12. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Öldungar á slóðum Semmelweiss og Freuds
Í byrjun október lagði ferðaglaður hópur læknaöldunga ásamt mökum, samtals 36 manns, upp í 8 daga ferð á slóðir Semmelweis og Freuds í Búdapest og Vínarborg.
Hótelið í Búdapest var í miðbænum þar sem rútur eru bannaðar svo að fólk þurfti að ganga smá vegalengd um nóttina með töskurnar. Daginn eftir var gengið á Semmelweiss-safnið yfir Elísabetarbrúna og dáðst að afrekum þessa óhamingjusama manns.
Öldungar á slóðum Maríu Theresíu í Schönbrunn-höllinni í Vínarborg. Mynd / Jóhanna V. Þórhallsdóttir.
Sama dag var farið í ökuferð um borgina með leiðsögumanni sem gaf okkur líka innsýn í ungverska sögu og þjóðarsál. Ungverjar hafa sterka þjóðerniskennd sem er nátengd þessu sérkennilega tungumáli sem Magyarar höfðu með sér austan úr Asíu um svipað leyti og norrænir menn námu Ísland. En þeir höfðu fleira með sér rétt eins og landnemar okkar. Það fengum við að sjá í ferð á ungversku slétturnar þar sem voru mórauð loðin svín og hvasshyrndir nautgripir. Aðalskemmtiatriði dagsins var hestasýning þar sem knapar riðu berbakt með bjórglas í hendi.
Kvöldsigling á Dóná gaf fallega sýn á upplýstar glæsibyggingar frá 19. öld á báðum bökkum. Undir borðhaldi var boðið upp á söng og dans. Dagsferð í norðvestur gaf enn aðra sýn. Szentendre er lítill bær þar sem um aldir hefur ríkt trúarlegt umburðarlyndi og þar hafa listamenn unað sér. Í Visegrad vorum við flutt aftur á endurreisnartímann með villibráðarmáltíð úr konunglegum veiðilendum. Til Vínar var haldið í rútu og þar kvöddum við ágætan ungverskan rútustjóra.
Graben Hotel dregur nafn af staðsetningunni þar sem áður var síki kringum borgarmúrana og þar með í jaðri elsta miðbæjarins. Þar hittum við leiðsögumenn okkar sem reyndust vera mæðgur, og byrjuðum á stuttri gönguferð um Hofburg með öllum sínum höllum, söfnum, reiðhöll og allri dýrðinni úr ríki Habsborgaranna. Í Vín var hópnum gefinn lausari taumur á kunnuglegri slóðum. Skoðunarferð í rútu sýndi okkur meira af glæsilegri Vín frá fyrri tíð en svo voru það byggingar þess makalausa Hundert-wasser, sem trúði því að beinar línur, rétt horn og slétt gólf ættu alls ekki að vera í mannabústöðum.
Síðasta daginn var stíf dagskrá sem hófst með heimsókn í Schönbrunn-höllina, þar sem María Theresía eignaðist sín 16 börn, ríkti yfir keisaradæminu og stýrði 7 ára stríðinu. Skrifstofur Freuds í Berggasse voru skoðaðar. Geðlæknar í hópnum dáðust að því að kallinn talaði að jafnaði við 11 sjúklinga á dag og skrifaði eftir það ótal bækur og ógrynni bréfa. Síðasta kvöldið nutum við hátíðarkvöldverðar og svo tónleika í ekta klassískum Vínaranda.
Ekki var annað að heyra í lok ferðar en allir hefðu notið vel og nýtt sinn frjálsa tíma hver eftir sínum smekk – eitthvað var verslað og nokkrir óperunördar voru fjarskalega sælir og glaðir.