03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókadómur. Einar Thoroddsen þýðir Skírnarfjall Dantes. Þórður Harðarson

Dante var læknir, einn af oss. Jæja – hann var að minnsta kosti félagi í hinu virta gildi lækna og lyfsala í Flórens (merkilegt nokk fengu skurðlæknar og bartsnyrtar stundum aðild með semingi). Flestir telja að formlegt læknisnám Dantes hafi verið brotakennt. Þó er líklegt að hann hafi sótt fyrirlestra hjá Alderotti í Bologna sem var einn frægasti læknir samtíðar sinnar og aðhylltist kenningar Hippókratesar fremur en kirkjufeðranna.

Í verkum Dantes kemur fram læknisfræðileg þekking. Hann lýsir einkennum malaríu og ýmissa taugasjúkdóma, einkum í Vítisbók. Í Divina Commedia (Víti) er vitnað til frægra lækna og vísindamanna, svo sem Aristótelesar, Galens og Hippókratesar, sem hann nefnir hinn mikla eða hávelborna. – Dante er sem sagt okkar maður.

Einar Thoroddsen þýðandi og læknir.

Er það nýlunda að íslenskur læknir takist á við stórvirki eins og Gleðileikinn? Því fer fjarri. Það nægir að minna á tvö þýðingarafrek úr klassískum bókmenntum: Þýðingu Daníels Daníelssonar á sonnettum Shakespeares og Stefáns Steinssonar á Gilgamesarkviðu og Rannsóknum Heródótosar. Í læknastétt úir og grúir af góðum þýðendum á lausu máli. Í þeim hópi má nefna Þórarin Guðnason, Bjarna Bjarnason, Kristínu Ólafsdóttur, Jónas Rafnar og Kristin Björnsson. Skáldin eru mörg, sum hagyrðingar, önnur stórskáld: Guðmundur Björnsson, Valgarður Egilsson, Ferdinand Jónsson, Hjálmar Freysteinsson, Brynjólfur Ingvarsson, Gunnar Gunnlaugsson, Páll Ásmundsson og fleiri.

Með þýðingu sinni á Gleðileiknum guðdómlega hefur Einar Thoroddsen öðlast heiðursess við þessa skáldahirð. Þegar liggur fyrir þýðing hans á Víti (Inferno), sem kom út árið 2018, en nú hefur bæst við bókin um Skírnarfjallið (Purgatorio). Einar æfði sig raunar á árum áður á Heine með miklum ágætum, en með Danteþýðingunni hefur hann tekist á hendur að klífa veggbrattan hamar, sem fáum mun fær. Þar er margs að gæta. Í fyrsta lagi blasir við rímþraut. Bragarhátturinn er tersína: aba bcb cdc … eins og í Gunnarshólma Jónasar, en jafnvel Jónas gafst upp undir lokin („Þar sem að áður akrar huldu völl“ o.s.frv). Einar brestur ekki örendið. Hann eykur sér líka púlsmennskuna með norrænni stuðlasetningu, sem Dante var vitanlega undanþeginn. Þá er að nefna táknmál og skírskotanir Dantes, sem Einar kemur vel til skila, stundum með neðanmálsskýringum. Þrjár stjörnur tákna von, trú og kærleika, refur táknar vantrú. Loks gerir verkið kröfu til listrænnar tignar og fagurfræði. Þennan vanda allan leysir Einar með láði. Þess mætti geta í framhjáhlaupi að Guðmundur Böðvarsson skáld þýddi fyrstu kviðurnar í Víti, sem komu út 1968: Guðmundur var gagnrýndur á þeim dómharða tíma fyrir að nota rím og stuðla. Engum dytti það í hug í dag. Erlingur Halldórsson þýddi Gleðileikinn á prósa.

Einar Thoroddsen hefur raust sína lystilega:

Faldi lyftir lítil skáldafleyta

og tekst af grimmu hafi ferð á hendur

hún svo megi rórri vatna leita

og syngja mun ég, en um aðrar lendur

hvar andi manna laugar burtu syndir

uns verður er að verða himni sendur …

Fljótlega verður ljóst hve sjónhringur Dantes er víður. Hann lýsir til dæmis suðurkrossinum: – „Geislar á hans andlit féllu niður / allra þeirra helgu fjögra hnatta.“ Honum er kunnugt um tímamismun Flórens og Jórsala og svo Gangesbyggða. Hann hefur líka veður af Evklíð: miðjulínugeiri og miðjufjórðungur hrings eru skilgreindir. Ættanna Capellu og Montegu er getið eins og hjá Shakespeare. Farfuglar dvelja við Níl. Víða kemur fram víðtæk þekking á sögu fornaldar og samtíma.


Dante Alighieri eftir Botticelli. Hann ber einkenniskápu læknafélagsins.

Skírnarfjallið er að hluta heimsósómaljóð. Dante verður tíðrætt um niðurlægingu mannlífs á Ítalíu („Ó Ítalía, áþjáð gistibani / stjórnlaust skip í hæsta veðurhami“) og hann úthúðar samtímamönnum, sem borið hafa ábyrgð á ástandinu. Hann minnist Aþenu með söknuði.

Einar laumar stundum inn í textann kátlegum nútímaorðum eins og asnaskapur, smart og fatta. Hann smíðar líka ný orð: „við komum á ströndu strama.“ Ég finn ekki orðið stramur í orðabók. Þekktar ljóðahendingar eru honum akur: fljót á flúðum duna og köld er sjávar drífa. Grasa-Gudda kemur við sögu. Allur ber texti Einars með sér einstakt listfengi og hugmyndaauðgi.

Dante klífur Skírnarfjallið með Virgil. Á leiðinni hitta þeir félagar fulltrúa hinna ýmsu höfuðsynda: hroka, öfundar, reiði, þunglyndis, ágirndar, ofáts og munúðlífis, og Dante nafngreinir oftast óvini sína meðal syndaranna. Þó vekur það undrun hve lítt hann víkur að þjáningum þeim sem vænta mætti í hreinsunareldi. Fjallið er biðstöð fremur en kvalastaður. Fjallsbúar eiga vonina og iðrunina sameiginlega. Endrum og sinnum opnast nýju sálartetri leið upp til himna og þá skelfur fjallið af gleði í hæverskum jarðskjálfta.

Líklega er kómidían táknmynd ferðalags sálarinnar um iðrunarklungur til drottins náðar. Jarðbundnari skýring væri sú að Dante hafi gert sér ljóst, að hin guðlega skipun kaþólsks trúfélags hefði brugðist tilgangi sínum, það er dyggðum prýddu samlífi. Skáldið leggur áherslu á að vilji mannsins sé frjáls, en misnoti hann frelsið til illverka, má búast við þjáningaradvöl á Skírnarfjallinu eða jafnvel í Víti. Þessi guðlega skipan mála hefur þó alls ekki tryggt farsælt mannlíf í samtímanum. Þar er allt á vonarvöl og Dante sér meiri von í fyrirmynd hinnar fornheiðnu Aþenu eða Rómarborg Ágústusar.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica