11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Dagur í lífi geðlæknis. Karl Reynir Einarsson

07:00 Rumska við kaffilykt og umgang á heimilinu eins og flesta morgna. Konan iðulega komin á ról á undan mér. Hef samt alltaf vekjaraklukkuna á símanum stillta á 7:15 til öryggis – fyrirkomulag sem samþykkt var á fjölskyldufundi fyrr á árinu í kjölfar lélegrar frammistöðu af minni hálfu þegar konan var að heiman yfir nótt. Þann morgun vaknaði ég við það að 9 ára sonur minn stóð fullklæddur í útifötum við rúmstokkinn rúmlega 8 að morgni og spurði hvort ég þyrfti ekki að mæta í vinnu, hann væri sjálfur að fara í skólann. Í dag gengur hins vegar allt snurðulaust fyrir sig. Fæ mér kaffibolla, fer í sturtu, klæði mig og hjálpa til við að koma drengnum í skólann. Hann er spenntur að hjóla í skólann á glænýjum nagladekkjum sem sett voru á hjólið í gær.

08:15 Mæti í vinnu á Reykjalundi. Byrja á að ræsa tölvuna, opna bæði sjúkraskrárkerfin sem notuð eru á Reykjalundi, Sögu og Díönu, og skoða svo tölvupóstinn. Fæ þannig gróft yfirlit yfir dagskrá dagsins.

Með hjúkrunarfræðingunum í teyminu: Salvöru Gunnarsdóttur og Ásgerði Ólafsdóttur.

08:20 Hitti hjúkrunarfræðinga geðheilsusviðsins þar sem við förum gróflega yfir skjólstæðinga sviðsins sem eru yfirleitt 18-20 hverju sinni. Hef verið eini læknir sviðsins undanfarna viku og því mikilvægara en áður að fá að heyra frá öðrum í teyminu hvort einhver óvænt vandamál hafi komið upp.

09:00 Hitti einstakling sem er að innskrifast á geðheilsusviðið.

10:00 Viðtal við einstakling sem er að ljúka meðferð hjá okkur á geðheilsusviðinu. Gengið að mörgu leyti vel en þarf lengri stuðning eins og svo oft á við okkar skjólstæðingahóp.

01:00 Vikulegur teymisfundur með öllum fagstéttum teymisins. Í teyminu eru iðjuþjálfarar, félagsráðgjafi, sjúkraþjálfarar, heilsuþjálfari, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og geðlæknar. Á fundinum er farið yfir útskriftir, nýir skjólstæðingar kynntir og farið ítarlega yfir málefni helmings skjólstæðingahópsins í teyminu.

12:30 Fæ mér epli og sest niður í stutta stund í kaffistofunni með Ásgerði og Salvöru, hjúkrunarfræðingum í teyminu. Farið yfir eitt og annað, sumt tengt vinnu, annað ekki.

13:00 Á að vera biðlistafundur með aðstoðardeildarstjóranum en hann er veikur svo ég nota tímann til að fara sjálfur yfir biðlistann og undirbúa næsta fund. Oft erfitt að velja og hafna þegar 150 beiðnir eru á listanum.

14:00-15:30 Viðtöl við skjólstæðinga deildarinnar.

15:30-16:15 Fer yfir tölvupósta og næ aðeins að vinna í læknabréfum.

Við Sturla Johnsen, heimilislæknir.

16:30 Fer upp í Heilsuvernd. Byrja að vinna þar 1. nóvember. Hitti þar Stulla, gamlan skólafélaga, vin og verðandi samstarfsmann. Tökum eina „sjálfu“.

17:30 Kem heim. Heilsa upp á báða drengina og fæ að heyra hvernig dagurinn var. Ólík sýn á lífið og tilveruna hjá þeim bræðrum enda sá eldri orðinn 18 ára.

18:00 Fer í ræktina. Er loksins að ná mér á strik í hreyfingu eftir að hafa fengið COVID-19 í upphafi ársins.

19:00 Léttur kvöldmatur með fjölskyldunni.

20:00 Heimanámið hjá yngri drengnum klárað. Þarf oft smá andlegan stuðning og hvatningu til að klára þetta alveg þótt hann sé mjög duglegur. Þetta er í þriðja sinn sem ég fer í gegnum grunnskólann aftur í gegnum börnin mín þannig að ég er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Með hverju barni skipta einkunnirnar minna máli og félagsleg tengsl og vellíðan vega meira.

21:00 Dett inn í nýjasta niðurhal „vinkonu minnar“ Pat Brown á YouTube. Stórlega vanmetin kona með alltof fáa áskrifendur. Hún er „criminal profiler“ á eftirlaunaaldri sem tekur fyrir gömul og ný sakamál. Eiginkonan deilir ekki aðdáun minni á henni, en segist ætla að hafa samband við hana og biðja hana að senda mér afmæliskveðju, hvernig sem ég á að túlka það.

22:00 Hverf inn í draumaheiminn, sem litaður er morðmáli kvöldsins.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica