01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin sem ég valdi: Af hverju lungnalækningar? Sólrún Björk Rúnarsdóttir

Ég útskrifaðist úr læknadeild HÍ 2006 og lauk kandídatsári frá Sjúkrahúsinu/Heilsugæslunni á Akranesi 2007. Eftir að hafa bæði mátað mig í heimilislækningum og bráðalækningum lá leiðin í námsprógramm í almennum lyflækningum sumarið 2008 en almennt hentar teymisvinnan innan lyflækninga og sjúkrahúsumhverfið mér vel.

Val á undirsérgrein er oft tilviljunum háð, hvaða deildum maður raðast á og með hverjum maður vinnur. Ég byrjaði á lungnadeildinni í sérnámsprógramminu og líkaði vel, gott andrúmsloft og fékk góða leiðsögn, ákvað svo að taka val mánuð á lungnagöngudeildinni þar sem ég sinnti ráðgjöf og fékk góða þjálfun í inngripum sem kveiktu áhugann enn meira. Eftir tvö ár í lyflækinganáminu heima var kominn tími á að halda utan í frekara sérnám.

Þegar ákvörðun um sérnám er tekin eru margir þættir sem spila inn í, ekki einungis hvaða grein skal velja heldur hvert skal haldið og þar hafa fjölskylduaðstæður, vinnumöguleikar maka, vinnutími og gæði náms allt vægi í ákvörðunartökunni.

U18-Solrun-Bjork-RunarsdottirVið fjölskyldan ákváðum að halda til Noregs og ég fékk stöðu í almennum lyflækningum 2011 á Bærum Sykehus rétt utan við Osló í Noregi. Námið í almennum lyflækningum var 6 ár en ef tekin var undirsérgrein, var heildarlengd sérnáms 7 ár, þar af tvö ár í undirsérgrein sem voru innifalin í almennum lyflækningum. Var tvö ár á lungnadeildinni á Ullevål háskólasjúkrahúsinu í Osló þar sem ég tók hluta af undirsérgrein í lungnalækningum.

Ég ákvað að fara inn í námið í Noregi með opnum hug án þess að binda mig við undirsérgrein þó lungnalækningar væru alltaf efst á óskalistanum, og ílengdist meðal annars á smitsjúkdómadeildinni í ár og kom það lengi til greina sem undirsérgrein en eftir nýja veru á lungnadeild var ekki aftur snúið. Lífeðlisfræði lungnanna er bara svo áhugaverð.

Vinna á lungnadeild, hvort sem er legudeild eða göngudeild, er mjög margbreytileg og bæði langvinn og bráð vandamál sem þarf að leysa. Við sinnum ungum sem öldnum og enginn dagur eins. Á legudeildinni koma oft einstaklingar með bráð og flókin vandamál af gjörgæslum eða vegna þess að þeir þurfa hágæslumeðferð þar sem þarf sérhæfða öndunaraðstoð, til dæmis með ytri öndunarvélum. Inngrip eru einnig hluti af greininni, sem hluti af greiningu og meðferð lungnasjúkdóma, eins og berkjuspeglun, fleiðruástungur og drenísetningar.

Ég fékk sérfræðiréttindi í almennum lyflækningum og lungnalækningum árið 2019 og þó bæði sé gott að búa og vinna í Noregi þá toga fjölskyldutengslin mann heim aftur. Ég hóf störf á lungnadeild Landspítala sumarið 2019 og starfa enn. Á lungnadeildinni er gott að vinna, þar starfar öflugur hópur sérfræðinga með mikla og breiða þekkingu.

Í landi með lága höfðatölu er mikilvægt að við höfum sérfræðinga bæði í algengum og sjaldgæfum sjúkdómum og sérhæfum okkur á mismunandi sviðum en getum þá haft samráð okkar á milli við flókin tilfelli. Við tökum fagnandi á móti fleirum í þann góða hóp.

Hvet lækna sem eru að velja sér sérnám að horfa á lungnalækningar með opnum huga og þær henta vel hjá þeim sem hafa áhuga á skemmtilegri lífeðlisfræði og inngripum í bland við bráða og langvinna sjúkdóma.

Áfram lungnalækningar!

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica