11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Á ég að fórna mér fyrir kerfi sem stendur ekki með sjúklingunum? Steinunn Þórðardóttir

Á nýloknum aðalfundi Læknafélags Íslands kom fram fordæmalítil samstaða meðal lækna. Það er fáheyrt að læknar séu tilbúnir að stíga jafn fast til jarðar og raun bar vitni, ákalla ríkisstjórnina í heild og lýsa ríkjandi neyðarástandi í heilbrigðiskerfinu öllu. Ástandi sem sé óboðlegt og hættulegt. Á fundinum var rætt hvort hægt væri að kveða enn fastar að orði, enda velti fólk fyrir sér hvað þurfi til til að loks verði hlustað og ráðist í raunverulega endurreisn íslensks heilbrigðiskerfis. Eins veltir fólk fyrir sér hvað sé næst ef orðin þrýtur og áfram verði engar aðgerðir í sjónmáli.

Við skynjum öll að við erum á ögurstundu. Ef langvarandi vanræksla og skert fjármögnun heilbrigðiskerfisins verður látin halda áfram óáreitt, verður þrautin þyngri að snúa þróuninni við. Íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 2010 lagt lægsta hlutfall vergrar landsframleiðslu í rekstur heilbrigðiskerfisins í samanburði við stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum, samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Óhugsandi hlýtur að teljast að hægt sé að reka heilbrigðisþjónustu sem stenst kröfur almennings fyrir svo lág framlög í landi sem er fámennt og strjálbýlt og þar af leiðandi óhagkvæm rekstrareining, auk þess að vera með eitt hæsta verðlag sem þekkist, sem svo sannarlega hefur áhrif á kostnað við aðföng og rekstur kerfisins hér. Merki eru um að þessi sveltistefna birtist nú í því að læknar lendi í auknum mæli í langvarandi veikindum sökum álags, flýi land og skipti jafnvel alfarið um starfsvettvang. Vaxandi brotthvarf lækna úr of fáliðuðu heilbrigðiskerfi er orðið að stjórnlitlum vítahring þar sem álag á þau sem eftir standa ýtir enn undir frekara brotthvarf. En álagið er ekki bara vegna manneklu heldur tengist það einnig þverrandi von um bjartari framtíð og siðferðilegum skaða sem læknar verða fyrir í daglegum störfum sínum þar sem þeir standa sífellt frammi fyrir því að geta ekki þjónustað sjúklingana með þeim hætti sem þeim þykir ásættanlegur. Því læknar eru svo sannarlega þrautseigir og hafa oft þurft að hlaupa hratt og takast á við álag. Í COVID-19 faraldrinum settu læknar ótta sinn gagnvart eigin heilsu og heilsu fjölskyldunnar til hliðar, lögðu á sig ómælda vinnu við gríðarlega krefjandi aðstæður, börðust frá degi til dags í fullkominni óvissu um framhaldið og gerðu það af miklum kjarki og skyldurækni enda hlutverk lækna að lækna og líkna í neyðarástandi jafnt sem á hversdagslegri tímum.

Nú standa læknar eftir í rykinu eftir mörg gríðarlega krefjandi misseri með litlum tækifærum til hvíldar og fría og við blasa biðlistar sem eru lengri en nokkru sinni fyrr, sívaxandi útskriftarvandi, troðfullar legudeildir, heilsugæsla sem annar engan veginn eftirspurn, bráðamóttökur sem ekki geta tryggt öryggi sjúklinga né mannlega reisn þeirra. Hvernig eigum við sem læknar að geta staðið með kerfi sem stendur ekki með sjúklingunum? Sem vinnur ekki með okkur? Sem gefur okkur enga von um bjartari framtíð? Hvernig verður næsta sumar? Er eitthvað í kortunum sem gefur til kynna að það verði betra en það síðasta, þegar Sjúkrahúsið á Akureyri var sett á neyðarstig vegna manneklu og starfsfólk kallað inn úr langþráðu sumarfríi? Þótt faraldurinn væri búinn? Að vinna í aðstæðum sem þessum ár eftir ár, fórna verðmætum tíma með vinum og fjölskyldu, fórna jafnvel eigin heilsu eins og svo margir læknar hafa því miður þegar gert, hvers virði er það ef það er engin von um betri tíð?

Það er hægt að hlaupa hratt, sýna þrautseigju, leggja sig allan fram, ef þau sem stýra kerfinu og fjármögnun þess hlaupa líka hratt, sýna þrautseigju, leggja sig öll fram og sýna okkur þá virðingu að hlusta á okkur fagfólkið og á sjúklingana, bæta kerfið og efla. Leggja það fjármagn í kerfið sem raunverulega þarf. Skipa valinn mann í hvert rúm, bæði í stjórnun og í þjónustu við sjúklinga, og vera tilbúin að leggja á sig það sem þarf til að laða hæfasta fólkið til starfa innan íslensks heilbrigðiskerfis með raunverulegum tilboðum um góðar starfsaðstæður, starfsþróun og kjör. Gera okkur samkeppnishæf við það sem best gerist erlendis.

Kári Stefánsson stóð fyrir undirskriftasöfnun árið 2016, þeirri stærstu í Íslandssögunni, þar sem 85.000 landsmenn skoruðu á stjórnvöld að verja 11% af landsframleiðslu í heilbrigðismál. Ráðherrar veittu undirskriftunum viðtöku með bros á vör við hátíðlega athöfn, en hvar eru efndirnar? Aðgerðaráætlanirnar liggja fyrir en það þarf að fjármagna þær og koma þeim í framkvæmd. Því heilbrigðiskerfi sem veitir fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma er lögbundinn réttur allra Íslendinga.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica