11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Ritstjórnir norrænu læknablaðanna hittast árlega, í þetta skipti hjá Læknablaðinu

Árlegur fundur ritstjórna norrænu læknablaðanna var haldinn á Hótel Holti í 101 Reykjavík í lok september. Tuttugu manna hópur fjallaði um blöðin: um efnið, auglýsingarnar, prentunina, netið, lesendurna, og ekki minnst um margbrotinn heim nútímamiðlunar: twitter, facebook, alnetið sjálft, tiktok, hlaðvörp, myndbönd, instagramm.

Blöðin eiga allt sameiginlegt og það er ritstjórnum þeirra lífsbjörg að hittast og sjást og talast við. Á Norðurlöndunum eru læknafélögin útgefendur blaðanna og ritstjórnir eru skipaðar fulltrúum sérgreinafélaga. Blöðin eru öll bæði með ritrýndar fræðigreinar eftir vísindalegum stöðlum (doi-merktar og skráðar á PubMed og víðar) og félagslegt efni: viðtöl og fasta penna.

Blöðin standa misvel eins og gengur og alls staðar í heiminum hækkar verð fyrir prentun og dreifingu. Flest norrænu blöðin hafa brugðist við með því að fækka tölublöðum. Lokasvar allra á fundinum var þó það að prentun hefur algjöran forgang, – engin miðlun tekur henni fram. Hvert tölublað lifir lengi og er lesið af mörgum, – fréttir lifa hátt en skemur, en ritrýnt efni eins og yfirlitsgreinar eru lesnar mikið og lengi, – verða jafnvel kennsluefni árum saman, – og upplýstir og leitandi sjúklingar finna þar haldgóð svör við mörgum spurningum. Danir eru komnir svo langt að hafa upplestur tiltækan á hluta af efni blaðsins, – þá er hægt að hlusta á grein.

Mynd af hópnum við dna-keðjuna í húsi Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni. Mynd: Védís.

Ritstjórnir blaðanna beita sér markvisst í að fá lækna til liðs við blöðin með viðtölum, skoðanaskiptum og skrifum og til að ritrýna: það þarf að endurnýja ritrýnahópinn og hann þarf að endurspegla félagahópinn í læknafélaginu og færa þá vísindalegu hefð milli kynslóða og kynja.

Margt fleira bar á góma, ekki síst ástandið í heiminum. Stríðið í Úkraínu brennur mun heitar á frændum okkar en okkur en sama skylda hvílir þó á öllum blöðunum: að halda í heiðri og brýna vitund lækna um mannúð og reglur læknasamfélagsins sem er að finna í Codex Ethicus.

Fundurinn sat ekki bara inni bak við luktar dyr heldur setti upp regnhlífina og skoðaði bækistöðvar deCode og Kerecis.

– Næsti fundur ritstjórnanna verður haldinn að ári í Noregi.

Fulltrúi danska læknablaðsins, Elizabeth Gatzwiller, fór á gosstöðvarnar í Geldingadölum með myndavélina sína. Þar er enn heitt í kolunum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica