01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Þrír barnalæknar fá viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar

Barnalæknarnir Berglind Jónsdóttir, Snorri Freyr Dónaldsson og Guðmundur Vignir Sigurðsson hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis við Háskóla Íslands fyrir árangur í rannsóknum og þróunarstarfi tengdu heilsu barna og barnasjúkdómum. Hvert þeirra hlýtur 500.000 krónur.

Jón Atli Benediktsson rektor, Þórarinn Guðjónsson forseti læknadeildar, Guðmundur Vignir Sigurðsson, Berglind Jónsdóttir, Valtýr Stefánsson Thors sem tók við verðlaunum Snorra, Helga Brá Árnadóttir verkefnastjóri HÍ og Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Berglind hefur rannsakað skjaldkirtilssjálfsónæmi hjá börnum með og án sykursýki af gerð 1. Niðurstöður hennar nýtast í bættri skimun hjá börnum með sykursýki 1 fyrir skjaldkirtilssjúkdómi en mikilvægt er að greina hann snemma.

Guðmundur Vignir hefur rannsakað beinþéttni og líkamssamsetningu ungs fólks, á aldrinum 18-27 ára, sem hefur glímt við bólgusjúkdóma í meltingarvegi frá barnsaldri. Helstu niðurstöður hans eru þær að ungt fólk, sér í lagi karlmenn með sjúkdóminn frá barnsaldri, var með mun minni beinþéttni en jafnaldrar á fullorðinsaldri.

Snorri hefur verið að þróa og rannsaka nýtt tæki til öndunaraðstoðar strax eftir fæðingu, með sérstakri áherslu á minnstu fyrirburana, en rannsókn hans sýndi að tækið dró úr nauðsyn á barkaþræðingum og öndunarvélameðferðum hjá nýfæddum fyrirburum. Þetta kemur fram í frétt á vef Háskóla Íslands.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica