12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Nýyrði – hvað hefði Jónas sagt? Magnús Helgi Jóhannsson

Einföld skilgreining á hugtakinu nýyrði er að það sé orð sem ekki var til í miðaldaíslensku eða ný merking á gömlu orði. Svo eru tökuorðin, sem eru erlend orð sem við höfum tekið inn í málið lítið eða ekkert breytt. Við mjög óvísindalega athugun á algengi nýyrða og tökuorða í nokkrum nýlegum textum í bókum, tímaritum og dagblöðum hef ég fundið eftirfarandi: Ef talin eru öll orð kemur í ljós að 10-20% orðanna eru nýyrði eða tökuorð, oft eru þau nálægt 15%. Flest nýyrði eru nafnorð og ef einungis eru talin nafnorð er hlutfall nýyrða og tökuorða að sjálfsögðu mun hærra.

Gaman er að velta fyrir sér hvernig okkur gengi að tala við persónur eins og Snorra Sturluson (1179-1241) eða Jónas Hallgrímsson (1807-1845). Jónas hefur verið kallaður faðir íslensku nýyrðasmíðinnar og var ótrúlega frjór á því sviði. Ég held að okkur gengi ekkert vel að tala við Snorra, hann mundi ekki þekkja nema 80-90% af orðaforða okkar og væntanlega yrði framburður okkur líka fjötur um fót. Allt öðru máli gegndi um Jónas, ég held að okkur mundi ganga ágætlega að tala við hann.

Magnús Helgi Jóhannsson

Mörg nýyrði eru þannig að manni finnst þau ómissandi og að þau hljóti eiginlega alltaf að hafa verið til. Þetta gildir þó ekki um alls kyns tækniorð sem oft lýsa búnaði sem var ekki til fyrr en á 19. öld eða síðar.

Jónas hlýtur að teljast konungur nýyrðanna en hér eru talin upp nokkur af nýyrðum hans sem hafa lifað góðu lífi: aðdráttarafl, almyrkvi, bróðurpartur, dýrafræði, efnafræði, eldsumbrot, fluggáfaður, fyrirkomulag, geislabaugur, haförn, hagamús, himingeimur, hnattstaða, hundsvit, jarðfræði, lambasteik, líffæri, líkindareikningur, ljóshraði, meltingarfæri, miðbaugur, miðflóttaafl, rafmagn (var reyndar upphaflega rafurmagn), safngler, sjónauki, skjaldbaka, skottulækning, sólkerfi, sólmyrkvi, sporbaugur, stjörnuþoka, sviphreinn, upplitsdjarfur, þjóðareign, æðakerfi og æxlunarfæri; en þetta er aðeins brot af þeim fjölmörgu orðum sem Jónas bjó til.

Nýyrði 20. og 21. aldar eru mýmörg en sjaldan er vitað um höfund þeirra. Flest þessara nýyrða eru samsett orð (dæmi: tölva (úr tölur og völva), sjónvarp, færiband, herðatré) en sum vel heppnuð orð eru gömul orð sem er gefin ný merking (dæmi: sími, skjár, mús, vél). Af vel heppnuðum misgömlum tækniorðum mætti nefna: sameind, rafeind, stafrænn, þota, þyrla, reiðhjól, farsími, spjaldtölva, bendill, algrím, ljósapera, hljóðvist, flatskjár, snjalltæki, snjallvæðing (einnig iðnvæðing, tæknivæðing).

Á sviði vistfræði: kolefnisjöfnun, hamfarahlýnun, einnota, sjálfbærni, vistvænn, vistspor, mannvist. Einnig má nefna orð eins og sérfræðingur, skjólstæðingur, andúð, samúð, samkennd, samkynhneigð.

Á allra síðustu árum hafa komið fram nýyrði sem að vissu marki eru grín en gríni fylgir oft einhver alvara. Um þetta mætti nefna sem dæmi: nettröll, jarðýtustjórnmál, hrútskýring, raðlygari, flugviskubit. Það á svo eftir að koma í ljós hver þessara nýyrða standast tímans tönn.

Tungumálið er stöðugt að þróast og taka breytingum. Einn þáttur þessara breytinga eru nýyrði en stöðugt er þörf fyrir íslensk orð yfir ný tæki, hluti eða hugtök. Hins vegar er tungumálið stöðugt að taka breytingum varðandi málnotkun og málfræði. Á undanförnum árum hef ég haft gagn og gaman af að glugga í bókina Handbók um íslensku: hagnýtur leiðarvísir um íslenskt mál, málnotkun, stafsetningu og ritun. Bókin er rituð af mörgum höfundum og þar eru meðal annars kaflar um nýyrði, íðorð og tökuorð. Þessi bók er gagnleg í þeirri viðleitni að tala og rita þá íslensku sem kennd er í skólum og getur talist rétt mál.

Nýlega kom út bókin Alls konar íslenska eftir Eirík Rögnvaldsson. Mér fannst þessi bók svo fróðleg og skemmtileg að ég las hana spjaldanna á milli. Við lestur bókarinnar varð mér ljóst (enn betur en áður) hvernig tungumálið okkar er í stöðugri ummyndun, gömul orð hverfa og ný orð líta dagsins ljós. Enn fremur eru málnotkun og málfræði stöðugum breytingum háðar en sumar þessara breytinga finnast okkur óheppilegar eða beinlínis rangt mál. Það er ljóst að þetta eru í raun merki um að tungumálið sé sprelllifandi og þess vegna eru margar þessara breytinga eitthvað sem við verðum einfaldlega að sætta okkur við. Það gerir kannski ekkert til þó að meirihluti landsmanna segi „mér langar“ – það er ekki eitthvað sem ógnar tilveru tungumálsins. Svipað má segja um viðtengingarhátt og margt fleira.

Á undanförnum 200 árum hefur íslenskunni iðulega verið spáð dauða en þær spár hafa augljóslega ekki ræst. En hvernig mun íslenskunni vegna í stafrænum heimi snjalltækja og gervigreindar? Eitt er víst að það er að mestu leyti undir okkur sjálfum komið og þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taka hverju sinni.

Magnús Jóhannsson hefur stýrt öldungasíðunni í fjögur ár en nú tekur Helga M. Ögmundsdóttir við keflinu. Læknablaðið þakkar Magnúsi kærlega fyrir einstaklega gott og farsælt samstarf.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica