10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Lipur penni. Síðasti dansinn. Eyjólfur Þorkelsson

Alla læknadeildina er okkur kennt að hafa sjúklinga upplýsta og virka þátttakendur í eigin meðferð. Hvað ef læknir kemst að þeirri niðurstöðu að fara á svig við hið viðtekna til að gera það sem hann telur réttast fyrir sjúkling sinn?

 

Læknirinn í þvottahúsinu? Eiginkona Eyjólfs og heimilislæknakollega, Lilja Rut Arnardóttir, smellti þessari mynd af sínum um daginn.

Í 5 ár bar ég gæfu til að þjóna sem læknir á dvalarheimili í Svíþjóð. Þar kynntist ég gamalli ekkju sem hafði reykt í sig fjórða stigs teppusjúkdóm og var háð uppbótarsúrefni í vöku og svefni. Hún heyrði skelfilega en var annars við fulla vitræna getu. Hún hafði frá mörgu að segja og í sín 90 ár hafði hún sannarlega lifað tímana tvenna. Henni fannst því varla taka því að kvarta þegar vinstri handleggurinn fór að safna á sig bjúg. Að mér setti illan grun en spurningin sem ég glímdi við var önnur en ég hafði búist við.

Ég vissi að henni leið vel á heimilinu, heimili sínu, og þótti mikið fyrirtæki að fara að heiman. Hún vildi helst ekki á sjúkrahús nema til læknandi meðferðar. Hennar almenna ástand takmarkaði alla meðferðarmöguleika. Hún hafði ekki verki, ekki meiri andnauð eða virkniskerðingu en venjulega – svo vel má spyrja: hvað átti að meðhöndla?

Sú spurning ásótti mig, svo mjög að kom mér á óvart. Þetta hlaut að vera krabbi með eitlametastösum, en gat ég verið öruggur? Átti ekki sjúklingurinn rétt á að vita greininguna? Þá skildi ég hvaða óvissa hafði í raun elt mig. Ég vissi ekki hvort hún yfir höfuð vildi vita. Að sjálfsögðu átti hún allan rétt á að vita. En að vilja vita – það er allt önnur spurning.

Sem leiddi til næstu spurningar: Hvernig veit ég hvað hún vill? Auðvitað gat ég spurt hana beint út en sannast sagna vissi ég ekki hvort hún myndi svara samkvæmt því sem hún sjálf helst vildi eða því sem hún héldi að herra læknir vildi heyra. Mín óvissa og óöryggi myndu vissulega minnka, en ykist ekki hennar óvissa og óöryggi sem því næmi?

Mér leið eins og Pandóru. Tæki ég frumkvæðið með að spyrja hvað gamla konan vildi gera, væri ég að ýta öskjunni upp að andlitinu á henni. Ég ákvað því að ég myndi ekki impra á frekari rannsóknum nema hún sjálf spyrði og til að gefa henni raunverulega tækifæri til að spyrja, vitjaði ég hennar í hverri viku. Ég spurði hvernig henni liði og hvernig handleggurinn væri. Svör hennar voru einatt „Ég hef ekkert til að kvarta undan. Handleggurinn er óbreyttur.“ Hún gaf aldrei upp boltann fyrir mig að grípa; boltann sem ég beið eftir.

Vikur urðu að mánuðum og vitjanir mínar að rútínu. Ég hélt áfram að stíga varlega og opna á næsta spor en hún brosti kankvís, tók hliðarskref og leið áfram. Fyrir hugskotsjónum var mynd af okkur dansa vals umhverfis óþolinmóðan næsta dansherra sem mændi á okkur og hvatti ljáinn. Ég varð æ vissari í mínum grunsemdum um greininguna en hið skrítna var að ég fann svo sterkt á mér að hún vissi líka hvað væri á ferðinni, og vissi að ég vissi. Valsinn virtist síður en svo valda henni ama. Þvert á móti raunar.

Engu að síður fjöruðu tónarnir út og þróttur hennar með. Hún dormaði æ meir og borðaði æ minna. Þegar ég kvaddi hana hinsta sinni lá hún í rúminu, sagðist vera með smávægileg ónot en lyfin virkuðu vel. Aðallega kvaðst hún þreytt. Ég settist á rúmstokkinn, tók í hönd hennar og sagði eitthvað í líkingu við: „Brátt mun þér líða betur“. Hún svaraði engu, horfði bara á mig. Tilfinningin sem ég túlkaði úr augum hennar var þakklæti. En fyrir hvað? Að fylla í gamaldags staðalímynd læknis? Eða að gefa henni tækifæri til að mæta örlögunum, ekki sem sjúklingur, heldur á eigin forsendum?

Ég mun aldrei fá að vita hvort ég gerði rétt; sem lækni sæmir. En ég held ég sé nær því að skilja hvað Ralph Waldo Emerson meinti þegar hann sagði: „Menntun er það sem býr með þér þegar allt er gleymt sem þér var kennt.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica