03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Bergrós Kristín Jóhannesdóttir

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 6. janúar 2023. Ritgerðin ber heitið Alvarlegir æða- og brjóstholsáverkar í norrænu sjúklingaþýði.

Andmælendur voru Timothy Resch, prófessor og yfirlæknir við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, og Fredrik Yannopoulous, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Oulu, Finnlandi. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson prófessor og auk hans sátu í doktorsnefnd Sigurbergur Kárason prófessor, Karl Logason lektor og Elsa Björk Valsdóttir lektor.

Úr ágripinu

Ritgerðin byggist á 5 vísindagreinum. Rannsóknirnar sýndu að alvarlegir æðaáverkar eru sjaldgæf dánarorsök á Íslandi og í Vestur-Noregi. Áverkarnir hljótast oftast af umferðarslysum, ólíkt því sem tíðkast í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem skot- og hnífaáverkar eru algengari orsök alvarlegra æðaáverka. Niðurstöðurnar staðfesta einnig háa 30 daga dánartíðni við áverka á ósæð, sérstaklega þegar þeir verða í dreifbýli. Nýgengi stunguáverka sem kröfðust innlagnar á Íslandi hélst nokkuð stöðugt á þeim 16 árum sem rannsökuð voru (2000-2015). Samanborið við hin Norðurlöndin var árangur eftir bráðar brjóstholsskurðaðgerðir ágætur hér á landi, jafnvel þó að sjaldan þurfi að grípa til þeirra.

Bergrós með doktorsritgerðina sína fyrir utan hátíðasal HÍ. Mynd/Gunnar Sverrisson

Doktorinn

Bergrós Kristín er stúdent frá náttúrufræðideild MR og lauk embættisprófi frá læknadeild HÍ 2011. Hún leggur stund á æðaskurðlækningar á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu í Bergen í Noregi, þar sem hluti doktorsverkefnisins var unninn.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Eldri bróðir minn hafði þegar farið í gegnum námið og mér fannst læknastarfið virka sem spennandi starf. Þar að auki hefur mannslíkaminn alltaf heillað mig.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Það fer eftir dögum og hvar maður er staddur í doktorsnáminu. En með góðum stuðningi frá fjölskyldu, vinnustað og leiðbeinanda er meðalerfiðleikaskalinn um 7. Þetta snýst allt um góða skipulagningu og tímastjórnun.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Að vera heilbrigðisráðherra á Íslandi í núverandi árferði getur ekki verið auðvelt. En mitt fyrsta verk yrði að styrkja heilsugæsluna og hjúkrunarheimilin. Kjarnastofnanir sem stuðla að góðu flæði til og frá sjúkrahúsinu og auðvelda þar með starfið sem sjúkrahúsið á að sinna. Svo er eitt lykilatriði: að hlusta á raddir heilbrigðisstarfsmanna sem starfa á gólfinu.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Það hafa ekki verið margar lausar stundir í lestur, en síðasta hljóðbók sem ég hlustaði á var The Art of Sleeping eftir Rob Hobson. Ef ég hef tíma fyrir sjónvarpsþætti er valið venjulega matreiðsluþættir eins og Top Chef og Master Chef.

Mér finnst íslensk tónlist alveg frábær og íslenskt tónlistarfólk svo einstakt og hæfileikaríkt. Sem dæmi má nefna Árstíðir, Bríeti, Ásgeir Trausta, Ragnheiði Gröndal, og er listinn í raun endalaus. Ég finn því oft góðan íslenskan spilunarlista á Spotify og læt í gang.

Mín uppáhalds líkamsrækt er göngutúr. Að fara ein út í göngutúr með góða tónlist eða hljóðbók í eyrunum hreinsar og endurstillir hugann og gefur manni góða hreyfingu í leiðinni.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Skemmtilegast og mikilvægast fyrir mig þegar ég er ekki í vinnunni er að njóta samveru með fjölskyldunni. Við reynum að nýta okkur yndislegu náttúruna sem við höfum í Bergen og göngum á fjöllin í kring. En ef það er rigningardagur höfum við það huggulegt inni og bökum saman og eldum góðan mat.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica