10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Lögfræði 45. pistill. Eiga læknar að sinna sjálfum sér eða ættingjum sínum?

Hjá einstaklingum, sem eiga aðgang að lækni gegnum ættar- eða vinatengsl, er sterk tilhneiging til að nota þau tengsl til að fá læknisþjónustu. Sömuleiðis liggur fyrir að læknir þarf stundum á lyfjum að halda sem eru lyfseðilsskyld. Þá liggur kannski beinast við fyrir lækninn, og er örugglega fljótlegast og þægilegast, að skrifa sjálfur lyfseðilinn fyrir lyfinu fremur en að leita til annars læknis.

Í samskiptum milli Embættis landlæknis (EL) og Læknafélags Íslands (LÍ) hefur EL lýst þeirri afstöðu að almennt eigi læknar ekki að skrifa lyfseðla fyrir lyfjum sem þeir sjálfir þurfa að nota. LÍ hefur lýst þeirri afstöðu að slík takmörkun gagnvart útgáfu lækna á lyfseðlum þurfi að styðjast við skýr lagaákvæði. Á sama tíma er LÍ afdráttarlaust í þeirri afstöðu að öll útgáfa lækna á lyfseðlum, á þá sjálfa og sjúklinga, sé háð ströngu eftirliti EL. Einnig er það afstaða LÍ að almennt eigi að forðast að skrifa lyf á sjálfan sig nema það sé endurnýjun lyfja sem meðhöndlandi læknir viðkomandi læknis hefur áður ákveðið að hann skuli taka.

Varðandi meðferð lækna á ættingjum er mikilvægt að íhuga hvað sé heppilegt og við hæfi. Af margvíslegum ástæðum getur verið óæskilegt að læknir taki að sér meðferð ættingja. Lækni getur mögulega skort nægilega þekkingu til að meðhöndla ættmennið, viðkvæmni vegna fyrri sjúkrasögu eða viðeigandi læknisskoðunar getur leitt til rangrar greiningar og meðferðar, skortur á skráningu í sjúkraskrá getur valdið ættingjanum vanda síðar, neikvæð niðurstaða meðferðar getur spillt tengslum milli læknis og ættingja, nauðsynleg meðferð gæti verið andsnúin vilja ættingjans, svo nokkur atriði séu nefnd.

Í nýsamþykktum siðareglum LÍ (9. útgáfu) er nánar fjallað um þetta í 14. gr. Sambærileg ákvæði, en ekki eins ítarleg, voru í 10. gr. eldri siðareglna LÍ. Í nýju siðareglunum segir um mörk einkalífs
1. málsgrein:

Læknir skal hafa það hugfast að fjölskyldu- og vinatengsl við sjúkling geta haft áhrif á dómgreind hans og faglegt sjálfstæði. Læknir ætti því almennt að forðast að bera ábyrgð á læknismeðferð náinna vina eða vandamanna sinna, ekki síst þegar um langvinna eða alvarlega sjúkdóma er að ræða.

Þetta er mikilvæg leiðbeining til félagsmanna LÍ.

Alþjóðasamtök lækna (World Medical Association – WMA) eru einnig með þetta mál á dagskrá. Á ársfundi WMA, sem haldinn verður fljótlega verður rædd tillaga að yfirlýsingu WMA um meðferð lækna á ættingjum (Physicians treating relatives). Í tillögunni eru meðal annars settar fram eftirfarandi ráðleggingar til lækna:

l. Læknir eigi að forðast að vera aðalveitandi heilbrigðisþjónustu ættingja. Læknir geti þó sinnt ættingjum í neyðartilvikum, vegna minni háttar heilsufarsvandamála eða þegar ekki næst í annan lækni.

2. Ef ættingi spyr lækni um annað álit vegna læknismeðferðar sem ættinginn er að fá hjá öðrum lækni, þá þurfi læknirinn, kjósi hann að veita annað álit, að gæta varkárni í allri álitsgjöf.

3. Kjósi læknir að veita ættingum meðferð verði að hafa eftirfarandi hugfast:

a. Virða siðareglur, sjálfræði sjúklingsins og rétt hans til samþykkis, ekki síst þegar um er að ræða einstaklinga undir lögaldri.

b. Virða trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart sjúklingnum og gæta þess að deila aldrei upplýsingum um heilsufar sjúklingsins án samþykkis hans. Á það einnig við gagnvart upplýsingum til annarra fjölskyldumeðlima.

c. Lýsi ættinginn áformum um að leita álits hjá öðrum lækni verður læknirinn að virða þá ákvörðun.

d. Samþykki fyrir meðferð þarf sjúklingur alltaf að gefa, einnig þegar ólögráða sjúklingur á í hlut. Gæta þarf að allri upplýsingagjöf gagnvart sjúklingi, svo samþykki hans geti talist upplýst samþykki.

e. Reynist skráning sjúkrasögu og skoðun erfið eða jafnvel óþægileg fyrir sjúkling, lækni eða báða aðila, á læknir að íhuga alvarlega að vísa ættingjanum til annars læknis.

f. Vandlega þarf að gæta þess að öll samskipti læknis og sjúklings í tilvikum sem þessum séu vel og ítarlega skráð í sjúkraskrá.

4. Ef læknir getur ekki fylgt þessum leiðbeiningum á hann vísa ættingjanum í meðferð hjá öðrum lækni.

5. Undir öllum kringumstæðum þurfa læknar að gæta þess að virða allar siðareglur, sbr. Genfar-yfirlýsingu WMA, siðareglur WMA og Lissabon-yfirlýsingu WMA um réttindi sjúklinga.

Undirstrikað er í drögunum að þó læknar séu eindregið hvattir til þess að annast ekki ættingja sína nema í undantekningartilvikum, sé það viðurkennd staðreynd að ættingjar leita gjarnan til lækna varðandi læknishjálp og -meðferð og að aðstoð þeirra er sjúklingnum mikilvæg og vel metin.

Ef til vill verða þessar leiðbeinandi reglur samþykktar af hálfu WMA á næsta ársfundi samtakanna. Jafnvel þó svo verði ekki felast í þeim mikilvægar ráðleggingar til lækna um það hvernig rétt sé að bregðast við og hvað þurfi að hafa í huga þegar ættingjar leita til þeirra vegna meðferðar. Þá eru þessar leiðbeiningar góð viðbót við þær leiðbeiningar sem þegar liggja fyrir í siðareglum LÍ.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica