03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Auka sjálfstraust við sitjandi fæðingar, danskur fæðingarlæknir kennir réttu aðferðina

Danskur fæðingarlæknir hefur síðustu mánuði kennt íslenskum fæðingarlæknum og ljósmæðrum réttu handtökin þegar börn fæðast sitjandi. „Standandi fæðingar eru lykillinn að betri árangri,“ segir Kamilla Gerhard Nielsen

„Hræðsla okkar heilbrigðisstarfsfólks leiddi af sér að konur fóru frekar í keisara en að ganga í gegnum fæðingu sitjandi barns. Nú þegar okkur líður vel með sitjandi fæðingar tel ég að konum muni á endanum einnig líða þannig,“ segir Kamilla Gerhard Nielsen, danskur fæðingarlæknir sem hefur síðustu 6 mánuði verið hér á landi og kennt réttu handtökin. Hún hefur kennt víða um lönd.

Kamilla Gerhard Nielsen og Svanlaug Arnardóttir á námskeiði um fæðingar sitjandi barna. Þær unnu náið saman í Danmörku og kenndu námskeiðið saman. Það munu þær einnig gera í október næstkomandi og verður viðfangsefnið þá ótti í fæðingum, segir Kamilla. Mynd/Védís

 

55 fæðingarlæknar og ljósmæður frá Landspítala sátu námskeið hennar nú í febrúar í húsakynnum Læknafélagsins. Hinn helmingur deildarinnar hitti hana á samskonar námskeiði í nóvember. Þá hefur hún einnig kennt á Akranesi og Suðurnesjum. Hún segir að á Landspítala hafi þurft að kalla út þau sem bjuggu yfir reynslu af sitjandi fæðingum sérstaklega, væru þau ekki á vakt, en nú eftir námskeiðið eigi öll að geta sinnt því starfi.

„Við kennum hvernig betur gengur þegar konur annaðhvort standa eða eru á fjórum fótum í fæðingu í stað þess að liggja á bakinu,“ segir Nielsen. Sagt er frá því í danska læknablaðinu, Ugeskrift for læger, að árið 2016 hafi hún komið heim frá Nýja-Sjálandi með boðskapinn um standandi fæðingar þegar börnin sitja, hún sé frumkvöðull. „Þannig vinnur þyngdarlögmálið með þeim.“

Við Læknablaðið segir hún mikilvægt að barnið komi í gegnum fæðingarveginn á 5 mínútum. „Hér áður var jafnvel beðið eftir næsta rembingi en þar sem naflastrengurinn klemmist þegar barnið leggst saman er betra að bíða ekki,“ segir Nielsen sem rekur stofuna Obstetriwise í Danmörku þar sem markmiðið er að lágmarka inngrip við fæðingar.

Nielsen segir vandkvæði verða í einni af 1000 hefðbundnum fæðingum en um 2-3 af 1000 við sitjandi. Hins vegar séu vísbendingar um að þau séu ekki fleiri ef konurnar standi. „En við eigum enn eftir að fá staðfestingu á þeirri tilfinningu okkar.“

Hún segir að á gömlu deildinni sem hún starfaði á í Danmörku ákveði nú 80% þeirra kvenna sem sjái fram á sitjandi fæðingu barna sinna að fæða í stað þess að fara í keisaraskurð. Það hafi 60% gert áður en aðferðinni var breytt. „En við sjáum líka að rembingstíminn er almennt styttri við sitjandi fæðingu en þegar hausinn kemur á undan. Konur lýsa einnig minni sársauka því rasskinnar litlu skinnanna eru mýkri en hausinn.“

En er munur á dönskum og íslenskum konum þegar kemur að fæðingum? „Nei,“ segir hún. „En ég get þó sagt að mér finnast íslensku konurnar hugsanlega sýna aðeins meira sjálfstraust þegar kemur að náttúrulegu ferli fæðinga. Þær eru kannski aðeins meiri víkingar í sér,“ segir hún í léttum tóni. Báðar þjóðir búi við mikla þekkingu ljósmæðra.

„Ég hef farið víða og kennt fæðingartækni og séð margt. Við norrænar konur stöndum vel, þar sem sérhæfingin er mikil. Til dæmis eru engar sérhæfðar ljósmæður í Indlandi og fjölda suður-amer-ískra landa.“

Nielsen mun nú verða til taks fyrir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk á meðan það nær tökum á tækninni.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica