01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Fimm læknar rita kver um háfjallakvilla
Háfjallakvillar – Helstu sjúkdómar í mikilli hæð yfir sjávarmáli er nýtt kver ritað af fimm læknum og fjallafélögum. Tómas Guðbjartsson segir textann hafa verið saminn fyrir almenning og byggi meðal annars á fræðigreinum í Læknablaðinu.
„Kverið hentar þeim sem ætla að reyna sig við fjöll yfir 3000 á metra hæð, gangandi, hjólandi eða á skíðum, í Ölpunum, Himalaja, Atlasfjöllum í Marokkó, Kilimanjaro og Machu Picchu,“ segir Tómas „Við höfum verið í fjallgöngum mikið heima og erlendis. Við fórum þrír á Kilimanjaro og urðum slappir þar af hæðarveiki. Okkur fannst eftir það mikilvægt að fræða almenning og ekki síður lækna um hæðarveiki og hvernig hægt er að fyrirbyggja hana,“ segir hann við Læknablaðið.
Kverið fer vel í bakpoka og er prentað á vatnsþolinn pappír en einnig er hægt að hlaða því niður með QR-kóða í símann. Aftast er listi yfir þau lyf sem hentugt er að hafa með í háfjallaferðir. Kverið fæst í Fjallakofanum, Everest, 66 Norður sem styrkja útgáfuna og hjá Ferðafélagi Íslands. Það kostar 1500 krónur og rennur ágóðinn til stígagerðar á hálendi Íslands.
Ólafur Már Björnsson, Gunnar Guðmundsson, Magnús Gottfreðsson, Engilbert Sigurðsson og Tómas Guðbjartsson eru höfundar kversins. Mynd/Kristinn Ingvarsson