06. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Dagur í lífi svæfingalæknisins Þórodds Ingvarssonar á Læknastofum Akureyrar
01:00 Bíb, bíb, bíb, bíb. Ohh, hvað er þetta? Sný mér á koddanum, kíki á símann, dexcom follow appið er með viðvörun, hár blóðsykur. Nokkuð dæmigert miðað við tíma sólarhrings, stundum rýkur blóðsykurinn upp hjá börnunum eftir að þau eru sofnuð, stundum ekki. Annað af tveimur er með háan blóðsykur og fær bónus af insúlíni. Athuga blóðsykurinn hjá hinum sykursýkiseinstaklingi heimilisins, hann er fullkominn og örin beint fram. Legg mig og fljótur að sofna aftur. Mikilvægur eiginleiki svæfingalæknis að vera fljótur að vakna og fljótur að sofna, algjört lykilatriði.
03:00 Bíb, bíb, bíb, bíb. Ohh, hvað nú? Dexcom follow sendir viðvörun, lágur blóðsykur. Fer á fætur. Þröngva nokkrum þrúgusykurtöflum upp í hálf sofandi barn, bíð þar til ég sé að þeim er skilað niður í maga, stoppa basal insúlíngjöfina í 1 klst. Þetta virðist duga, blóðsykur hættur að lækka og er á leið upp. Þvílík himnasending sem þessir blóðsykursíritar eru. Legg mig aftur.
06:30 Vekjaraklukkan hringir. Kaffi og ræs á liðið. Bíddu var það ekki í dag sem ég ætlaði að byrja nýtt líf? Hugleiða á hverjum morgni, æfa á morgnana, borða hollt, bara borða ketó eða vegan eða ketóvegan. Jú, það var eitthvað sem hljómaði sem góð hugmynd í gær. Kaffi, annar kaffi. Allir vaknaðir og komnir í gang.
07:15 fer af stað niður á Glerártorg á Akureyri í vinnuna. Þar eru Læknastofur Akureyrar til húsa. Fjölbreytt starfsemi, móttaka, speglanir og tvær skurðstofur. Æða-, almennar, þvagfæra-, bæklunar-, HNE-skurðlækningar og svæfingar fyrir tannlækna.
07:30 Mættur. Er ekki fyrstur á staðinn, Valur þvagfæraskurðlæknir er mættur. Hvenær mætir hann eiginlega í vinnuna (???) og svo hjólar hann allt líka, óþolandi, pottþétt búinn með Wim-Hof-öndunaræfingar eða jóga í morgunsárið.
Skipti um föt, ræsi öndunarvélina, tek til öll lyf og búnað fyrir daginn, keyri vélina í gegnum „full test“, athuga stöðuna á súrefninu. Hér er ég einn svæfingalæknir, enginn svæfingahjúkrunarfræðingur í teyminu, en verð umkringdur kröftugu og jákvæðu starfsfólki innan skamms. Þetta er töluvert öðruvísi vinnustaður en hinn vinnustaðurinn minn, Sjúkrahúsið á Akureyri. Mjög góð blanda að geta unnið á báðum stöðum.
08:00 Tannlæknirinn mættur og fyrsti sjúklingur dagsins tekinn inn kl. 8:00.
Á myndinni eru Ingvar, Sigurður Rúnar Sæmundsson sérfræðingur í barnatannlækningum frá Hlýju tannlæknastofu og Nanna Hákonardóttir aðstoðarkona tannlæknis.
08:00-12:00 Hitti þrjú börn á aldrinum 2-5 ára. Þau eru samtals með líklega um 20 skemmdir. Hitti þrjá skömmustulega foreldra. Tannskemmdir í börnum eru vandræðalegar. En hverju er um að kenna, spyr ég tannlækninn? „Jú - vanrækslu og foreldrum sem spyrja barnið hvort það vilji bursta tennurnar og svo glerungsgöllum sem virðast vera hratt vaxandi vandamál og enginn veit af hverju. Og svo foreldrum sem nota ekki tannþráð hjá börnunum sínum!“ Úpps, tannþráð hjá börnum! Vissi ekki að þess þyrfti, hugsa ég. „Agalegt þetta með foreldra sem nota ekki reglulega tannþráð hjá börnunum sínum,“ segi ég með hneykslan í röddinni.
11:00 „Bíddu, er ekkert af börnunum búið að fara að grenja í dag, hvorki fyrir né eftir? Mikið gengur þetta vel,“ segi ég. Ætli það sé búið að rannsaka hvort það séu minni grenjur eftir TIVA miðað við svæfingu með gösum? Ég ætla að gera allt „evidence based“ í vinnunni minni, hugsa ég. En um leið og ég er búinn að sleppa orðinu, heyrist hátt grenj af vöknun. Einhver að vakna og er ekki í góðu skapi. Ohh, hefði betur sleppt að segja þetta upphátt. Aldrei að fagna of snemma.
12:30 Erum aðeins á eftir áætlun, þarf að geta byrjað að vekja síðasta sjúklinginn í síðasta lagi kl. 15:00 svo hann sé farinn heim fyrir kl. 16 svo að dagsplanið gangi upp. Sleppum mat, tek bara kaffi með mér inn á stofuna. Næsti sem ég hitti er aðeins eldri og með einhverfu. Það er mjög mismunandi hversu mikið fólk langar að láta stinga sig með nál, vinur minn hristir ákveðið hausinn og setur upp svip sem fer ekki framhjá neinum þegar minnst er á nál. Hann er stór og stæðilegur og ég myndi verða undir ef við færum að glíma. Sé að við eigum kannski eitt sameiginlegt áhugamál. „Hvaða ís finnst þér bestur?“ spyr ég. Færist bros yfir minn mann. Ég held áfram. „Mér finnst súkkulaðiís bestur. Þú verður að fá þér stóran ís þegar þú ert búinn hjá tannlækninum.“ Á meðan við ræðum um ístegundir er hjúkrunarfræðingurinn á stofunni búin að setja stasa og smella inn nál. Gefum innleiðingarlyf á meðan við tveir sjáum fyrir okkur þann stærsta súkkulaðiís sem gerður hefur verið.
16:00 Dagurinn gekk upp og allir á leið heim. Sest við tölvu og fyrirtækið mitt sendir reikning á Sjúkratryggingar Íslands fyrir svæfingum dagsins. Tek saman hvert byrjað korter með sjúkling í svæfingu, urðu samtals 28 korter. SÍ borgar fyrirtækinu strax daginn eftir, sem borgar Læknastofunum aðstöðugjöld um næstu mánaðamót. Fyrirtækið mitt borgar svo annað slagið eitthvað fyrir mig eða borgar mér laun í lok mánaðarins, það er dýrt að hafa starfsmann, tryggingagjald, tryggingar og fleira.
16:00-18:00 Heim, skutla krökkunum á æfingar. Fylgist með blóðsykri þeirra á æfingunum, hann á það til að sveiflast hratt upp og niður í boltanum. Undirbúum kvöldmat og ræðum daginn, ég og konan mín. Erum enn svolítið norsk/sænsk og viljum hafa kvöldmat helst fyrir kl. 18.
Eftir 18:00 Krakkarnir, heimalestur, undirbúa morgundaginn. Mikið agalega er ég þreyttur. Ég byrja nýtt líf á morgun, æfi og hugleiði á hverjum degi. Ætla að fylgjast með twitter, lesa bækur, lesa greinar, læra meira um hjartaómun, fara á kaffihús með vinum, verða betri að . . . hrotur.
Bíb, bíb, bíb ...