11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Sýklalyfjaávísanir utan sjúkrahúsa á Íslandi – stefnum við í öfuga átt?

Þann 18. nóvember hvert ár minnir sóttvarnastofnun Evrópu á mikilvægi sýklalyfja (European Antibiotic Awareness Day). Sama dag hefst vika vitundarvakningar um sýklalyfjanotkun á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði Embættis landlæknis

Jón Steinar Jónsson, yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál á heimsvísu sem ógnar virkni sýklalyfja og þar með nútíma læknisfræði. Skynsamleg notkun sýklalyfja er mikilvægt atriði til þess að stemma stigu við frekari þróun sýklalyfjaónæmis í heiminum. Aukin áhersla hefur verið á alþjóðasamstarf á þessu sviði undanfarin ár enda telst sýklalyfjaónæmi ein mesta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag.

Ávísanir sýklalyfja (J01 samkvæmt ATC-flokkunarkerfinu, sjá Sérlyfjaskrá) utan sjúkrahúsa árin 2017-2022 eftir mánuðum, mældar sem fjöldi skilgreindra dagsskammta (DDD) á 1000 íbúa á dag (DID).

Á tíma COVID-19 faraldursins urðu talsverðar breytingar á ávísunum sýklalyfja hér á landi miðað við fyrri ár. Árið 2020 fækkaði ávísunum verulega frá og með aprílmánuði (mynd) en árið 2021 fjölgaði þeim á ný, sérstaklega síðari hluta ársins.1-3  Svipuð þróun hefur sést erlendis, til dæmis í Svíþjóð. Samkomutakmarkanir kunna að hafa stuðlað að fækkun öndunarfærasýkinga almennt og þar með fækkun sýklalyfjaávísana á fyrsta ári faraldursins.

Mestar breytingar urðu hjá börnum undir 5 ára aldri en ávísunum til þeirra fækkaði um þriðjung á milli áranna 2019 og 2020 (úr 915 niður í 699 ávísanir/1000 íbúa/ári). Ávísunum fjölgaði aftur árið 2021 og varð heildarfjöldinn þá enn hærri en 2019 (1017 ávísanir/1000 íbúa/ári).4

Því miður virðist sem aukningin síðla árs 2021 haldi áfram það sem af er þessu ári því heildarfjöldi ávísaðra dagskammta sýklalyfja var sambærilegur eða hærri mánuðina mars til september 2022 en sömu mánuði árið 2019 (mynd). Því eru teikn á lofti um að jákvæð þróun í sýklalyfjaávísunum síðustu ár hafi verið tímabundin.

Þessi þróun er að sjálfsögðu áhyggjuefni, ekki síst þegar haft er í huga að ávísanir á sýklalyf eru mun fleiri hér en á hinum Norðurlöndunum, Hollandi og öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Þýðingarmikið er að læknar séu meðvitaðir um þessa þróun og haldi áfram vegferð okkar í átt að skynsamlegri ávísun sýklalyfja. Í því sambandi má minna á ráðleggingar um meðferð algengra sýkinga utan sjúkrahúsa (Strama) á heimasíðu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu ( throunarmidstod.is/ ).

Einungis með samstilltu átaki allra lækna mun okkur takast að viðhalda góðum árangri þegar kemur að skynsamlegum ávísunum sýklalyfja.

Heimildir

 

1. Folkhälsomyndigheten. Pandemin har påverkat både antibiotikaförsäljningen och antibiotikaresistensen. folkhalsomyndigheten.se/nyheter-och-press/nyhetsarkiv/2022/juni/pandemin-har-paverkat-bade-antibiotikaforsaljningen-och--antibiotikaresistensen - júní 2022.
 
2. Högberg LD, Vlahović-Palčevski V, Pereira C, et al. Decrease in community antibiotic consumption during the COVID-19 pandemic, EU/EEA, 2020. Euro Surveill 2021; 26: 2101020.
https://doi.org/10.2807/1560-7917.ES.2021.26.46.2101020
PMid:34794534 PMCid:PMC8603403
 
3. Halldórsdóttir AM, Guðnason Þ. Bréf til blaðsins. Vitundarvakning um sýklalyfjanotkun - viðhöldum góðum árangri. Læknablaðið 2021; 107: 549-50.
 
4. Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2021. Skýrsla unnin í samstarfi við Matvælastofnun. Ritstj: Halldórsdóttir AM. landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item50329/ .- september 2022.

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica