úr þjónustu.“

Niðurgreiðsla ríkisins lækkaði milli ára um rúmar 170 milljónir króna og nam tæplega 7,7 milljörðum. Ljóst er af tölunum að skjólstæðingarnir sjálfir báru um 2,7 milljarða króna kostnað af komunum. Ragnar segir að hann sjái í eigin rekstri að þátttaka ríkisins í hverri heimsókn sé komin úr 75%-80% í um 50%. Það sé einfaldlega mörgum ofviða en ekki hefur verið samið við sérfræðilækna á stofum síðan 2018.

„Ríkið hefur ákveðið að leiðrétta þetta ekki. Það kemur beint niður á sjúklingum og verst á þeim sem hafa minnst milli handanna. Ég hugsa að margir hafi ekki lengur efni á að fara til læknis,“ segir hann. „Það eru samtöl í gangi en það gengur hægt. Ég sé ekki að það verði leyst úr þessu á komandi mánuðum, ekki á þessum dampi.“ Fáir fundir eru í sjónmáli, svo kemur sumar.

„Staðan er grafalvarleg. Það er grafalvarlegt að dregið sé úr læknisþjónustu í landi með vaxandi fólksfjölda og aukna ferðamennsku og þjóð sem eldist.“ Samdrátturinn geti aðeins haft alvarlegar afleiðingar.

 

Mesti samdráttur milli áranna 2021 og 2022

Krabbameinslæknar -50,1%

Heimilislæknar -34,9%

Ofnæmis- og ónæmislæknar -33,4%

Öldrunarlæknar -28,2%

Lyflæknar og skurðlæknar -12,9%

Mesta aukning milli áranna 2021 og 2022

Taugalæknar +15,3%

Kvensjúkdómalæknar +8,2%

Nýrnalæknar +4,7%

Efnaskiptalæknar +3,3%

Barnahjartalæknar +2,5%

Heimild: Sjúkratryggingar Íslands.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica