10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Skerptu á verkferlum Læknablaðsins á vinnufundi

Rífandi gangur er í innsendingum á fræðigreinum til Læknablaðsins. Alls hafa 45 greinar verið sendar inn það sem af er ári. Þær voru 51 allt árið í fyrra

„Þetta hefur verið skemmtilegt og gaman að sjá hvað læknar hafa verið duglegir að senda blaðinu fræðiefni. Ég tel að hópur lækna hafi fengið smá svigrúm til að huga að rannsóknum sínum í COVID. Staðan nú gæti því verið uppsöfnuð. Við sjáum á næstu misserum hvernig þróuninni vindur fram,“ segir Helga Ágústa Sigurjónsdóttir ritstjóri Læknablaðsins um það að þegar hafa 45 fræðigreinar borist blaðinu á árinu.

Ritstjórn og tveir starfsmenn samankomin á ritstjórnarskrifstofu Læknablaðsins. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir blaðamaður, Lilja Sigrún Jónsdóttir heimilislæknir fyrir framan, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir hjartalæknir, Gunnar Thorarensen svæfinga- og gjörgæslulæknir, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir ritstjóri og innkirtlalæknir, Magnús Haraldsson geðlæknir, Berglind Jónsdóttir barnalæknir, Hulda María Einarsdóttir skurðlæknir og Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi.
Á myndina vantar Ólaf Árna Sveinsson taugalækni. Mynd/Ingvar Freyr Ingvarsson

„Við sem stundum vísindi finnum þó að COVID-álagið hefur víða komið niður á vísindastarfinu, sérstaklega hjá ungum læknum. Það er því mikilvægt að læknar haldi nú vel á spöðunum og slái ekki slöku við.“

Ritstjórn Læknablaðsins hittist á vinnufundi nú í septembermánuði. Farið var yfir verklag og vinnslu blaðsins. „Við erum ánægð að sjá hvað læknar eru tilbúnir að tjá sig við blaðið. Það er frábært. Ég tel mikilvægt að við fylgjum fréttum af því sem er að gerast í kringum lækna þá og þá stund. Það er gaman að sjá það verða að veruleika í blaðinu,“ segir Helga.

Átta læknar sitja nú í ritstjórn. „Hópurinn er fjölbreyttur, nær vel saman og reynslan innan hans af ritstjórnarstörfum fyrir Læknablaðið mislöng. Það blása því ferskir vindar í bland við trausta þekkingu á kjarnastarfsemi blaðsins. Þetta er samstillt ritstjórn.“

Helga Ágústa segir að breytingar hafi verið ákveðnar á fundinum. „Þær munu birtast lesendum og ég hlakka til að heyra og sjá viðbrögð lækna við þeim.“


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica