01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi öldrunarlæknis. Guðný Stella Guðnadóttir

06:30 Vekjaraklukkan hringir í Norðlingaholtinu. Allir aðrir fjölskyldumeðlimir eru steinsofandi. Ég verð að viðurkenna að það er mjög ljúft að hafa smá einkatíma á morgnana og drekka gott kaffi.

Ég og Ása sem unnum saman í bráðavitjanateymi í Gautaborg. Við erum að búa til svipaða þjónustu og í Gautaborg. Myndina tók Lena hjúkrunarfræðingur.

07.15 tek ég strætó á Selfoss. Strætóinn stoppar beint fyrir framan húsið mitt og svo beint fyrir framan Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Strætóferðin er yfirleitt notuð til að horfa á eitthvað algjörlega gagnslaust á youtube þó að samviskan segi að ég eigi að hlusta á eitthvað gáfulegt.

08.10 fer ég upp á lyflækningadeild að skoða einstakling með langt gengið krabbamein sem versnaði um nóttina. Svo tala ég við aðstoðarlækninn um konu með Lewy-body-heilabilun sem hefur verið með erfiðar ofskynjanir og þess vegna inniliggjandi. Það er mjög ánægjulegt að hún er loksins að svara lyfjameðferð og getur líklega farið heim fljótlega.

09.00 er stofugangur á Móbergi sem er nýtt hjúkrunarheimili og við hliðina á spítalanum. Aðstaðan er góð og allir með eigið herbergi. Ein mjög ákveðin kona á níræðisaldri er frammi í setustofu. Hún neitaði í tvö ár á fyrra hjúkrunarheimili að koma fram þar sem henni mislíkaði umhverfið. Hér finnst henni fínt og kemur stundum fram. Þar sem það er flensutími eru töluvert margir sem þarf að kíkja á. Ein kona á tíræðisaldri er nýkomin á lífslokameðferð og ég skoða hana. Ég velti fyrir mér hvort ég geti skrifað seinna á dánarvottorð að hún hafi dáið úr elli eins og Bretadrottning.

12.00 fer ég í hádegismat. Hér er held ég besta mötuneyti á landinu og alltaf góður matur.

13.00 er vinnustofa fyrir opnun heimaspítalans á Selfossi. Ég er nýflutt heim frá Svíþjóð og síðustu þrjú árin rak ég bráðavitjanateymi frá Sahlgrenska-sjúkrahúsinu. Flestir sjúklingarnir voru hrumir aldraðir. Við gátum sinnt mjög mörgum í heimahúsi sem sluppu þá við að fara á spítalann. Um helmingur sjúklinganna kom beint úr sjúkrabíl og við fórum í vitjun í stað þess að flytja þá. Hinir voru ýmist nýútskrifaðir frá bráðamóttöku eða af deildum spítalans eða heimahjúkrun hringdi í okkur. Mín reynsla af að meðhöndla hruma aldraða heima er að þeir fá miklu betri þjónustu. Við veittum mikla meðferð heima, með sýklalyf í æð, flókna hjartalyfjameðferð og lífslokameðferð. Ég réði mig í raun á HSU þar sem að þar var vilji fyrir að byggja upp betri þjónustu fyrir hruma og fjölveika aldraða í heimahúsum. Í Svíþjóð er til ágætis fyrirmynd í Borgholm í Svíþjóð. Í því 10.000 manna samfélagi rekur heilsugsæslan sinn heimaspítala sem nær yfir um 300 manns sem eru þá veikustu sjúklingarnir í samfélaginu. Alltaf er laus tími fyrir vitjanir heimilislæknis milli 13 og 14 sem sjúkraflutningafólk og heimahjúkrun geta bókað í. Þannig velur meirihluti eldra fólks að fá frekar vitjun heimilislæknis en að vera flutt á bráðamóttöku. Á meðan dögum á spítala og komum á bráðamóttöku hjá hrumum öldruðum hefur fjölgað alls staðar í léninu, hefur þeim fækkað í Borgholm síðan þeir opnuðu heimaspítalann sinn.

Á vinnustofuna eru mættir einstaklingar frá heimahjúkrun, félagsþjónustu, sjúkraflutningafólk, læknar heilsugæslu og læknar spítalans. Við ætlum að byrja með bráðavitjunarteymi í janúar þar sem heimilislæknar, lyflæknar og bráðalæknar taka þátt. Síðan ætlum við að vinna í því að samþætta heimahjúkrun og félagslega stuðningsþjónustu.

16.00 tek ég strætó heim. Ég legg mig á leiðinni enda komin 28 vikur á leið og það var augljóslega ekki góð hugmynd að verða ófrísk svona á gamals aldri.

Kvöldið fer svo í að njóta tímans með fjölskyldunni og fá báða strákana til að lesa á íslensku, sem þeim finnst afar leiðinlegt. Sá yngri er að minnsta kosti kominn með nýja vini og farinn að sætta sig við að búa í landi þar sem er alltaf rigning.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica