12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Vika í lífi bæklunarlæknis: Hjálmar Þorsteinsson

Sunnudagur Ný vika heilsar með óvenjulegum hita þrátt fyrir að dagatalið sýni miðjan nóvember. Framundan er nokkuð óvenjuleg vika með blöndu af móttökudögum og aðgerðadögum. Að öllu jöfnu er vikan annað hvort aðgerðavika eða móttökuvika. Mánudagurinn er blanda af viðtölum og þremur matsgerðum sem krefjast undirbúnings. Eftirmiðdagurinn fer því í að lesa yfir málsgögn og undirbúa þá fundi.

Mánudagur
Klukkan er 5:30 þegar vekjaraklukkan hringir, frúin er greinilega þegar komin á fætur og skömmu síðar birtist hún með rjúkandi kaffi. Yfir kaffinu er rennt yfir helstu vefmiðla þangað til hundarnir tveir eru orðnir óþolinmóðir og óska vinsamlegast eftir sinni morgungöngu. Klukkan er orðin rúmlega 8 þegar lagt er af stað í vinnuna, búandi upp við Elliðavatn á leið í Ármúla 9 er það galinn tími að vera á ferðinni. Matsgerðir eru oftast slysamál og mismunandi eftir eðli málanna hvort eingöngu læknir gerir matið eða eins og algengara er að matið er unnið sameiginlega af lækni og lögfræðingi. Eitt af málum dagsins er dómskvaðning þar sem málsaðilar hafa ekki náð saman í kjölfar fyrra mats og annar aðilinn því krafist endurmats fyrir héraðsdómi.

Skurðstofuteymi vikunnar, frá vinstri: Herborg Eiríksdóttir skurðhjúkrunarfræðingur, Hrólfur Einarsson svæfingalæknir, Erna Dóra Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Hjálmar Þorsteinsson bæklunarlæknir.


Þriðjudagur
Nú hringir verkjaraklukkan á hefðbundnum tíma kl. 05:00, í þetta skiptið náði ég að vera á undan frúnni og kem því með rjúkandi kaffið í rúmið. Ég og fjórfætlingarnir förum í fjallahjólarúnt um Heiðmörk undir hálfu tungli vaðandi í skýjum. Eftir góða útisturtu er haldið af stað til vinnu og blessunarlega á undan umferðinni þannig að ferðatíminn er ekki helmingurinn af ferð gærdagsins. Það er hressilegur móttökudagur með 7 nýkomum og 21 endurkomu. Í lok dags er farið yfir aðgerðir næstu tveggja daga og gert aðgerðaplan fyrir hverja aðgerð.


Morgunstund við Elliðavatn, Meyja og Ronja.


Miðvikudagur
Dagurinn byrjar eins og sá fyrri og er frúin lögð af stað í vinnuna áður en ég kem heim úr hjólatúrnum. Hún er mætt fyrir kl. 6:30 og tekur á móti fyrsta sjúklingi dagsins kl. 7:00 og sér til þess að hann sé búinn að skipta um föt þegar ég mæti skömmu síðar. Fyrsti sjúklingurinn er 89 ára gömul kona sem býr ein, hægri mjöðmin er þó farin að vega illilega að hennar lífsgæðum og möguleikum til þess að sjá um sig sjálf. Við byrjum fyrstu aðgerðina kl. 8:15 og rúllum inn á vöknun kl. 9:30 þegar næsti sjúklingur er að mæta. Sá kom vikunni áður vegna verkja frá hægra hné en við skoðun kom í ljós að hann var með gríðarlegt beindrep í lærbeinshöfði hægri mjaðmar. Það er góð tilfinning að hafa sjálfur stjórn á aðgerðalistanum og í svona tilvikum er því hægt að koma við aðgerð innan viku frá greiningu. Síðasta aðgerðin sem einnig er liðskiptaaðgerð á mjöðm er búin kl. 14:30 og við tekur stutt móttaka fram að stjórnarfundi. Við erum 5 í stjórn Klíníkurinnar Ármúla auk þess sem framkvæmdastjóri situr fundina og hittumst við að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Dagurinn er því langur og ekki heim komið fyrr en kl. 19:30.

Fimmtudagur
Framundan í dag eru fjórar liðskiptaaðgerðir á hné. Á skurðstofunni náum við að halda takti allan daginn, sjúklingarnir eru að mæta kl. 7, 9, 11:30 og 13:30 og síðasta aðgerð búin kl. 15:30. Eftir stofugang tekur við pappírs-vinna. Um kvöldið er matarboð með bandarískum bæklunarlækni sem vill fræðast um íslenska heilbrigðiskerfið. Hann er orðlaus þegar hann kemst að því að rúmlega 1000 sjúklingar hafi greitt fyrir sínar liðskiptaaðgerðir sjálfir í Klíníkinni án aðkomu tryggingafélags eða ríkis.

Föstudagur
Vinnuvikunni lýkur síðan um hádegi þegar útskrift þeirra sjúklinga er gengust undir liðskipti í vikunni er lokið. Við hjónin brunum síðan úr bænum og komum við á Matkránni í Hveragerði. Síðan er haldið beina leið í hlíðina fögru þar sem við eigum smá skika. Helginni verður varið við smíðar með frúnni, betra getur það vart orðið.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica