01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Af tegundum baktería. Pétur Sólmar Guðjónsson

Bakteríurnar sem við berjumst við eru af mörgum og mismunandi toga. Seinustu fjögur ár er það fremur meinlaus baktería sem hefur tekið sér bólfestu í mínum hugarfylgsnum. Reyndar óraði mig ekki fyrir því að hún skyldi verða á mínum vegi. Því þegar ég bjó og starfaði á Íslandi var mér hulin ráðgáta hvernig menn og konur gátu lifað með henni.

Að upplagi er ég vél-hneigður og hefur alltaf fundist spennandi að fylgjast med þróun tækninýjunga i þeim efnum. Braskað og brallað með karli föður mínum undir sænskum eðalvögnum sem eru okkar ær og kýr. Ferðast mikið um hálendið á alls kyns sjálf knúnum farartækjum og oftar en ekki velt því fyrir mér hversu yfirmáta fráleitar hugmyndir fólk fær sem ferðast á reiðhjólum um Ísland og þá sérstaklega hálendi landsins.

Sjálfa tekin á gönguskíðum í Gautaborg 14. desember 2022.

Bakterían er reiðhjólamennska. Utanaðkomandi öfl hafa vissulega átt sinn þátt í að skapa þessa bakteríu. Það var nefnilega þannig að Landspítali borgaði mér fyrir að hjóla í vinnuna um skeið. Mér fannst mjög krefjandi að þurfa að taka mig fjóra kílómetra úr miðbænum upp í Fossvog. Verðlaunaði mig fyrir erfiðið með því að fara á bílnum einn dag í viku. Það mátti. Mér datt ekki í hug að svíkjast undan samgöngusamningum.

Við fjölskyldan fluttumst til Gautaborgar 2019 í framhaldsnám við Sahlgrenska-sjúkrahúsið. Nú er þannig í pottinn búið að ég hjóla í vinnuna í öllum veðrum, reyni að taka auka æfingu á heimleiðinni ef fjölskylduaðstæður leyfa. Það er beinlínis verra að keyra þar sem það tekur lengri tíma og þú verður af hreyfimínútum!

Kíki daglega á vefsíður með hjólum og hjóla-íhlutum og skoða reglulega hvenær við komumst í næsta hjólaleiðangur um vínhéruð Frakklands eða Ítalíu, nú eða fjallshlíðar Alpanna. Vandinn er síðan sá að þetta vindur upp á sig. Það er nefnilega ekkert eitt hjól sem gerir allt fyrir mann.

Tækifærin til að kaupa nýtt og betra hjól hafa skapast óþarflega oft (fjórum sinnum) hjá okkur þar sem vinnustaður okkar býður upp á fyrsta flokks aðstæður fyrir þjófa. Við erum hins vegar hvergi af baki dottin hvað varðar að endurnýja ferðamátann. Við höfum sagt þeim stríð á hendur og kaupum okkur alltaf nýtt.

Nú er það samt svo að þegar við komum i heimsókn til vina og ættingja í Reykjavík þá eru vegalengdirnar svo miklu lengri (sem ekki er raunin) og óyfir-stíganlegar (sem er raunin) á reiðhjóli. Viðbragðið er að við tökum bílinn.

Tímarnir breytast og mennirnir með sagði einhver, en aðstæður til breytinga skipta hins vegar höfuðmáli í þessum efnum.

Hjólaferðalag um Vestfirði! – það er yfirmáta frábær hugmynd.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica