10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

„Ég fer síðastur frá borði“ - Mikael Smári Mikaelsson er yfirlæknir bráðamóttökunnar

Mikael Smári Mikaelsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala, segir að hann hafi aðeins séð tvo kosti þegar hann tók við starfinu. Reyna að breyta ástandinu eða flytja með fjölskylduna hinum megin á hnöttinn. Mikael ber ekki aðeins bráðamóttökuna á herðunum heldur hefur hann tekið að sér að leiða kjarasamninganefnd lækna. „Ég trúi að hægt sé að bjarga bráðamóttökunni og fer síðastur frá borði“

„Við finnum að fólk óttast að erfitt verði að fá nýja kjarasamninga í gegn,“ segir Mikael Smári Mikaelsson, nýr formaður samninganefndar Læknafélagsins og yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala. Kjarasamningarnir renna út í lok mars. Upplýsingum og gögnum sé nú safnað til að kortleggja ólíka stöðu og þarfir lækna.

Mikael Smári Mikaelsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala, er nýr formaður kjarasamninganefndar lækna. Mynd/gag

„Öll félögin kynna það sem þau telja mikilvægast í samningunum á fundum í október.“ Eftir það verði stefnan sett. Mikael sagði já þegar honum var boðin forystan. Hann var formaður Félags bráðalækna á Íslandi frá 2017 til 2021. Hann segir nú tækifæri fyrir lækna að meta hvort þeim finnst núverandi kjarasamningur í takti við nútímann.

Læknablaðið · Mikael Smári yfirlæknir á bráðamóttökunni: „Ég fer síðastur frá borði“

„Ég tel að samningurinn mætti vera skýrari. Þannig að Landspítali hafi til að mynda tól til að laða fólk að og sé samkeppnishæfur við útlönd og aðra,“ segir hann og vísar meðal annars til bráðamóttökunnar.

„Nú hef ég verið í stöðu yfirlæknis í rúmt ár. Stór hluti af verkefninu er að halda í mannauðinn og styrkja starfsemina. Ég hef endurtekið lent á veggjum, þar sem ég hef viljað gera eitthvað en verið sagt að samningarnir leyfi það ekki,“ segir Mikael en hrina uppsagna hjúkrunarfræðinga hefur dunið á bráðamóttökunni svo nú vantar í þriðjung stöðugildanna. Læknar hafi hins vegar margir horfið frá á árunum 2020 og 2021.

„Það er margra ára ferli að ráða í nýjar stöður lækna og hjúkrunarfræðinga,“ segir Mikael og að rík og mikilvæg þekking glatist við uppsagnirnar. „Stærsta ástæðan fyrir að við missum nú mannskap er að fólki finnst vinnuálagið og áhættan í að vinnan hérna of mikil.“ Pressan á þau sem sitji eftir aukist því enn. „Við óttumst þennan vítahring því þegar fyrstu hætta eykst álag á hin sem eftir eru og þau brotna uns ekkert er eftir,“ segir hann.

„Ég er samt hæfilega jákvæður og ætla mér að vera það. En auðvitað þegar maður horfir kalt á tölurnar er ástandið langt yfir hættumörkum.“ Er fólk þá í lífshættu? „Auðvitað.“ Bráðamóttakan þarf starfsfólk. „Hún er lífríki og þegar hluti þess hverfur er öll skepnan í hættu,“ segir hann.

Úr 300 í 860 legudaga

Læknablaðið sest niður með Mikael degi eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt. Hafði mætt nokkrum dögum fyrr en manneklan var þá slík vegna veikinda að finna þurfti nýjan tíma. 40% læknanna vantaði þann daginn. Mikael var á hlaupum. Hann segir frumvarpið vonbrigði.

„Mér sýnist að ekki hafi verið tekið stórt skref, ef nokkurt.“ Íslenska heilbrigðiskerfið sé rekið ódýrar en í nágrannalöndunum. „En samt er órökrétt að lítið kerfi sé ódýrara en stórt.“

Rúmt ár er frá því að Mikael tók við á bráðamóttökunni, þann 1. apríl í fyrra. Hefði honum verið sagt að staðan myndi enn versna hefði hann örugglega haldið það aprílgabb. Staðan hefur margversnað. „Legudögum milli júlímánaða í ár og í fyrra fjölgaði úr 300 í 860,“ segir hann og horfir til þeirra sem dvöldu 24 klukkustundir eða lengur á bráðamóttökunni.

„Þessi staða leggst þyngst á hjúkrunarfræðingana og því skiljanlegt að þeir hætti þegar vandinn hefur aukist þetta mikið,“ segir hann.

„Fólk ræður sig til vinnu út af áhuga, kjörum og vinnuaðstæðum. Auðvitað skipta kjörin málin, en aðrir þættir skipta líka máli,“ segir hann og nefnir umbun fyrir vinnuna og jafnvægi milli einkalífs og vinnu. „Það fer öfugt í fólk þegar því finnst því ekki umbunað á réttan hátt. Hér hefur verið deilt um hvernig greiða á aukalega þegar vantar fólk. Ákvæði í fyrri samningum eru umdeild. Það væri því ágætt að skýra þau.“

Mikael viðurkennir að starfið hafi ekki þróast eins og hann bjóst við á þessu eina ári. „Það hreyfist allt mjög hægt. Margir koma að og erfitt að knýja fram breytingar. Það er alltaf einhver ósammála. Margt hefur verið reynt og annað batnað en það hefur bara ekki dugað til.“ Hann hafi breytt þriggja mánaða áætlunum í fimm ára áætlanir. „Við vinnum hægar á vandanum en náum því á endanum.“

Sagt hefur verið frá því að framkvæmdastjórnin hafi ákveðið að aðeins mættu 15 vera tepptir á bráðamóttökunni í einu. „Það gilti aðeins um eina helgi og gildir ekki alla daga,“ segir Mikael. Miða hafi átt við 20 frá 1. september og 15 frá 1. október.

„Nú er verið að draga í land. Þeim gengur illa með fyrstu töluna 20,“ segir hann. Frá því að reglan var sett hafi mest 35 beðið á bráðamóttökunni. „Í augnablikinu hefur talan legið í kringum 25 en hugmyndin var að 20 ætti að vera hámark en ekki marktala.“

Með bandarískar rætur

Að bakgrunninum. Mikael Smári Mikaelsson hefur ekki alltaf borið það nafn. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt 10 ára gamall og hét fram að því Michael Nelson. Foreldrar hans eltu gott atvinnutilboð og hann flutti til Íslands tveggja ára.

„Ég á í raunar engar ættir á Íslandi,“ segir hann og brosir. „Ég kem með foreldrum mínum og ég er enn með tvöfaldan ríkisborgararétt en þau eru nú alíslensk. Þorsteinn Gylfason bauð föður mínum starf við nýja heimspekideild Háskólans eftir að þeir höfðu hist stuttlega. Ákvörðun var tekin hratt, þau fluttu og sjá ekki eftir því.“

Hann segir sína sögu áþekka sögu foreldra sinna. Hann lærði bráðalækningar við Australasian College for Emergency Medicine (ACEM) á Nýja-Sjálandi. „Ég fékk símhringingu á næturvakt árið 2005 frá kollega sem hafði farið út ári á undan mér. Hann spurði: Langar þig að koma? Það vantar lækni. Ákvörðunin var tekin á nokkrum klukkutímum og ég fór,“ segir Mikael, sem er ánægður með námið sem hann hlaut og enn ánægðari að hafa kynnst konu sinni, Rosie Jones. Þau eiga nú þrjú börn. Hún vinnur einnig á bráðamóttökunni og er að ljúka sérnámi sínu í bráðalækningum.

„Maður flýr ekki vinnuna heim,“ segir Mikael og hlær. „Ég tek hana bókstaflega með mér heim.“ En hvernig tilfinning er að koma heim á kvöldin?

„Það var auðveldara þegar ég var bara á gólfinu. En sem yfirlæknir skila ég ekki vinnunni þegar vaktinni lýkur. Bæði er haft samband þegar eitthvað kemur upp á allan sólarhringinn og svo næ ég ekki að klára verkin á sama hátt. En það er betra að spyrja fólkið á gólfinu um líðanina. Fólk er mjög mishæft í að segja: Nú er dagurinn minn búinn,“ segir Mikael.

En hefði hann tekið þessu starfi, hefði hann vitað að hann stæði í þessum sporum nú ári seinna? „Ef ég tala hreint út fannst mér ég aðeins hafa tvo möguleika þegar ég tók stöðuna. Það var enginn annar sem vildi stíga fram. Enginn vildi taka við þessu sökkvandi skipi og öllu sem því fylgdi,” segir hann. Hinn möguleikinn hafi verið að flytja úr landi.

„Ég á nýsjálenska konu og gat kvatt landið og farið þangað. En ég valdi að sjá hvort mér tækist að snúa þessu skipi og fer síðastur frá borði,“ segir Mikael. En telur hann að skipið sökkvi dýpra?

„Ég þori ekki að segja það. Það er enn smá spotti eftir en gott að sjá að við höfum feikisterkan og áhugasaman hóp lækna í sérnámi og ég sé að margir flottir áhugasamir hjúkrunarfræðingar eru í námi og á leiðinni. Ný kynslóð er á leiðinni sem þekkir aðeins þetta ástand en heldur samt áfram,“ segir hann.

„Ég held því í þá von að okkur takist að byggja bráðamóttökuna upp aftur,” segir hann en leggur þó áherslu á að uppsagnir læknanna 2020 og 2021 og hjúkrunarfræðinganna nú séu mikill skellur. „Þetta er blóðtaka sem ekki er hægt að hrista af sér,“ segir hann. „Vinna á bráðamóttöku byggist á dómgreind og innsæi sem fæst aðeins með reynslu,“ segir hann.

„Það tekur því mörg ár að byggja starfsemina upp aftur. Titillinn ræður því ekki hvernig gengur. Það tekur mörg ár að læra starfið, því miður, en ég trúi að það takist á endanum.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica