0708. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Dagur í lífi innkirtlalæknis barna. Soffía G. Jónasdóttir

7:30 Síminn hringir, snooze x 2, skelli mér fram úr, kötturinn stendur við svefnherbergisdyrnar og sýnir mér með ákveðnu augnaráði að hann þurfi mat. Geri tvöfaldan espressó og tek með mér í sturtu, er svo óheppin að vera í gipsi á annarri hendinni og hárþvottur og greiðsla er vægast sagt erfið þessa dagana – lít út eins og lukkutröll.

Unglingarnir vaknaðir og allir í sturtu – þvílík skynsemi að við settum fjögur baðherbergi í húsið.

Soffía í vinnunni, – út um gluggann gefur að líta Árbæinn og stærsta skóg á landinu,
höfuðborgarskóginn, og svo gömlu góðu Esjuna sem er alltaf jafn sjúkleg. Myndina tók Birna Guðbjartsdóttir.

Skutla prinsunum á fimleikaæfingu og bruna í Urðarhvarf – þar höfum við Domus-barnalæknar komið okkur fyrir – frábært að losna við umferðina niður á Barnaspítalann suma daga vikunnar. Það er þó fyndið hvað við getum kvartað yfir þessari umferð og ég ekki undanskilin, þar sem ég vann áður í Kaliforníu var ég alsæl ef ég komst í vinnuna á einum klukkutíma.

8:30 Fyrsti sjúklingurinn er mættur –
7 ára pólskur drengur, hefur alltaf verið feiminn að tala íslensku en er ræðinn í dag – segist ætla að vera alltaf í 1. bekk því það sé svo gaman – renna nú á hann tvær grímur þegar ég segi honum að á hverju ári hækki hann um bekk og endi í 10. bekk. „Verð ég þá gamall maður?“ Næsti mætir alltaf með spýtu eða prik í heimsókn til mín, fer sjálfur á viktina en við tölum alltaf um að mæla hvað börnin eru sterk og dugleg, en ekki þung eða létt. Í dag áttu ansi mörg börn afmæli á næstu dögum og eitt þeirra, 7 ára stúlka, vildi fá lifandi ref í afmælisgjöf og annar vildi fara í „nördabúðina“ að velja afmælis-pakka. Sá þriðji skildi ekki af hverju ég væri ekki með skóhorn fyrst ég væri alltaf að segja krökkum að fara úr skónum til að mæla þau. Ein 9 ára spurði „Finnst þér gaman í vinnunni?“, „Er gaman að vera læknir? „Já ekki spurning, það er gaman að hitta skemmtilega krakka eins og þig og hjálpa þeim ef þau eru lasin J.“ Síðasti sjúklingur dagsins er lítil 14 mánaða stúlka með eyrnabólgu, en ansi vinnusöm inni á stofunni og sagði mamman að hún væri kölluð brashildur heima hjá sér.

Tuttugu og tveimur börnum seinna segi ég bless við litlu brashildi og tek símtöl.

10 börn á símalistanum – næ í flestalla foreldrana, ræðum niðurstöður, meðferð og næstu heimsóknir. Ræði við gríska mömmu sem blessar mig í þriðja hverju orði og mun hafa mig í bænum sínum. Notalegt að ræða við svona yndislega foreldra.

17:20 Loka tölvunni, er að verða alltof sein að skutla öðrum prinsinum á fótboltaleik, en næ með sérlega útsjónarsömum keyrsluhæfileikum. Leikurinn byrjar ekki fyrr en eftir klukkustund svo það er spurning hvort ég ætti að stökkva inn í ræktina eða fá mér Tokyo-sushi. Legg frá mér prjónana og bruna á leikinn. Mætt á hliðarlínuna – búin að vera soccer-mom samfellt í 25 ár, lifi mig mikið inn í leikinn og sparka jafnvel með. Leik lokið með sigri okkar megin enda lagði ég mig alla fram.

20:30 Komin heim, kvöldmatartími liðinn hjá hinum í fjölskyldunni en fótboltakappinn nýtir sér Gordon Ramsey hæfileika sína og vippar upp steik fyrir sig.

21:00 Skelli í þvottavél „the never ending story“, kveiki á sjónvarpinu – horfi á glæpaþriller, kveiki á ljóranum og fer yfir blóðprufuniðurstöður, skipulegg verkefni næsta dags og hver er að fara hvert og hver skutlar. Loksins eru allir farnir að sofa og ég nýt þess að sitja ein og klára sjónvarpsþáttinn þó ég muni nú ekkert hvað gerðist eftir að þátturinn er búinn.

00:15 Ætla alltaf að fara fyrr að sofa en …

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica