03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Læknabörn. Ragnar Logi Magnason

Um daginn rakst ég á grein í jólahefti BMJ 2020 er fjallaði um arfgengi læknisstarfsins: Does medicine run in the family - evidence from three generations of physicians in Sweden: retrospective observational study.

Greinin vakti forvitni þar sem einmitt þessi spurning hafði vaknað í kolli mínum í læknadeild á tíunda áratug síðustu aldar en þá tók ég sérlega góðan tíma í fyrri hálfleik námsins og hafði því 2-3 árganga til hliðsjónar fyrir óformlega athugun er fékk mig til að áætla að um fjórðungur nema ætti læknismenntað foreldri og teldist því læknabarn.

Grein Svíanna í BMJ tók til um 28.000 lækna sem fæddir voru 1950-1990. Hún leiddi í ljós að um einn af hverjum 5 yngri lækna er læknabarn og er það þreföldun á þremur áratugum. Af sænskum læknum sem fæddir eru 1960 eru 7% læknabörn en hjá þeim er fæddir eru 1990 er hlutfallið 20%. Skýringin er ekki augljós en Svíarnir töldu hluta hennar vera að konur hafa í auknum mæli lagt fyrir sig lækningar og fyrirmyndargrundvöllur unga fólksins því breikkað. Samhliða var gerð sambærileg könnun meðal sænskra lögfræðinga en þar var hlutfall lögfræðingabarna talsvert lægra og hafði haldist óbreytt lengi.

Hvað ætli fái unga fólkið til að feta í fótspor foreldranna hinn hlykkjótta stíg sem læknanámið getur verið? Erum við læknar að dásama starfið heima fyrir eða ómeðvitað að varpa frá okkur ímynd sem börnin okkar vilja líkjast? Í fjölmiðlum berast fréttir af uppgefnu heilbrigðisstarfsfólki sem er að hugsa sinn gang hvað varðar starfsvettvang og jafnvel með starfsgetuna sjálfa á hálum ís.

Ólíklegt er að læknastéttin fái stjörnu í kladdann fyrir nægan tíma með börnum sínum sökum langra vinnudaga og vaktabyrði. Skyldi það vera málið? Sjálfur er ég stolt hjúkkubarn og mögulega fékk það mig til að íhuga heilbrigðisgeirann en nú á ég víkjandi hlut í ungum manni sem er í fyrri hálfleik læknanámsins. Ég hvorki hvatti hann né latti, alla vega ekki meðvitað, en fylltist stolti er hann fór í gegnum síuna. Um daginn spurði ungi maðurinn hvenær við feðgarnir gætum átt von á að vera saman á vakt. Mér fannst ég heyra í röddinni eftirvæntingartón. Já, þetta er málið, hugsaði ég. Þau velja sama starfsvettvang í von um að innheimta samveruna sem við skuldum þeim úr æsku. Ég fann fyrir undarlegri blöndu af stolti og gamalgrónu samviskubiti. Þessar elskur.

Þetta samviskubitna og sjálfsupphafna hugarjórtur vék fyrir rökhugsun. Auðvitað hefur það verið þekkt öldum saman að elta foreldrana í starfsvali af skyldurækni og nauðsyn. Nú ræður för symfónía ólíkra þátta. Samkeppnispróf laða að keppnisfólk en líklega vegur þyngst jákvæð ímynd af starfinu, fræðilegur áhugi, löngunin að hjálpa náunganum og sú virðing sem lengi hefur fylgt starfsheitinu þó hafi nú rýrnað eitthvað. Einnig skiptir miklu máli að eftir kjarnanámið opnast heill heimur fjölbreyttra sérgreina og sjálfsþroskamöguleikarnir eru endalausir.

Hvað er slæmt við það að starfið gangi í erfðir? Tja, ekki margt sem mér dettur í hug utan skemmtilegri fjölbreytni mannflórunnar en hugsanlega gæti samfélagið verið að fara á mis við bætta lýðheilsu sem fylgir því að eiga hinn eina sanna lækni í fjölskyldunni. Rannsóknir sýna að fjölskyldur lækna eru við betri heilsu og lifa lengur. Góðar fréttir fyrir læknabörn og fjölskyldur þeirra vissulega en sjálfsagt væri að deila gleðinni eitthvað.

Lengi hafa fleiri viljað læra læknisfræði en komast að í náminu og ræður þar mestu að kennslusjúkrahúsin geta bara tekið við takmörkuðum fjölda nema. Nám í læknaskólum erlendis er þó að breyta þessu landslagi blessunarlega og þaðan hafa komið góðir kollegar sem hafa að auki í pokahorninu þann lífsþroska sem hlýst af því að flytja milli landa og kynnast öðru samfélagi. Samkeppnisprófin eru kafli út af fyrir sig og henta fólki misvel. Mörg okkar þekkjum dæmi þess að vegna prófanna hefur stéttin misst af frábæru heilsteyptu fólki er hefðu orðið framúrskarandi læknar.

Læknar og jafnvel læknabörn eldast og hitta þá ekki ósjaldan fólk sem segir í spítalasögum sínum frá kynnum sínum af læknum sem það hélt að væri um fermingu. Sjálfur fékk maður fyrstu árin sem fullgildur sérfræðingur í heimilislækningum spurninguna: „Ertu örugglega búinn með námið?“ Ég finn að fólk ber meira traust til manns eftir að Elli kerling fór að strjúka manni um vanga með byrjandi gráma og bandvefshrörnun. Traustið sem fylgir þeim gráu finnst manni nú ekki endilega verðskuldað, alla vega ekki hvað varðar ferskleika í fræðunum. Þegar ég fer og heilsa upp á medisvínið í bakgarðinum hefur það sjaldan virst jafnrýrt og aumingjalegt en það getur þó átt það til að róta með sínu þjálfaða trýni í jarðvegi Gúgglands og grafa upp þokkalega ætileg hnýði af og til. Á móti kemur að samskipti og hugmyndasöluhæfileikar liprast með árunum og vonandi verður hugsun heildrænni. Maður áttar sig betur á því hversu mikil hjálp og styrkur felst í góðu og traustu samstarfsfólki. Enginn maður er eyland.

Forn-Grikkjum þótti yngri kynslóðin klárlega síðri en sú eldri. Mín reynsla er að þessu er öfugt farið með okkar stétt. Eftir að hafa fengið að kynnast unga fólkinu er mín upplifun sú að þau séu heilsteypt fólk með frábæra samskiptafærni, áhuga, þekkingu, fagmennsku og vinnusemi. Maður hálfsaknar slugsans í árganginum til að geta dregið augað föðurlega í pung og sagt eitthvað mátulega gagnrýnandi og uppbyggjandi í senn en þessi tegund virðist vera í bráðri útrýmingarhættu. Það sem meira er um vert: aðdáunarverð framkoma yngri kolleganna einkennist af hlýju, virðingu og góðvild gagnvart skjólstæðingum. Þetta á meira að segja við um skurðlæknanemana líka, og lýk ég þar með máli mínu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica