10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Eyrún og Þórunn útskrifast fyrstar úr íslensku sérnámi öldrunarlækninga

Eyrún Baldursdóttir og Þórunn Helga Felixdóttir eru fyrstar til að útskrifast úr sérnámi í öldrunarlækningum hér á landi eftir marklýsingu sem byggði á viðamikilli reglubreytingu frá árinu 2015.

Með henni feta þær í fótspor Eyjólfs Haraldssonar, sem varð fyrstur til að fá viðurkenninguna snemma á þessari öld, og Grímu Huldar Blængsdóttur, en útskrift hennar byggði á reglugerðinni þá ósamþykktri.

Þórunn Helga Felixdóttir og Eyrún Baldursdóttir eru nýútskrifaðir öldrunarlæknar. Þórunn verður á Landspítala en Eyrún á Eir. Mynd/Steinunn Þórðardóttir

Báðar eru þær Eyrún og Þórunn almennir lyflæknar í grunninn en öldrunarlækningar eru einnig kenndar sem viðbótarsérgrein við heimilislækningar hér á landi og var sú breyting staðfest með reglugerðinni. Útskrift þeirra Þórunnar og Eyrúnar festir umgjörðina í kringum sérnámið í sessi.

„Stórtíðindi,“ segir Konstantín Shcherbak kennslustjóri sérnámsins. Þær Þórunn Helga og Eyrún fagna útskriftinni. „Merkileg tímamót að klára,“ segir Þórunn. Námið hafi verið krefjandi vegna COVID.

„En þetta er svo skemmtilegur hópur sérfræðilækna sem við vinnum með. Það hefur gert þetta að góðum tíma og við fengið tækifæri til að læra margt og þroskast í starfi. Margir lögðu mikið á sig til að þetta gengi upp.“ Undir það tekur Eyrún.

Haldið var upp á tímamótin. „Öldrunarlæknar buðu okkur út að borða,“ segir Þórunn. „Við áttum skemmtilegt kvöld þegar við fögnuðum áfanga okkar og að prógrammið hefði í fyrsta sinn útskrifað lækna.“

Þórunn byrjar nú að vinna sem öldrunarlæknir á Landspítala en Eyrún á öldrunarendurhæfingardeild hjúkrunarheimilisins Eirar. „Ég vinn með ótrúlega góðu þverfaglegu teymi að endurhæfingu sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á og hefur verið draumur minn.“

Báðar mæla þær heilshugar með náminu en þó enn frekar með kollegunum. „Dásamlegasta fólk veraldar hefur valið öldrun og mig langaði að vera kollegi þeirra,“ segir Eyrún sem hefur náð því markmiði sínu.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica