10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Áhrifaríkar kennsluaðferðir Jóns fóstra. Andrés Magnússon

Það voru forréttindi fyrir 6. árs læknanema að fá að nema verklega lyflæknisfræði á Landspítala. Þar var okkur vel tekið og sérfræðingarnir tóku okkar fávíslegu spurningum af stakri þolinmæði og jafnaðargeði. Óvíða var betra að vera en á gigtardeildinni, 14G. Þar var okkur kennd liðskoðun, liðástungur, úrlestur liðskanna, sýndir alls kyns sjúkdómar og fleira. Allir gigtarlæknarnir voru fæddir kennarar en að öðrum ólöstuðum var Jón heitinn Þorsteinsson yfirlæknir deildarinnar (gjarnan nefndur Jón fóstri) fremstur meðal jafningja. Þegar hann talaði við sjúkling með scleroderma eða annan fágætan sjúkdóm gætti hann þess ávallt að hafa stúdenta með. Hann hvatti okkur, hafði trú á okkur og lét okkur kenna 4. árs nemum. Ég var á þessum árum stjórnarmaður í heilsuvörubúðinni Kornmarkaðnum og kom með bók þaðan um hvernig lækna mætti alls kyns gigtarkvilla með mataræði. Jón settist niður með mér og útskýrði hvernig ekkert af fullyrðingunum í bókinni stæðist vísindalega skoðun. Ég fór til félaga minna með þennan nýfundna fróðleik og var umsvifalaust rekinn úr stjórninni.

Já, þetta voru góðir tímar. Það var þó eitt sem skyggði á gleðina. Þannig var mál með vexti að við höfðum afnot af stúdentaherbergi á 4. hæðinni. Jón átti það til, ansi oft reyndar, að gægjast inn í þetta herbergi á eftirmiðdögunum, um það leyti sem flestir voru farnir að tygja sig til heimferðar. Ef hann sá glitta í einn eða tvo samviskusama læknanema sem sátu þarna ennþá, hvarf hann á braut en kom aftur að vörmu spori með fjallháan hrauk af sjúkraskrám. Í eitt skiptið var þetta reyndar bara sjúkraskrá eins sjúklings en með óteljandi innlagnir á gigtardeildina. „Heyrðu Andrés minn; hún Guðfinna var að leggjast inn, sterarnir eru hættir að virka, mig langar að biðja þig að fara í gegnum sjúrnalinn hennar og athuga hvaða lyf hafa þegar verið reynd og hvernig þau virkuðu“. Jón gat komið hvaða eftirmiðdag sem var en föstudagseftirmiðdagar voru hans uppáhald. „Heyrðu elskan, ég hringi bara til þess að láta þig vita að ég verð að fresta bíóferðinni í kvöld.“ „Nei, nei, ekkert sérstakt, ég þarf bara að fara í gegnum eina sjúkraskrá hérna á spítalanum.“ Þó manni væri hlýtt til Jóns, gat maður ekki varist þeirri hugsun hví í ósköpunum hann gæti ekki bara gert þetta sjálfur, eða sett aðstoðarlæknana sína í þetta? Næsta mánudagsmorgun: „Jæja, hvað segirðu þá Andrés minn, ertu orðinn einhverju nær?“ „Jú, ég sá að Guðfinna hafði fengið gullsprautur 1972 til ´74 en þær höfðu ekki haft mikil áhrif. Síðan hafði hún tekið plaquenil 200 mg frá 1974 til 1980 og...“ ….. „Já Andrés, bíddu við, segðu mér, var hætt 1980 vegna aukaverkana eða vegna lélegrar svörunar?“ „Tja, það var erfitt að finna svör við því í sjúkraskránni.“ „Já, hmm, en reyndar hafði hún líka reynt gullsprautur áður og þeim var haldið áfram til 1975 en ekki 1974, og plaquenil var líka reynt í 400 mg skömmtum.“ Hva! Jón virtist vera með þetta allt á hreinu sjálfur, til hvers í ósköpunum var hann að láta okkur strita í gegnum þessar hnausþykku sjúkraskrár?

Það tók mig heila starfsævi að skilja að Jón var að kenna okkur alveg svakalega mikilvæga lexíu, eitt það mikilvægasta sem hægt er að kenna nokkrum lækni.
Og með því að velja einmitt föstudagseftirmiðdagana og þykkustu sjúkraskrárnar gætti hann þess að við myndum aldrei gleyma þessu.

Um 99% af því sem stendur í sjúkraskrám er hugsað fyrir næstu daga eða mánuði, hvernig hægðirnar voru í gær eða hvernig sjúklingurinn svaf um helgina. Iðulega er það sem mestu máli skiptir, og stundum það eina sem máli skiptir, hvaða íhlutanir hafa verið reyndar og hvernig þær reyndust. Mörg lyf verka á fleiri en einn sjúkdóm og greiningarskilmerki breytast oft með nýrri útgáfu af ICD og greiningar lækna eru oftast gerðar með fyrirvara. Það skiptir ekki öllu máli hvort sjúklingurinn greinist með kvíða eða þunglyndi, en hvernig hann svaraði SSRI-lyfinu skiptir öllu máli, sama gildir um

gigtarsjúkdóma, háþrýsting og sennilega flesta langvinna sjúkdóma. En upplýsingarnar um svörunina við íhlutuninni, til dæmis lyfjagjöfinni, er týnd inni í mörg hundruð blaðsíðna sjúkraskrá og lækninum hrýs hugur við að reyna að finna í þessum bunka hvort líðan sjúklinga hafi verið vel lýst fyrir og eftir lyfjagjöf. Margir sjúklingar með óljósar greiningar hafa tekið alls kyns lyf áratugum saman, jafnvel þvingað, án þess að það hafi verið farið rækilega í saumana á því hvernig lyfin hafi virkað.

Nú sting ég upp á því að í Sögunni (eða Heilsugátt), í minningu Jóns fóstra, komi nýr dálkur sem heiti „Íhlutun“ þar sem örstutt er lýst hvaða íhlutun eða lyf voru reynd, í hvaða skömmtum og hver útkoman var, ásamt aukaverkunum. Þannig er passað upp á þá hluti sem þurfa á augabragði að vera aðgengilegir árum og jafnvel áratugum seinna.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica