01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Bréf til blaðsins. Samnorrænt sérfræðinám í líknarlækningum
Í þessu tölublaði Læknablaðsins er auglýsing um samnorrænt fræðilegt sérfræðinám í líknarlækningum, The Nordic Specialist Course in Palliative Medicine, sem hefst haustið 2023.1,2 Það er ástæða til að benda áhugasömum íslenskum læknum á þetta nám þar sem það er síðasta námskeiðið sem haldið verður. Ástæðan eru breytingar á fyrirkomulagi sérfræðináms í líknarlækningum á hinum Norðurlöndunum þegar fræðilegur hluti námsins í framtíðinni fer fram í hverju landi fyrir sig.
Norræn félög líknarlækna ásamt Lífinu, samtökum um líknarmeðferð á Íslandi, hafa staðið fyrir samnorrænu fræðilegu námi í líknarlækningum frá árinu 2003. Um aldamótin 2000 var aukin opinber umræða á Norðurlöndunum um eflingu líknarþjónustu í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Komið var á fót margvíslegri líknarþjónustu víðs vegar á hinum Norðurlöndunum en það gleymdist að hugsa fyrir því að faglært heilbrigðisstarfsfólki þyrfti til þess að sinna þessari þjónustu. Engin sérfræðimenntun var tiltæk á háskólastigi né neinn áhugi innan læknisfræðinnar almennt á að koma slíku námi á fót.
Haustið 2003, eftir tveggja ára undirbúningsvinnu, settu norrænir frumkvöðlar af stað tveggja ára fræðilegt nám í líknarlækningum, The Nordic Specialist Course in Palliative Medicine. Við uppbyggingu námsins var tekið mið af viðurkenndri breskri og evrópskri námsskrá. Náminu er skipt í 6 vikulöng námskeið þar sem kenndir eru meginþættir líknarmeðferðar (sjá auglýsingu s. 41).
Námið er kostað með þátttökugjaldi. Fjöldi þátttakenda frá hverju landi tekur mið af höfðatölu en Íslendingar hafa átt tvö sæti. Á þessu síðasta námskeiði geta fleiri Íslendingar komist að en venjulega þar sem Svíar geta nú annað kennslu á heimavelli. Í stjórn The Nordic Specialist Course in Palliative Medicine sitja tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna nema einn frá Íslandi. Stjórnin hefur ekki þegið laun fyrir störf sín gegnum árin.
Á árunum 2007-2015 öðluðust líknarlækningar viðbótarsérfræðiviðurkenningu á öllum Norðurlöndunum. Á Íslandi voru líknarlækningar gerðar að viðbótarsérgrein við lyflækningar 2015 en eftir athugasemd frá starfandi líknarlæknum var því breytt 2017 í viðbótarsérgrein við klíníska grein læknisfræðinnar.
Samnorræna námið er viðurkennt sem fræðilegur hluti eða annað sambærilegt nám en að auki er krafist tveggja ára klínískrar vinnu við líknarlækningar á einingu sem hefur legudeild, heimaþjónustu og líknarráðgjafarteymi á sjúkrahúsi.
Tíunda námskeiðinu lýkur í vor og það 11. og síðasta hefst næsta haust. Vorið 2021 höfðu 340 norrænir sérfræðilæknar lokið þessum fræðilega hluta og sama ár höfðu 500 fengið líknarmeðferð viðurkennda sem viðbótarsérgrein á Norðurlöndum, þar af 186 sem höfðu lokið samnorræna faglega náminu.
Sjö íslenskir læknar hafa lokið fræðilega náminu, þar af einn sem starfar erlendis. Tveir þeirra hafa viðbótarsérgreinin, tveir eru í umsóknarferli og tveir hafa ekki sótt um viðbótarsérgrein. Tveir aðrir sérfræðilæknar hafa aflað sér viðbótarsérgreinar með öðrum hætti.
Heimildir
1. Haugen DF, Vejlgaard T, et al. Evaluation and experiences from the first course 2003-2005. Pall Med 2008: 22: 256-63. https://doi.org/10.1177/0269216307087320 PMid:18477720 |
||||
2. Sigurdardottir V, Edenbrandt C-M, Hirvonen O, et al. A survey among 225 participants from seven courses 2003-2017. Palliative Medicine Report 2021. |