02. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Hjólað í vinnuna árið 1976
Dagblaðið Vísir sendi fréttamann og ljósmyndara uppí Hraunbæ til að taka mynd af mér, Ársæli Jónssyni lækni, á leið til vinnu í ágúst 1976. Óvenjulegt var að menn hjóluðu til vinnu í þá daga. Nágrannarnir lýstu líka undrun sinni og spurðu Gyðu konu mína hvort það hefði virkilega verið hennar maður, sem þeir sáu hjólandi á reiðhjóli?
Myndin sem birt var í Vísi er tekin í Hraunbænum.
Ég var nýfluttur heim í Hraunbæinn með fjölskylduna eftir framhaldsnám og búsetu í Bretlandi. Var ráðinn í afleysingastöðu á lyflæknisdeild Landspítala en þar sem strætisvagnasamgöngur voru óþjálar, varð úr að ég keypti notað Philips-hjól af góðum Kópavogsbúa.
Var óvanur hjólreiðum og valdi að hjóla fyrst í stað utan gatna – eftir hitaveitustokknum, sem lá frá Reykjum í Mosfellssveit gegnum Ártúnsholt, yfir Elliðaár, gegnum Smáíbúðahverfi, yfir Leitin og til Öskjuhlíðar.
Styrkur í fótum og öryggiskennd óx hröðum skrefum og fljótlega var svo hjólað með bílaumferðinni án vandkvæða. Reyndar var hraðinn helmingi hægari en bílaumferðin, sem passaði fyrir tvenn græn ljós, þegar bílarnir fóru á einu.
Í barnæskunni voru hjólreiðar ekki óalgengar en erfið færð, gæði reiðhjóla og góðar strætisvagnasamgöngur höfðu sitt að segja.
Á ferlir.is er nánar sagt frá sögu hjólreiða á Íslandi, meðal annars frá Guðmundi Björnssyni héraðslækni, síðar landlækni og þingmanni, sem hjólaði í sjúkravitjanir um allan bæ á fyrsta áratug 20 aldar. Þá notaði Ólafur Þorsteinsson læknir hjólið sitt í sjúkravitjanir um allan bæ fram til 1930. Bjarni Snæbjörnsson læknir valdi oftast hjól fram yfir bifreið til þess að sinna vitjunum í Hafnarfirði. Bílstjóri á Læknavaktarbílnum sagði frá því þegar Lára Halla Maack geðlæknir starfaði sem aðstoðarborgarlæknir um hríð. Hún var fljótari að komast á vettvang á hjóli frá Barónsstíg að svara kalli í Breiðholti en lögreglan á sínum bílum. Minnast má annars geðlæknis, sem hjólaði með rafstuðtæki á bögglaberanum og læknaði djúpt þunglyndi í heimahúsum. Þá gátu læknar hjólað hjálmlausir um borgina fyrir allra augum. Í dag þekkjast þeir síður á götunum vegna hraðans, hjálma á höfðum og annars staðalútbúnaðar.
Á áratugunum um og eftir stríð var notkun reiðhjóla algeng. Með tilkomu betri farartækja dró úr notkun þeirra, og þegar ég hjólaði í vinnuna árið 1976 vakti það nokkra athygli. Það er af og frá að ég telji mig hafa haft í frammi nokkra frumkvöðulstilburði árið 1976, en síðan þá hafa hjólreiðar vaxið gríðarlega í Reykjavík. Í dag er reiðhjólið notað til að komast ferða sinna, til keppnisíþrótta, ferðalaga og til heilsubótar.