12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Offita er sjúkdómur sem ekki á að meðhöndla með útlitsaðgerð, segir Hildur Thors

„Offita er sjúkdómur og við verðum að taka á honum sem slíkum,“ segir Hildur Thors, læknir offituteymis Reykjalundar. „Farið er að líta á efnaskiptaskurðaðgerðir sem útlitsaðgerð,“ segir hún og kallar eftir því að þau sem fara á eigin vegum í aðgerð geti fengið undirbúning og eftirfylgni

„Er ekki skrítið að fólk geti tekið þá ákvörðun að ferðast til útlanda í meiriháttar breytingar á meltingarfærum sínum án þess að tala við nokkra heilbrigðisstétt?“ spyr Hildur Thors, læknir offituteymis Reykjalundar. Það sé ekki samþykkt fyrir aðra sjúkdóma eða heilbrigðisþjónustu. „Þetta er villta vestrið,“ segir hún og kallar eftir því að fólkið fái undirbúning og árlega eftirfylgni eins og klínískar leiðbeiningar segi til um.

Hildur Thors hefur áhyggjur af fólki sem sjálft fer í efnaskiptaaðgerð án aðkomu heilbrigðisstarfsfólks að ákvörðuninni og eftirlits í kjölfarið. Fólk sé eitt með ábyrgðina á að halda árangrinum eftir þyngdartap í kjölfar aðgerðanna og óljóst hvernig því reiðir af. Mynd/gag

Í venjulegu árferði fara allt að 150 í efnaskiptaaðgerð á Landspítala en nú hafi dregið úr og skjólstæðingar sendir til Svíþjóðar. Yfir 1000 einstaklingar fóru í efnaskiptaskurðaðgerð á Klíníkinni árið 2021, samanborið við 34 upphafsárið 2017, samkvæmt fréttum RÚV í fyrra. Þá er óþekkt hve mörg sækja út fyrir land-steinana. Hildur segir bagalegt að þær upplýsingar skorti.

„Er fólk að þessu fyrir útlitið eða vegna hættulegra efnaskiptasjúkdóma, eins og hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki, sem geta stytt líf þess?“ spyr hún og útilokar ekki að fordómar gegni hlutverki í því að ákvarðanir um efnaskiptaaðgerð séu látnar óáreittar og á ábyrgð einstaklinganna sjálfra og jafnvel ýti einstaklingum af stað í slíka aðgerð án umhugsunar. „Það er farið að líta á efnaskiptaskurðaðgerðir sem útlitsaðgerð,“ segir Hildur.

Hún segir skilyrði að fólk fari í eftirlit einu sinni á ári eftir efnaskiptaaðgerðir það sem eftir er ævinnar. „Ég veit ekki hve margir sinna því,“ segir hún og það sé ekkert skipulagt eftirlit sem neinn haldi utan um. „Fólk fær kannski ráðleggingar en enginn fylgist með því hvort þeim er fylgt.“

Hildur bendir á að til séu klínískar leiðbeiningar frá árinu 2020 um hvernig meðhöndla eigi fullorðna með offitu. „Þar eru ákveðin skilmerki sem við teljum að fara eigi eftir,“ segir hún. „Þær eru samhljóða þeim sem gilda í Evrópu.“ Þetta séu leiðbeiningar, ekki lög, og því hverjum lækni í sjálfsvald sett að fylgja þeim. „Þær eru gerðar samkvæmt bestu vitneskju og ef fólk vill vera faglegt fylgir það þeim.“

Hildur segir andann vera þannig að vilji fólk borga, fái það aðgerðina. Þau finni oft á Reykjalundi að þegar fólk sé loks boðað í meðferð sé það búið að fara í aðgerð. „Þetta er fólk sem við hefðum talið að þyrfti undirbúning.“ Spítalinn geri fáar valaðgerðir nú um stundir og bregðist við því með því að senda sjúklinga til íslensks skurðlæknis í Malmö í Svíþjóð, sem reki viðurkennda klíník þar.

„Eftir að þeir eru komnir á biðlista á Landspítala er nú tveggja ára bið eftir aðgerð,“ segir Hildur. „Biðlistinn á líklega eftir að lengjast.“ Erfitt sé að vinna áfram með venjur og nýja rútínu þegar algjör óvissa sé um tímasetningu aðgerða. „Oft gefst einstaklingurinn upp og fer í gamla farið.“ Hjá henni einni séu 80 á bið.

En hvað þarf fólk sem fer sjálft í aðgerð, án læknisráðs, að gera? „Fólk þarf strax að byrja að vinna að breyttum venjum.“ Nýtt mataræði, hreyfing, borða fimm sinnum á dag litla næringarríka skammta. „Fólkið getur ekki lengur nærst eingöngu á næringarsnauðum, einhæfum mat, því þá verður það veikt,“ leggur hún áherslu á.

Hún segir alla háskólaspítala með kröfur um undirbúning fyrir svona aðgerðir. „Það er ekki svo á einkastofum og við vitum ekki hver útkoman er. Við þyrftum að sjá rannsókn á 5-10 ára eftirfylgd hjá þeim sem fara þessa leið.“

Góður árangur efnaskiptaaðgerða

Árangur efnaskiptaaðgerða er þekktur, segir Hildur Thors, læknir offituteymis Reykjalundar, og vísar í fræðigrein í Læknablaðinu 2016; 102: 426-32: „Árangur magahjáveituaðgerða á Íslandi 2001-2015.“ Hún tók til 772 sjúklinga, eða meginþorra þeirra sem fóru í aðgerð.

„Það gengur vel fyrstu 18-24 mánuði eftir aðgerð, en svo kemur að þeim tíma að þyngdartap hættir og nýr þyngdarstöðugleiki finnst. Þá þyngjast flestir aðeins aftur,“ segir Hildur og eftirfylgnin því afar mikilvæg til að stöðva þá þróun.

Hún bendir á að eftir að magaermisaðgerðir hafi verið kynntar til leiks hér á landi finnist mörgum sem inngripið sé minna en í magahjáveitu. „En það er jafnmikið inngrip og það þarf nákvæmlega sama eftirlitið á eftir.“ Hættulegt sé að gera lítið úr því.

„Vinna þarf með allar venjur fólks svo það haldi árangrinum,“ segir hún. „Svona aðgerðir eru ekki töfralausnin, eins og margir vilja trúa, ef eftirfylgnin er engin.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica