02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi innkirtlalæknis. Arna Guðmundsdóttir

Fimmtudagur 19. janúar 2023

07:00 Þarf ekki vekjaraklukku í dag þar sem Elmar, nýi hvolpurinn okkar, laumar sér inn í svefnherbergi og sleikir á mér höndina. Tími til að vakna. Eiginmaðurinn fer með hann í morgungöngu á meðan ég skelli í mig fyrsta kaffibollanum af mörgum. Ég fékk reyndar að sofa aðeins lengur í morgun þar sem allar sundlaugar borgarinnar eru lokaðar í frosthörkunum. Annars hefði ég verið komin á Garpaæfingu í Sundhöll Reykjavíkur eins og venjan er á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum.

08:00 Geng í vinnuna á Landakoti sem tekur reyndar aðeins 6 mínútur. Þvílík lífsgæði sem þetta eru og nú man ég að Landspítali býður upp á samgöngusamning, þarf að kanna það mál.

08:15 Teymisfundur á L-2. Hér hef ég starfað frá því í október sl. Þá var tekin sú ákvörðun að manna þar endurhæfingardeild á vegum lyflækninga sem hefur það hlutverk að undirbúa sjúklinga fyrir útskrift heim. Þessi starfsemi er mjög þörf viðbót við bráðadeildir lyflækninga sem staðsettar eru í Fossvogi. Við tökum við sjúklingum sem hafa að mestu lokið meðferð á þeim bráðavanda sem leiddi til innlagnar. Undanfarnar vikur hafa flestir sjúklinganna verið að jafna sig eftir veirupestir, svo sem inflúensu og COVID-19. Aðrar algengar ástæður innlagna eru byltur, minnistap, hrumleiki og vandamál tengd áfengisneyslu. Lyflækningasviðið hefur einnig tekið yfir þjónustu á deild L-3 á Landakoti sem er heimiliseining eða biðdeild fyrir einstaklinga sem bíða eftir varanlegri vistun á hjúkrunarheimili. Loks stendur til að deild L-5 verði einnig á okkar vegum en þar verður einkum sinnt líknandi meðferð fyrir aldraða.

Á Landakoti starfa gríðarlega öflug teymi sjúkra- og iðjuþjálfara, félags- og næringarráðgjafa, framúrskarandi hjúkrunarfræðinga og fleira starfsfólks sem allt leggst á árarnar við að búa sem best og öruggast um hnútana þannig að viðkomandi sjúklingar geti snúið aftur í sjálfstæða búsetu. Í framtíðinni þurfum við að huga að enn betri þjónustu við einstaklinga í heimahúsum til að stytta dvöl á sjúkrahúsinu eins og hægt er.

Arna skutlaðist niðrí Hörpu á rafmagnshlaupahjóli. Mynd/Védís

09:00 Eftir stuttan morgunfund greip ég næsta Hopp-hjól og brunaði niður í Hörpu til að sækja Læknadaga. Hlustaði á áhugaverð málþing um beinþynningu og breytingarskeið ásamt því að spjalla við vini og kollega. Það læðist að mér sú hugsun hvort að það þurfi ekki að fara varlega í að auka meðvitund og umræðu um breytingaskeiðið til þess að sjúkdómsvæða ekki um of þetta náttúrulega ferli. Ferli sem endar gjarnan með besta skeiði lífsins!

Læknadagar eiga sérstakan sess í hjarta mér eftir að ég sá um að skipuleggja þingið um 8 ára skeið, frá 2005 allt til ársins 2013. Ég hef lengi haft hugmyndir um að það væri hægt að gera Læknadaga að alþjóðlegu símenntunarþingi og skora hér með á núverandi stjórn að skoða þann möguleika fyrir alvöru.

16:00 Yfirfer fundargerð frá síðasta stjórnarfundi Almenna lífeyrissjóðsins sem haldinn var fyrir tveimur dögum. Þetta var vinnufundur stjórnar þar sem verkefnið var að rýna fjárfestingastefnu sjóðsins. Ég hafði lagt mikla vinnu í að yfirfara fjárfestingastefnur sambærilegra sjóða sem bjóða mismargar iðgjaldaleiðir og ólíkar ávöxtunarleiðir séreignar. Almenni lífeyrissjóðurinn kom vel út úr þessum samanburði mínum. Sjóðfélagavefurinn okkar er nýr og afar vel hannaður og ég er mjög stolt af þeirri vönduðu þjónustu sem Almenni veitir.

19:00 Barnabarnið, lítill Thor Aspelund, kemur í pössun í fyrsta sinn. Hann er nú 8 vikna og rétt að byrja að brosa. Ég var vel undirbúin með snuð og pela auk þess að vera hokin af reynslu. Hugsa með mér, þetta getur ekki klikkað.

23:30 Komin í rúmið með Kindelinn og lofa sjálfri mér því að hætta nú að lesa fyrir miðnætti, sérstaklega eftir að hafa hlustað á fyrirlestur í dag um mikilvægi svefns. Ég svík þetta loforð á hverju kvöldi þegar ég nýt þess að hverfa inn í heillandi heim bókmenntanna.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica