11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Gísli Þór Axelsson

Gísli Þór Axelsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 30. september 2022. Ritgerðin ber heitið Millivefslungnabreytingar og öldrunartengdir þættir

Andmælendur voru Gisli Jenkins, rannsóknarprófessor við National Heart and Lung Institute, Imperial College London, og Timothy Blackwell prófessor við Division of Allergy, Pulmonary and Critical Care Medicine, Vanderbilt University í Nashville, Tennessee. - Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Gunnar Guðmundsson prófessor og meðleiðbeinandi var Thor Aspelund prófessor, báðir við læknadeild HÍ. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Gary Matthew Hunninghake, dósent við Harvard Medical School, og Vilmundur Guðnason prófessor.

Úr ágripinu

Niðurstöðurnar sýna fram á tengsl millivefslungnabreytinga við ýmsa öldrunartengda þætti og klínískar útkomur. Til viðbótar benda niðurstöður til margra próteina sem nýrra lífvísa breytinganna í blóði, en sum þeirra hafa þekkt tengsl við öldrun. Í heild auka niðurstöðurnar þekkingu á líffræðilegum eiginleikum og faraldsfræðilegri áhættu fólks með myndgreiningarbreytingar sem bent gætu til snemmbúinnar lungnatrefjunar.

Doktorinn

Gísli Þór fæddist á Selfossi og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2020 og samhliða doktorsnáminu hóf hann sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala.

 

Gísli Þór Axelsson tók doktorspróf frá Háskóla Íslands 20. september síðastliðinn. Mynd / Kristinn Ingvarsson

 

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Það er merkilega erfitt að svara þessari spurningu. Ætli það hafi ekki verið einhver samblanda af áhuga á fræðunum og því að vilja gera eitthvað gagn.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Mjög misjafnt eftir því hvernig gengur þá stundina. Stundum svona 5-6, stundum 9.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Vonandi verð ég aldrei heilbrigðisráðherra. En heilt yfir held ég að það sé mikilvægt að það þeir hvatar sem innbyggjast í öll kerfi auki skilvirkni, en dragi ekki úr henni.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Ég hef lesið allt of lítið mér til skemmtunar síðustu árin. Ég held samt að ég geti mælt með bókinni Factfulness fyrir alla – enda fjallar hún um að byggja skoðanir sínar á gögnum. Núna er ég að horfa á Kominsky Method á Netflix sem eru fínasta afþreying. Ég er gömul sál þegar kemur að tónlist. Gamalt rokk er gott, Pink Floyd er best. Besta líkamsræktin er körfubolti með strákunum úr læknadeildinni.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Að stunda útivist. Helst að labba á fjöll eða veifa flugustöng. Yfir veturinn hef ég gaman af því að horfa á íþróttir.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica