05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ríkið sparar 20 milljónir á Kristjáni Erlendssyni

Kristjáni Erlendssyni lækni reiknast til að ríkið hafi nú sparað um 20 milljónir króna frá því að honum var sagt upp störfum vegna aldurs og endurráðinn í sama starf á skertum hlut – vegna aldurs: „Ég lækkaði um 30% í launum á einum afmælisdegi

„Í september verða fjögur ár frá uppsögninni og þá hef ég unnið í 48 mánuði á um 400.000 krónum lægri mánaðarlaunum en ég gerði fyrir sjötugt,“ segir Kristján Erlendsson lyf-, ofnæmis- og ónæmislæknir, sem stendur nú í tvennum málaferlum gegn íslenska ríkinu.

Kristján Erlendsson læknir berst fyrir því að fá að vinna á óskertum kjörum á Landspítala og fá sömu tækifæri og fólk undir sjötugu. Mynd/gag

Önnur eru vegna launaskerðingarinnar sem honum, eins og mörgum öðrum læknum sem náð hafa eftirlaunaaldri en nýtast enn í starfi, er gert að sæta. Hin vegna forstöðumannsstöðu sem hann sóttist eftir en fékk ekki brautargengi í vegna aldurs. Honum finnst að lög sem banna mismunun á vinnumarkaði hafi verið brotin gagnvart honum.

„Aldursfordómar,“ segir Kristján um greinargerð sem lögmaður íslenska ríkisins lagði fram í Landsrétti. Kristján, sem tapaði báðum málum í héraðsdómi, hefur meðal annars gegnt framkvæmdastjórastöðu á Landspítala og taldi sig því vel hæfan í forstöðumannsstarfið. Starfsgeta hans sé dregin í efa í greinargerðinni þar sem aldur hans er sagður auka líkur á að hann sé kulnaður og að marktæk tengsl séu milli vaktavinnu og vitsmunalegrar skerðingar og að langvarandi streita auki líkur á mistökum.

„Ég vann aldrei svona vaktavinnu! Það gengur ekki að segja að af því að þú sért sjötugur sértu ómögulegur. Það verður að nota annan mælikvarða en aldur,“ segir Kristján, sem enn starfar á Landspítala: „Og ég hef verið beðinn um að gera það ár í viðbót.“

Á sama tíma og hæfni hans sé dregin í efa í stöðuveitingarmálinu hafi starfsfólki fækkað á deild hans og hann sinnt fleiri sjúklingum en áður. Krafta hans sé því enn óskað. Þá sé hann með mörg járn í eldinum. Vinni með fleirum að því að koma á fót sérfræðilæknanámi í ofnæmis- og ónæmislækningum við Landspítala. Þá sé hann í vinnuhópi sem fjallar um brjóstapúða, myglu, ME-sjúkdóminn og langtímaáhrif COVID.

„Ég er á fullu í nýjum verkefnum og að mér sé boðin framlenging á 6 mánaða eða árs fresti hlýtur að vera viðurkenning á starfshæfni minni. Það væri grafalvarlegt fyrir yfirmenn mína að treysta mér, væri ég svona glataður eins og greinargerðin ber með sér.“ Kristján gefst ekki upp og reynir því í Landsrétti áfram að ryðja veginn fyrir kollegana og fá virði starfsframlags þeirra metið sem fyrr og aldurinn metinn afstæðan.

Alls starfa 120 læknar hér á landi sem náð hafa sjötugu samkvæmt tölum Læknafélags Íslands. Á Landspítala starfa þeir á tímavinnusamningi en heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem leyfir læknum að starfa til 75 ára. Það er ósamþykkt.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir starfskrafta þeirra lækna sem kjósi að starfa eftir sjötugt gríðarlega verðmæta. „Á mörgum starfsstöðvum gegnir þessi hópur lykilhlutverki í að draga úr alvarlegum mönnunarvanda. Það er með öllu ótækt að þessi reynslumikli hópur sitji ekki við sama borð og aðrir þegar kemur að launakjörum og öðrum réttindum."

Kristján segir marga hafa bent honum á að hætta bara í stað þess að sætta sig við launalækkunina. „En þetta er það sem ég vil gera. Golfið myndi ekki halda mér gangandi.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica