02. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Samtöl um áherslur og aðgerðir í heilbrigðismálum á Íslandi. Theódór Skúli Sigurðsson
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Athygli vakti sumarið 2021 þegar 1000 íslenskir læknar kröfðust, með undirskriftum sínum og fordæmalausri áskorun til stjórnvalda, aðgerða í heilbrigðismálum þjóðarinnar.
Í áskorun sinni kröfðust læknarnir úrbóta í öldrunarmálum, lausna á vanda Landspítala, stuðnings við heilsugæsluna, samninga við stofulækna, endurskoðun á réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks og aukins samráðs í tengslum við kerfisbreytingar í heilbrigðiskerfinu.
Alvarlegir brestir íslenska heilbrigðiskerfisins urðu öllum ljósir í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins, þegar aflétting samfélagslegra takmarkana fór á endanum að snúast um að verja heilbrigðisstofnanir. Andvaraleysi stjórnvalda í heilbrigðismálum var búið að vera slíkt, þrátt fyrir endurteknar viðvaranir um alvarlega stöðu, að á endanum vaknaði sofandi risi af værum blundi. Risinn, var ný kynslóð samstiga lækna í forystu Læknafélags Íslands, sem hefur látið hressilega í sér heyra síðustu misseri. Í hundruðum blaðagreina og viðtala hafa læknar rætt staðreyndir og lagt fram lausnir sem núna enduróma í almennri umræðu ásamt kröfu um tafarlausar úrbætur í heilbrigðismálum.
Hverju hefur sterkari tónn frá LÍ skilað?
Í amstri hins daglega lífs inni á heilbrigðisstofnunum, er skiljanlegt að margir upplifi alltof litlar breytingar, þrátt fyrir loforð og aðgerðir til úrbóta. Stöðnun íslenska heilbrigðiskerfisins var algjör og hefur tekið nokkurn tíma að ryðja gömlum hindrunum úr vegi. Nýr heilbrigðisráðherra hefur tekið við stjórnar-taumunum í heilbrigðisráðuneytinu og strax má greina breytt viðhorf og raunverulegar aðgerðir, þar sem Læknafélagi Íslands mæta nú opnir armar í stað lokaðra dyra. Afraksturinn er sá að Læknafélag Íslands á í dag fulltrúa í fjölmörgum starfshópum sem vinna ötullega að úrbótum í þeim málum sem læknar settu á oddinn í áskorun sinni til stjórnvalda. Fyrirsagnir í fjölmiðlum munu ekki marka sporin, heldur mikil vinna og samtöl á bakvið tjöldin.
Félag sjúkrahúslækna heldur ótrautt áfram að beita sér fyrir bættu starfsumhverfi lækna á Íslandi. Á næstu mánuðum lýkur vinnu við endurskoðun á réttarstöðu heilbrigðisstarfsmanna, stofnun trúnaðarmannakerfis, mat á læknamönnun til framtíðar og mótun nýs vinnuskipulags lækna á Landspítala.
Öldrunarmál ættu að vera í algjörum forgangi
Íslenska þjóðin er að eldast hraðar en heilbrigðiskerfið ræður við og endurspeglast það helst í sligandi fráflæðisvanda Landspítala. Léleg nýting Framkvæmdasjóðs aldaðra í þágu uppbyggingar í öldrunarmálum árin eftir fjármálahrunið þolir illa skoðun og skýrir að hluta alvarlegan skort hjúkrunarrýma í dag. Aldraðir eru í gíslingu sveitafélaga og stjórnvalda, þar sem báðum aðilum hentar ágætlega framtaksleysi og skortur á framtíðarsýn af sparnaðar-ástæðum. Alvöru þrýsting vantar á sveitarfélög sem halda áfram að vanrækja skyldur sínar, í uppbyggingu þjónustu-úrræða fyrir aldraða. Tímabært er að taka upp dagsektir að erlendri fyrirmynd, gegn sveitarfélögum sem ekki taka strax við öldruðum í viðeigandi hjúkrunarrými eftir að hafa lokið meðferð á heilbrigðisstofnunum.
Framtíð ríkisstjórnarinnar er í húfi – standið ykkur eða við skiptum ykkur út!
Í dag er komið að ögurstund íslenska heilbrigðiskerfisins og núverandi ríkisstjórnar.
Sorgleg innkoma Vinstri grænna í heilbrigðisráðuneytið olli talsverðum töfum á nauðsynlegum aðgerðum innan heilbrigðiskerfisins. Falskur söngur eins þaulsætnasta fjármálaráðherra Íslandssögunnar í skugga verðandi fjárlaga um fjármögnun Landspítala og fjármálalæsi hjálpaði ekkert í holskeflu veikinda sem dundu yfir þjóðina um áramótin. Í taktlausum bakröddum Valhallarkórsins heyrast svo ítrekað villandi ranghugmyndir bitlingafólksins um kaup og kjör heilbrigðisstarfsmanna.
Fjárlögin árið 2024 verða fyrstu alvöru fjárlög Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, eftir að hafa sett sig inn í nýjan málaflokk, óbundinn af hömlum og skilyrðum fyrrum heilbrigðisráðherra. Snúa þarf við áratuga óheillaþróun og vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum þjóðarsátt um sannkölluð „Heilbrigðisfjárlög“ með skýrri stefnumörkun um uppbyggingu í heilbrigðismálum.
Stjórnmálamenn Íslands þurfa að læra að treysta læknum, taka samtalið og hlusta á góð ráð.