05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bryndís Sigurðardóttir og bráðamóttakan fá viðurkenningu

„Ég er ótrúlega auðmjúk og þakklát,“ segir Bryndís Sigurðardóttir,
smitsjúkdómalæknir á Landspítala, sem fékk nýlega viðurkenningu sérnámsgrunnlækna fyrir framúrskarandi kennslu í annað árið í röð. Starfsfólk bráðamóttökunnar fékk einnig viðurkenningu

„Þetta eru kollegar og tilvonandi kollegar og frábært að finna að þeir kunna að meta það sem maður gerir með þeim á deildunum. Þau eru þakklát og ég er þakklát enda er þetta ekki kennsla eða kvöl og pína fyrir mér. Mér finnst gaman að tjá mig og hugsa upphátt,“ lýsir Bryndís Sigurðardóttir um stofugang með þessum kollegum.

Jón Kolbeinn Guðmundsson, Finna Pálmadóttir, Hjalti Már Björnsson, Bryndís Sigurðardóttir, Ragnar Pétursson, Stefanía Katrín J. Finnsdóttir og Inga Sif Ólafsdóttir. Mynd/Gerður Ríkharðsdóttir

„Það er eðlilegur hluti af vinnunni að tala upphátt og tryggja að fólkið í kringum mig átti sig á því hvað ég ætla að gera. Þetta er óverulegt aukaálag á mér, eiginlega frekar náttúrulegt eðli að tala mikið og útskýra,“ segir hún og lýsir því hvernig hún skýtur inn upplýsingum eða staðreyndum um sýklalyf og sýkingar á stofugöngum.

Spurð hvort kennslan sé ekki dýrmæt til að draga fólk að faginu, segir hún vanta í flestar sérgreinar. „Og við myndum njóta góðs af fleiri smitsjúkdómalæknum. Viðfangsefnunum fjölgar stöðugt. Nú þegar geisar stríð í Úkraínu streyma inn lifrarbólgu B- og berklatilfelli. Þá hefur álagið vegna grúppu A streptókokka-faraldursins einnig aukið álag og fleiri veikir sjúklingar legið inni.“ Þá þurfi að huga að breytingum. „Við viljum fara að taka göngudeildina í gegn og efla sýklalyfjagjafir í heimahúsum,“ segir hún. „Við þurfum klárlega að bæta verkferla. Allt krefst þetta mannskapar og það eru mörg spennandi og skemmtileg verkefni.“

Bryndís segir viðurkenninguna mikla hvatningu. „Já, þetta er hvatning til að halda áfram og gera það sem ég geri vel og jafnvel betur. Mér finnst ég aldrei gera nóg. Ég vil kenna meira, gera meira og hvetja ungu læknana okkar áfram.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica