01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Rosemary Lea Jones útskrifast fyrst allra hér á landi sem bráðalæknir

Rosemary Lea Jones varð 2. desember fyrst allra til að útskrifast úr sérnámi í bráðalækningum á Landspítala. „Ég er mjög ánægð,“ segir hún. „Þetta hefur verið löng leið með sínum áskorunum.“ Jones er þó ekki óvön áskorunum. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku á Nýja-Sjálandi áður en hún hóf læknanám þar í landi og svo sérnám í bráðalækningum á Landspítala árið 2015.

Hjalti Már Björnsson kennslustjóri bráðalækninga, Rosemary Lea Jones bráðalæknir, Gunnar Thorarensen yfirlæknir sérnáms á Landspítala. Mynd/Landspítali

„Ég fór í meistaranám í bráðahjúkrun og fann þar að mig langaði að vita meira um læknisfræðina en stjórnunina,“ segir hún og skipti því um gír. „Já, ég var aðeins 25 ára að velja mér atvinnu til lífstíðar. Mér fannst þetta því ekki spurning og er ánægð með sjálfa mig að hafa skipt. En ég lærði mikið sem hjúkrunarfræðingur og nýti þá reynslu daglega.“

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir og kennslustjóri bráðalækninga, segir Jones hafa verið fyrsta til að skrá sig í námið og fyrsta til að klára það. „Rosie er magnaður brautryðjandi.“ Hjalti segir 24 sérnámslækna í þessu 6 ára sérnámi sem fari fram í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og byggi á marklýsingu og framvinduskráningarkerfi frá Royal College of Emergency Medicine í Bretlandi.

„Á næstu þremur til fjórum árum sjáum við fram á að 10 nýir bráðalæknar útskrifist hér á landi,“ segir hann.

Jones starfar áfram á deildinni eftir útskriftina auk þess að vera læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica