09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Ostagubb í súkkulaðisælu. Eyrún Baldursdóttir

Það var um mitt sumarfrí og ég var stödd með fjölskylduna á himneskum stað. Súkkulaðisafni í Sviss þar sem saga súkkulaðigerðar er sögð á skapandi hátt á sama tíma og bragðlaukarnir fara í heildrænan nautnaleiðangur. Planið var svo að fara í ostasafn í sama bæ strax á eftir.

Pistlahöfundur í dagsins önn. Myndina tók Jóhanna Guðmunda Þórisdóttir.

Okkur safngestum var hleypt í 20 manna hollum inn í fordyri – upphaf þessa mergjaða ævintýris. Ég var varla búin að venjast afnámi fjöldatakmarkana og fjarlægðarreglna eftir COVID – innra með mér ennþá svolítið vör um mig. Við fengum afhent heyrnartól þar sem ómaði rödd sem sagði okkur frá undrum súkkulaðisögunnar og fór yfir reglurnar – það mátti til dæmis ekki fara út um lokaðar dyr hvers rýmis fyrr en boð fékkst um slíkt.

Mér varð litið á einn ungan mann með bakpoka. Hann var ekki alveg hress. Virtist vera að æla upp í sig. Hélt fyrir munninn og liðaðist um. Ég rétt náði að toga börnin frá þegar gusan kom. Af útliti uppsölunnar að dæma virtist hann hafa farið fyrst í ostasafnið áður en hann kom hingað. Starfsfólk kom til hans. Hann fékk vatnsglas og fór afsíðis. „I am fine,“ heyrði ég hann segja. „My wife had this yesterday“.

Á meðan gumsið lak niður af veggnum á gólfið sagði röddin í heyrnatólunum okkur að halda áfram. Við fórum inn í lyftu og komum út í rými sem var snilldarlega innréttað eins og fornt suðuramerískt hof. Leikmunir færðust til eins og fyrir töfra og röddin í tækjunum sagði okkur að kakóbaunin hefði verið uppgötvuð í Mexíkó og talin komin frá guðunum. Á sama tíma sé ég að ungi maðurinn er kominn aftur í hópinn. Andlit hans, sem var náfölt fyrir nokkrum mínútum, hefur nú endurheimt ljóma sinn og hann er greinilega spenntur fyrir því sem fyrir augu ber. Hann virðist ætla að klára túrinn í gegnum safnið. Vá, flott hjá honum.

Við förum yfir í næsta sal. Þar er farið yfir hvernig kakódrykkurinn sló í gegn í Evrópu. Var reyndar talinn hættulegur fyrir hvað hann var góður, bannaður af kirkjunni. Notaður sem frygðarlyf. Ég sé varla né heyri það sem er í gangi – er of upptekin við að hámarka fjarlægðina milli fjölskyldu minnar og þessa manns sem mögulega er með nóróvírus. Ég vil ekki fá nóró í sumarfríinu. Já, og svo fann einhver upp á því að blanda mjólk saman við kakódrykkinn. Úff mér er óglatt af þessu tali.

Röddin í heyrnartólunum fyrirskipar að við förum yfir í enn annan sal. Þar liggja frammi hnetur, möndlur, súkkulaðiflögur. Allt frumlega fléttað inn í fræðslumola um hvernig kakóbaunin er ræktuð í dag í Vestur-Afríku. Allir mega taka og smakka. Setja hendurnar á bólakaf í kakónibburnar til að finna þá einu réttu. Mig langar að hrópa: Where is the handsanitizer? Ungi maðurinn grefur eftir hnetu og ég fylgi honum eftir með augunum. Áður en ég næ að stoppa dóttur mína hefur hún nælt sér í möndlu. „Þið smakkið ekkert hér inni,“ hvæsi ég á börnin. ,,Snertið ekkert!“ Kannski hrópa ég þessi orð því það er hávært en glaðlegt flautulag í eyrunum á mér. Börnin hrökkva við og ég held fleiri gestir líka. Mig langar að rífa upp hurðina til að komast út úr þessu smitrými gubbupestar. Hvar er Covid-gallinn þegar ég þarfnast hans?

Við höldum áfram og heyrum í heyrnartólunum hvernig súkkulaðið kom til Sviss og hvernig frægur Svisslendingur byggði upp veldi. Sjáum lítinn súkkulaðifoss. Súkkulaðigerðarmann skera út súkkulaðibangsa. Vél pakka inn súkkulaðimolum í öllum regnbogans litum. Mér er óglatt. Okkur er öllum boðið að borða eins mikið súkkulaði og við getum. Ungi maðurinn hefur sjálfur endurheimt lystina og fær sér alls þrjá mola. Allur greinilega að hressast. Það er gott. Börnin mín fylla lófa og vasa af súkkulaðimolum. Ég sjálf held að ég muni aldrei geta borðað súkkulaði aftur. Svo er ferðinni heitið á ostasafnið.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica