10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Formaður LÍ segir átakavetur framundan

„Við búum okkur undir átakavetur,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, en stjórnin fundaði um miðjan mánuðinn á Hreðavatni. „Tilgangurinn var að fara yfir stefnuna og setja aðgerðaráætlun. Það var mikill samhljómur í hópnum,“ segir hún en aðgerðirnar framundan verða kynntar á aðalfundi félagsins þann 14. október.

Stjórn Læknafélags Íslands fyrir framan nýjan bústað Orlofssjóðs vð Hreðavatn þar sem vinnufundurinn var haldinn. Frá vinstri: Oddur Steinarsson (FÍH), Ragnar Freyr Ingvarsson (LR), Steinunn Þórðardóttir formaður, Sólveig Bjarnadóttir (FAL), Magdalena Ásgeirsdóttir (SFL) , Þórdís Þorkelsdóttir (FAL), Margrét Ólafía Tómasdóttir (FÍH) og Theódór Skúli Sigurðsson (SFL). Mynd/Dögg Pálsdóttir

Kurr er í læknum. „Kjarasamningarnir eru lausir í lok mars. Við sjáum, eins og flestir, fram á gríðarleg átök á vinnumarkaðnum. Okkur finnst mikilvægt að læknar sitji ekki eftir varðandi kjör. Þeir hafa verið að dragast aftur úr undanfarin ár,“ segir hún. Margt sé undir í þessum samningum.

„Ekki aðeins kjörin heldur einnig framtíðarmönnun heilbrigðiskerfisins. Við verðum að ná samningum svo fólk geti hugsað sér að vinna hér á landi. Við upplifum að það sé undir. Þessir samningar snúast því um framtíðarheilbrigðisstefnu landsins og hvort okkur tekst að standa undir fyrsta flokks þjónustu.“

Steinunn segir ástandið ískyggilegt. „Það er því afar mikilvægt að við læknar stöndum sameinuð sem stétt. Það er númer 1, 2, og 3,“ segir hún. „Á þessum fundi stöppuðum við stálinu hvert í annað.“


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica