04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Hallgerður Kristjánsdóttir blóðlæknir vill byltingarkenndar frumumeðferðir heim

Fimm sjúklingar hafa síðustu ár verið sendir til Svíþjóðar í CAR T-frumumeðferð. Hallgerður Kristjánsdóttir, blóðlæknir á Landspítala, segir bæði hagræði fyrir sjúklinga og sparnað fyrir ríkið að fá þessa meðferð hingað heim

Blóðdeild Landspítala hefur sent 5 sjúklinga til Svíþjóðar í CAR T-frumumeðferð sem er ný og byltingarkennd meðferð við ýmsum blóðsjúkdómum. Hallgerður Kristjánsdóttir, blóðlæknir á Landspítala, segir meðferðina lengst á veg komna í endurkomu á stórfrumueitlakrabbameini. Einnig sé meðferðin til að mynda notuð við endurkomu á bráðaeitilfrumuhvítblæði.

Hallgerður Kristjánsdóttir, blóðlæknir á Landspítala, biður um samtal við yfirvöld og yfirstjórn Landspítala um að færa CAR T-meðferðir til Íslands. Mynd/gag

„Á næstu árum sjáum við þessa meðferð til að mynda verða notaða við endurkomu á mergæxli,“ segir hún við Læknablaðið. Hallgerður sat ráðstefnu nú um miðjan marsmánuð um tækifæri og áskoranir sem felast í gena- og frumumeðferðum. Þar hvatti hún til þess að boðið yrði upp á þessa meðferð hér á landi í stað þess að senda sjúklingana út.

„Við höfum þegar átt fyrsta fund með lyfjafyrirtæki, Kite frá Gilead, sem framleiðir Yescarta,“ segir hún, en lyfið er notað til að meðhöndla tvær tegundir eitlaæxla, samkvæmt heimasíðu framleiðandans, og segir Hallgerður þetta einmitt CAR T-lyfið sem flestir hafi fengið í Svíþjóð.

„Það er allt tilbúið að hefja þessa vegferð með okkur en áður en sú vegferð getur hafist verður greiðsluþátttaka að vera ljós,“ segir hún. „Íslenska ríkið er nú þegar að borga fyrir þessa meðferð þegar einstaklingarnir hafa verið sendir út,“ benti hún á á fundinum og að allur kostnaður og fylgdarkostnaður væri greiddur þegar þjónustan væri sótt til útlanda. „Það er því ljóst að bæði hagræði og sparnaður skapast, færum við þessa meðferð heim.“

Hallgerður segir við Læknablaðið að miðað við sænskar áætlanir megi ætla að 1-2 sjúklingar hér á landi þurfi meðferðina árlega. Búast megi við að þeir verði allt að 12 á komandi árum þegar fyrr verði gripið til meðferðarinnar við fleiri sjúkdómum. „Þessi meðferð veitir sjúklingum alveg ný tækifæri.“

Hallgerður segir blóðlækna spennta fyrir þessari nýju tækni. „Það eru ekki öll lönd farin að nýta hana. Það er verið að byrja í Noregi og ef okkur tekst að landa samningnum verðum við með þeim fyrstu.“

Hún segir þó nokkur CAR T-lyf þegar samþykkt af bandarísku og evrópsku lyfjastofnununum. Þau séu þegar notuð í yfir 16 Evrópulöndum. „Svíþjóð hefur verið leiðandi í CAR T-meðferð á Norðurlöndunum og fóru sjúklingarnir fimm frá blóðdeild Landspítala til Lundar í meðferðina,“ segir hún.

„Við óskum því eftir samtali og aðstoð íslenskra stjórnvalda og eins frá yfirstjórn Landspítala svo færa megi CAR T-meðferð til Landspítala.“

Hvernig virkar CAR T-meðferð?

„Meðferðin virkar þannig að hvítu blóðkornin eru tekin úr sjúklingnum með svokallaðri hvítkornasíu. Afurðin er send til lyfjafyrirtækis sem ræktar upp frumurnar og genabreytir þeim með veiruvektor þannig að þær fái viðtaka sem þekkir krabbameinsfrumurnar,“ segir Hallgerður Kristjánsdóttir, blóðlæknir á Landspítala.

„Í tilfelli eitilfrumukrabbameins er það CD19-viðtaki sem er settur inn í T-frumur. Þessum genabreyttu CAR T-frumum er þá sprautað aftur inn í líkama sjúklings þar sem þær svo finna krabbameinsfrumurnar og eyða þeim.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica