12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Mest 13 af 18 skurðstofum Landspítala í notkun, Geir Tryggvason, formaður Félags skurðlækna, segir stöðuna ekki hafa verið verri

11 af 18 skurðstofum Landspítala eru í formlegri notkun og tvær til viðbótar þegar tekst að manna þær. Spítalinn segir að nóg sé af skurðlæknum eða öðrum stéttum en það vanti skurðhjúkrunarfræðinga og því standi stofurnar tómar. Unnið sé að því að þjálfa upp hjúkrunarfræðinga. Formaður Félags skurðlækna segir stöðuna aldrei hafa verið verri

„Það er ekki skurðstofupláss á Landspítala og það nagar okkur,“  segir Geir Tryggvason, formaður Félags skurðlækna. „Það er erfitt og streituvaldandi að sitja á móti sjúklingi og segja honum að hann komist ekki í aðgerð sem bætir lífsgæði hans og óljóst sé hvenær það verður.“

Ólafur B. Skúlason, forstöðumaður skurðlækninga á Landspítala, segir í svari til Læknablaðsins að nýting skurðstofa muni batna á nýju ári en ljóst sé að þjálfa þurfi hjúkrunarfræðinga þannig að þeir geti starfað sjálfstætt á skurðstofum. Þótt 11 skurðstofur séu formlega opnar hafi spítalinn „oft á tíðum“ keyrt 13 skurðstofur til að vinna niður biðlista, en það sé háð sérstakri mönnun.

Landspítali þjálfar nú upp skurðstofuhjúkrunarfræðinga til að mæta manneklu á skurðstofunum. Mynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

„Frá og með janúar verða 14 skurðstofur opnar alla daga vikunnar auk tveggja skurðstofa á Eiríksstöðum sem sinna augnskurðlækningum.“ Ólafur útskýrir stöðuna með því að skurðhjúkrunarfræðingar hafi átt mikinn orlofsrétt eftir þau tvö og hálft ár sem spítalinn starfaði á hættu- og neyðarstigi vegna COVID-19.

„Stór hópur er að nálgast eftirlaunaaldur og margir hafa kosið að fara fyrr á eftirlaun í kjölfar mikillar vinnu tengdri COVID. Breyting á vinnutíma hjúkrunarfræðinga hafði jafnframt þau áhrif að vinnuframlag hvers hjúkrunarfræðings minnkar frá því sem áður var,“ segir í svari hans.

„Einnig hefur verið töluvert um að reyndir skurðhjúkrunarfræðingar á Landspítala hætti störfum og ráði sig á einkastofur sem eru að auka umsvif sín.“ Margt nýtt starfsfólk hafi verið ráðið auk þess sem nýtt sérnám í skurðhjúkrun hafi hafið göngu sína í haust.

Læknablaðið spurðist frekar fyrir og fékk þá þau svör að Landspítali styðjist við tvo skurðhjúkrunarfræðinga í grunnmönnun í hverri aðgerð. Þrjá við þjálfun nýrra og ef aðgerðin sé stór. Blaðið spurði hvort taka mætti Svíþjóð til fyrirmyndar þar sem oft er einn skurðhjúkrunarfræðingur í aðgerð og fækka þeim hér svo fjölga megi aðgerðum en spítalinn segir að Svíþjóð sé eina samanburðarlandið sem hafi þann hátt á.

„Önnur Norðurlönd og nær öll Evrópulönd, fyrir utan Króatíu og Holland, hafa tvo skurðhjúkrunarfræðinga í aðgerðum eins og við,“ segir í svari spítalans. Smæð landsins kalli á þetta fyrirkomulag.

Geir segir stöðuna aldrei hafa verið erfiðari. Fólki á biðlistum hafi fjölgað gríðarlega á stuttum tíma. Hann kallar eftir aðgerðum sem leysi vandann.

„Það þarf hugsanlega að hugsa út fyrir boxið. Samstarf okkar við skurðhjúkrunarfræðinga er bæði nauðsynlegt og gott en nú þegar það vantar þessa hjúkrunarfræðinga þurfum við að finna lausn til að stytta biðlista. Annars lengjast þeir og lengjast.“ Hann segir ákveðna uppgjöf í fólki yfir ástandinu.

„Við viljum sjá áherslu á að opna skurðstofurnar hér á Landspítala. Það eru ekki einfaldar lausnir á vandanum en við verðum að ræða lausnir.“ Staðan sé verri en nokkru sinni fyrr. „Á meðan versnar sjúklingum og biðlistar lengjast. Það er krísa og sem þarf að taka á,“ segir Geir.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir félagið hafa bent yfirstjórn spítalans á stöðuna sem brenni á skurðlæknum. Þeir þurfi að skera til að viðhalda þekkingu sinni og því slæmt þegar kraftar þeirra nýtist ekki sem skyldi. „Við viljum sjá gripið til aðgerða þar til fólkið sem nú er í þjálfun nær fullri færni því þótt staðan bitni á læknum bitnar hún mest af öllu á því fólki sem er á biðlistunum.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica