10. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Dagur í lífi lungnalæknis. Stefán Þorvaldsson
06:30 Síminn hringir á tilætluðum tíma. Ríf mig fram úr og í sturtu. Kettirnir bíða við dyrnar þegar ég er búinn og ég gef þeim blautmat dagsins. Smyr mér flatköku og set tvo skammta af Nespresso í ferðamál, tek með út í bíl. Í dag er ég að vinna á Sjúkrahúsinu á Akranesi en ég bý í efri byggðum Kópavogs. Það er enn einn fallegur haustdagurinn, sárabót fyrir lélegt sumar en það er við frostmark þegar ég legg af stað. Hljóðbókin fer í gang þar sem frá var horfið, The Sea eftir John Banville, ég nota tímann sem fer í akstur til að hlusta á heimsbókmenntirnar. Á degi sem þessum er sönn ánægja að keyra, morgunsólin litar Esjuna og Akrafjallið og eilífar framkvæmdirnar á Kjalarnesinu ná ekki að skemma útsýnið. Verra getur það verið á veturna í myrkri og slagviðri eða norðaustan hvassviðri, stöku sinnum er vegurinn lokaður.
Stofugangur á lyflækningadeild. Frá vinstri: Undirritaður, Anna Þóra Þorgilsdóttir, Ingi Karl Reynisson og Hlíf Samúelsdóttir.
07:45 Sest við tölvuna, renni yfir innlagða sjúklinga. Geri krossgátu dagsins í New York Times til að sparka heilanum í gang.
08:20 Fræðslufundur. Loksins, eftir mörg löng COVID-hlé, eru fræðslufundirnir byrjaðir aftur, þar skiptast læknar spítalans á að fræða kollegana. Í dag er það Hlíf Samúelsdóttir sérnámsgrunnlæknir sem talar um góðkynja hnúta í legi og gerir það vel. Eftir fundinn er snöggur morgunmatur.
09:15 Stofugangur á A-deild, lyflækningadeild. Eftir frekar erfitt sumar er nú aðeins rólegra á deildinni, enginn bráðveikur eða óstabíll. Það er líka ágætt þar sem það er verið að innleiða nýtt rafrænt lyfjaordinations-kerfi og fer drjúgur tími í að ræða það. Deildin er nýuppgerð, drjúgur hluti síðasta árs undirlagður af framkvæmdum. Hún er ágætlega búin þó alltaf megi bæta við tækjum en það sem er mest um vert er að hún er mönnuð af frábæru starfsfólki. Engin stórtíðindi á stofugangi og ég fer niður á skrifstofu að hringja í sjúklinga með rannsóknarniðurstöður og önnur erindi.
11:00-16:00 Móttaka lungnasjúklinga. Vegna skorts á skipulagsgáfu er ég með tvöfalda móttöku í dag, er á leið í frí til að fagna stórafmæli eiginkonunnar og hrúgaði tveimur móttökudögum á einn. Flestir eru þó „góðkunningjar“ með teppusjúkdóma sem koma til eftirlits og allt gengur smurt. Ánægjulegast er að kona um sjötugt sem ég hef haft áhyggjur af vegna versnandi ástands og öndunarbilunar er orðin reyklaus og lítur miklu betur út. Annar maður á svipuðum aldri með hörmulega lungnastarfsemi virðist vera að sigla inn í öndunarbilun og þyrfti jafnvel súrefni, hann fær sterakúr til að hressa sig við og ég verð í sambandi við hann fljótlega.
16:30 Keyri aftur suður, veðrið er jafn fallegt og um morguninn. Vegna áðurnefnds skipulagsleysis var ég settur á vakt um kvöldið en náði að losa mig við hana með hjálp góðra manna til að undirbúa ferðalag morgundagsins, ekki síst til að komast í löngu tímabæra klippingu.
18:00 Heyri í eiginkonunni að lokinni klippingu, dæturnar eru tvist og bast og engin stemning fyrir eldamennsku þannig að ég kippi með pizzum á heimleiðinni, þeim er sporðrennt á hefðbundinn hátt og horft með öðru auganu á fréttir sem eru jafn dapurlegar og venjulega.
20:00 Lúinn eftir daginn þannig að pökkun er frestað til morguns, enda er það ekki mikil seremónía, öllu sem mér dettur í hug hent ofan í tösku. Tékka okkur inn í flug morgundagsins, sit svo og les þar til kominn er háttatími.