12. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Lögfræði, 46. pistill. Trúnaðarmenn á vinnustöðum lækna
Árið 2006 skipaði stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) nefnd sem falið var að meta þörf á trúnaðarmönnum fyrir lækna og koma með tillögur um framkvæmd. Í nefndinni voru læknarnir Anna K. Jóhannsdóttir, Sigurdís Haraldsdóttir, Sigurður Albertsson og Sigurpáll S. Scheving. Niðurstaða nefndarinnar var að það væri brýn þörf á því að koma á fót trúnaðarmannakerfi fyrir lækna, enda reynsla af slíku fyrirkomulagi góð, bæði á Norðurlöndunum, þar sem læknar þekkja til, sem og hjá öðrum stéttarfélögum. Nefndin lagði til að LÍ beitti sér fyrir því að komið yrði á fót trúnaðarmannakerfi hjá læknum sem allra fyrst. Það mun hafa verið gert, en það lognaðist út af fljótt aftur.
Stjórn LÍ hefur nú ákveðið, meðal annars fyrir tilstuðlan Félags sjúkrahúslækna (FSL) að endurvekja trúnaðarmenn á vinnustöðum lækna. FSL hefur þegar kallað eftir áhugasömum læknum til að taka þetta hlutverk að sér. Stjórn LÍ gerir sér vonir um að vel muni ganga að fá lækna til að taka að sér að vera trúnaðarmenn, enda um mikilvæg verkefni að ræða sem skipta miklu fyrir félagsmenn.
Í V. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eru ákvæði um trúnaðarmenn á vinnustöðum. Þar kemur fram að trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélags á vinnustað. Þeir eru ýmist kosnir af samstarfsfólki í sama stéttarfélagi eða tilnefndir af stéttarfélaginu sjálfu.
Hlutverk trúnaðarmanns er að vera bæði tengiliður milli launagreiðanda og samstarfsfólks í sama stéttarfélagi og tengiliður launagreiðandans við stéttarfélagið.
Trúnaðarmenn njóta sérstakrar verndar sem slíkir, sem meðal annars felst í því að ekki má segja trúnaðarmanni upp fyrir að sinna trúnaðarstörfum. Launagreiðandi má því ekki segja trúnaðarmanni upp fyrir það að vekja athygli fyrir hönd samstarfsfólks á óþægilegum málum eða benda á kjarasamningsbrot fyrir hönd stéttarfélags síns. Verndin nær hins vegar ekki til þess ef trúnaðarmaðurinn brýtur af sér í daglegum störfum eða vanrækir starf sitt. Þá er hann í sömu stöðu og hver annar starfsmaður þar. Félagsdómur hefur fjallað um vernd trúnaðarmanna í starfi og þannig hafa mótast ákveðnar reglur varðandi vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.
Til að virkja þá vernd sem trúnaðarmaður nýtur þarf hann að skila til stéttarfélags síns þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu sína eða kosningu til að hljóta staðfestingu sem trúnaðarmaður. Ef hann gerir það ekki nýtur hann ekki verndarinnar.
Stjórn og starfsmenn stéttarfélags eru stuðningsaðilar trúnaðarmanns og eru honum innan handar við að leysa úr þeim erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins.
Ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem áður er vikið að, tryggja að:
· Trúnaðarmaður á aldrei að gjalda þess að hafa valist til trúnaðarstarfa.
· Það má ekki flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
· Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn ótímabundinni ráðningu.
· Trúnaðarmaður á rétt á því að rækja skyldur sínar á vinnutíma. Þá á hann rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
· Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.
· Trúnaðarmönnum hjá ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignarstofnunum er einnig heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglulegum launum.
· Trúnaðarmenn sem kjörnir eru í samninganefnd stéttarfélags síns fá leyfi til að sinna því verkefni án skerðingar á reglulegum launum. Trúnaðarmaður skal þó gæta þess að tilkynna yfirmanni sínum um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara.
Helstu hlutverk trúnaðarmanna eru að:
• Taka við kvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart launagreiðanda. Trúnaðarmaður skal gefa starfsmanni og stéttarfélagi skýrslu um hvað launagreiðandi er sakaður um að hafa brotið af sér, hver séu viðbrögðin og hver séu málalok.
• Hafa eftirlit með því að launagreiðandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings og laga um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf krefur.
• Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni eftir því sem við á.
• Trúnaðarmaður skal gæta þess að réttindi starfsmanna séu virt, einkum er varðar orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti.
• Kynna þeim starfsmönnum, sem eftir því leita, starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess.
Lagaákvæði um trúnaðarmenn eru almennt orðuð og því hafa ýmis stéttarfélög, svo sem BHM, gert sérsamninga við ríkið um útfærslu einstakra atriða. Þar er sérstaklega kveðið á um að stjórnarmenn stéttarfélaga og samningarnefndarmenn stéttarfélaga teljist sem trúnaðarmenn.
Líklega er skynsamlegt fyrir lækna að gera einnig samkomulag við ríkið og aðra vinnustaði sem tæki nánar á óljósum atriðum. Auk þess ætti að gera trúnaðarmönnum kleift að sækja námskeið á vegum stéttarfélagsins og þannig hefði LÍ tækifæri til að fræða sína trúnaðarmenn um kjarasamninga og fleiri atriði sem ætlast er til að þeir kunni skil á.
LÍ væntir mikils af endurreisn trúnaðarmannakerfis fyrir lækna og mun upplýsa félagsmenn um þetta mál eins og því vindur fram.