03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi sérnámslæknis. Hrafnhildur Runólfsdóttir

07:30 Stilli vekjaraklukkuna til að vakna á undan fjölskyldunni, líka um helgar. Munaður að njóta fyrsta kaffibolla dagsins í ró og næði. Framundan er helgarvakt á bráðadagdeild lyflækninga – nýrri deild á Landspítala sem er ætlað að þjónusta sjúklinga með aðkallandi vandamál á sviði lyflækninga. Hugmyndin kviknaði þegar ég vann á COVID-göngudeildinni og stjórnendur sáu tækifæri til að heimfæra vinnulagið þar yfir á önnur svið. Deildin sinnir tilvísunum frá læknum innan og utan Landspítala, meðal annars frá heilsugæslu og hjúkrunarheimilum. Hleyp út í bíl 5 mínútur í 9, alltaf á síðustu stundu.

Glæný mynd af Hrafnhildi sem Auður Katrín Linnet Björnsdóttir tók.

09:00 Yndislegt samstarfsfólkið tekur brosandi á móti mér - allir mættir og byrjað að undirbúa daginn. Förum yfir erindi sem hafa borist síðastliðinn sólarhring og forgangsröðum verkefnum. Lítum yfir stöðuna á bráðamóttökunni og könnum hvort einhverjir á biðstofunni gætu komið til okkar. Þar er kona með tilvísun frá Læknavaktinni vegna gruns um lungnabólgu sem við bjóðumst til að sinna, ljúkum við uppvinnslu og hefjum meðferð. Henni líður fljótlega betur og fer heim með endurkomutíma á morgun í sýklalyfjagjöf og endurmat. Fáum líka til okkar einstakling með krabbamein og næringarvanda sem þarf vökva í æð og nýja magasondu. Síminn hringir og vaktstjórinn á bráðamóttökunni spyr hvort við getum tekið við manni sem er með gulu en að öðru leyti við þokkalega líðan. Blóðrannsóknir leiða í ljós röskun á lifrarprófum með hækkun á bilírúbíni og grunurinn beinist fljótlega að sýklalyfjameðferð sem hann hóf fyrir rétt um viku. Ég ræði við vakthafandi meltingarlækni til að ákvarða næstu skref og fæ tíma fyrir viðkomandi á göngudeild meltingarlækninga, en þangað til verður eftirliti sinnt hér.

12:30 Tími til að grípa matarbita. Hitti sérnámslæknana sem eru á vakt fyrir lyflækningateymin um helgina og læt tilleiðast að setjast niður með þeim í nokkrar mínútur. Frábærir kollegar og líflegar umræður að vanda.

13:00 Nokkrir sjúklingar hafa bæst við enda aðflæðið oftast meira þegar líður á daginn. Sjáum ýmis vandamál, meðal annars svæsna húðsýkingu, bráðan nýrnaskaða, nýgreint blóðleysi og grun um sýkingu í nýra. Reynum að láta allt ganga hratt og þökk sé góðri samvinnu við myndgreiningardeildina er unnt að ljúka öllum rannsóknum fljótt og vel. Hitti síðan á vakthafandi sérfræðing í lyflækningum og við förum yfir tilfellin og leggjum drög að meðferðaráætlun. Í þetta skipti stefnir í að allir skjólstæðingar okkar komist heim en flestir með bókað endurmat að morgni.

18:00 Lýk við nóturnar í sjúkraskrá og hringi síðustu símtölin sem felast í eftirliti með líðan, mati á árangri meðferðar og að upplýsa um niðurstöður rannsókna. Líst þannig á einn sjúklinga okkar að ég bóka hann í skoðun strax morguninn eftir. Skýst svo í ræktina til að klára hlaupaæfingu dagsins. Góð leið til að hreinsa hugann og hlusta á hlaðvarpsþátt The Curbsiders á meðan – að þessu sinni áhugaverður þáttur um gáttatif.

19:30 Endurnærð eftir æfinguna fer ég heim í kvöldmat – sushi er það sem hugurinn girnist á þessu laugardagskvöldi. Förum yfir daginn meðan við njótum matarins og ég sannfæri 5 ára barnið um að smakka nokkra bita þó hann geri sitt besta til að streitast á móti. Hann dregur mig svo fljótlega í leik og umræðu um búsetusvæði snæhlébarða og ég neyðist til að grípa í símann til að leita svara við nokkrum brennandi spurningum. Það er áskorun að velja laugardagsmyndina en við sammælumst að endingu um spennumynd sem unglingurinn á eftir að sjá. Ég fylgist með en sinni líka rannsóknarverkefnum á meðan.

23:30 Vinna á morgun og þreytan sækir að en að vanda freistast ég til að vaka lengur því það er svo nærandi að lesa. Hugsa svo með tilhlökkun til kaffibollans í fyrramálið þegar ég stilli vekjaraklukkuna.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica