05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Skima Staklox-notendur við sjúkrahússinnlögn

Einstaklingar sem tóku sýklalyfið Staklox á ákveðnu tímabili verða skimaðir fyrir ónæmum sýklum, þurfi þeir að leggjast inn á sjúkrahús. Samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis er nú þegar skimað fyrir ónæmum sýklum hjá ákveðnum hópum við innlögn og bætast því þessir einstaklingar í þann hóp. Frekari aðgerðir ráðist svo af niðurstöðum þeirra skimana og staðan verði metin eftir þrjá mánuði. Sýklalyfið var innkallað vegna fjölónæmra baktería í febrúar.

Lyfjastofnun segir í svari til Læknablaðsins bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að ástæða mengunarinnar í Staklox-lyfinu sé ófullnægjandi þrif á burstum sem notaðir eru í framleiðsluferlinu. Lyfjastofnun segir rannsókn enn í gangi.

Einn einstaklingur hér á landi var talinn hugsanlega hafa smitast af þessari fjölónæmu bakteríu sem rekja mætti til lyfsins. Lyfjastofnun hefur ekki vitneskju um fleiri tilvik. Stofnunin segir að vel hafi tekist að stöðva dreifingu lyfsins hér á landi en samkvæmt markaðsleyfishafa verði ekki hægt að gera innköllunina upp að fullu fyrr en rannsóknum hafi verið lokið.

Lyfjastofnun segir lyfið ekki fara aftur í umferð hér á landi fyrr en fullnægjandi niðurstaða fáist í málinu. „Bakterían sem um ræðir smitast ekki auðveldlega á milli fólks, veldur ekki sjálfkrafa sýkingu hjá öllum sem fá hana og er, samkvæmt rannsóknum, næm fyrir ýmsum sýklalyfjum,“ segir í svarinu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica