06. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

„Vil sjá fleiri velja þessa sérgrein“ - segir Unnur Steina Björnsdóttir astma- og ofnæmislæknis

Unnur Steina Björnsdóttir er astma- og ofnæmislæknir, klínískur ónæmisfræðingur og forstöðulæknir fyrir sérhæfða astmamóttöku (SAM) á deild A3 á Landspítala í Fossvogi og rekur stofu í Læknasetrinu í Mjódd

Ofnæmis-, astma- og ónæmissjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma á Vesturlöndum. Unnur Steina segir að bylting hafi orðið í meðferð sjúklinganna. „Þetta eru gríðarlegir spennandi tímar í læknavísindunum og okkur óraði ekki fyrir þessum möguleikum fyrir nokkrum árum. Skilningur á ónæmisfræði sem liggur að baki tilurð þessara lyfja hefur gert það að verkum að mjög sérhæfð meðferð hefur orðið til sem beinist að tilteknum skotmörkum í ónæmisferlinu.“ Mikil gleði fylgi starfinu þar sem sjúklingarnir segist hafa fengið nýtt líf.


„Aðstæður hér eru erfiðar. Samningsleysi sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands hefur takmarkað aðgang lækna sem hafa lokið sérnámi að komast á samning,“ segir Unnur Steina Björnsdóttir. Mynd/Olga Björt

Um 300 manns eru í líftæknimeðferð við astma núna og ástríðan skín úr augum Unnar Steinu þegar hún útskýrir hvernig hægt er að meðhöndla vel sjúkdóma með því að þekkja ónæmisfræðina á bakvið astmann. „Það líkist stundum kraftaverki að upplifa árangur þessarar meðferðar, eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei upplifa því þetta var framtíðarlæknisfræði. Núna höfum við skilning á öllum ónæmisfræðiþáttum í helstu sjúkdómum og líftæknimeðferð við flestum þeirra sem slökkva á þeim og fólk fær algjörlega nýtt líf.“ Í stað þess að nota til dæmis stera sem hafa áhrif á öll helstu líffæri en einnig aukaverkanir sé líftæknimeðferð eins og leyniskytta sem staðsetur það viðtæki sem sé gallað hjá sjúklingnum og tekur það út. Auk þess eru aukaverkanir nánast óþekktar. „Það eru forréttindi að fá að stunda læknisfræði í dag. Sjúklingarnir eru svo þakklátir og flestir fá verulegan bata eða læknast. Hins vegar er þessi meðferð aðeins ætluð sem viðbótarmeðferð fyrir þá sem eru í fullri lyfjameðferð við astma en eru engu að síður með slæm einkenni. Gallinn er að þessi lyf eru dýr.“

Miklar framfarir hafa átt sér stað fyrir sjúklinga með slæmt frjónæmi. Afnæmis-meðferð er ævagömul meðferð. En ný meðferð með töflum breytir svörun ónæmiskerfisins á þann hátt að grasofnæmi og birkiofnæmi getur læknast eða lagast. „Með einni töflu á dag í þrjú og hálft ár myndast þol við ofnæmis-vakanum. Hjá sjúklingum með bresti í ónæmiskerfi er möguleiki að bæta líf þeirra og fækka sýkingum með mótefnagjöf í æð eða með heimadælu.“

Fékk starf og eiginmann í sama viðtalinu

Unnur Steina fór til náms í lyflækningum til Bandaríkjanna, til Madison Wisconsin. „Þar ætlaði ég annaðhvort í lungnalækningar (Steinn Jónsson smitaði mig af áhuganum!) eða smitsjúkdóma (Sigurður Guðmundsson hvatti mig). Á öðru ári hlustaði ég á prófessor William Busse halda erindi um ónæmisfræði og astma og ég fékk bókstaflega vitrun!“ Busse er eitt stærsta nafnið í heiminum í astmafræðum og hefur birt yfir 800 ritrýndar greinar og var einn af upphafsmönnum líftæknimeðferðar. „Hann varð lærifaðir minn. Busse var áhugamaður bæði um hvernig rhinovirus veldur astma-versnun en ekki síður hvaða hlutverki eosinophilar hafa að gegna í astma og þaðan kemur þessi áhugi minn á T2 bólgu.“

„Eftir þrjú ár í lyflækningum í fór ég í mörg viðtöl til að komast í undirsérgreinina: astma-, ofnæmis- og ónæmisfræði. Það má segja að ég hafi fengið starf og eiginmann í sama viðtalinu, því þarna kynntist ég eiginmanni mínum, Kristni Hauki Skarphéðinssyni dýravistfræðingi. Mjög praktískt!“

Þegar hún kom heim var engin staða astma- eða ofnæmislæknis laus. „Með hjálp Þorsteins Blöndal lungnalæknis og Davíðs Gíslasonar ofnæmislæknis fékk ég stöðu aðstoðaryfirlæknis berkla á Heilsuverndarstöðinni og hóf stofurekstur í Læknasetrinu. “

Samheldinn hópur opnar miðstöð á Höfða

„Samhliða starfi mínu sem forstöðulæknis Astmamótttökunnar á Landspítala hyggjumst við nokkur stofna astma- og ofnæmismiðstöð á Höfða þar sem saman koma nokkrir úr minni sérgrein en einnig aðrar greinar sem tengjast okkur eins og húðlæknar og vonandi lungnalæknar og þangað geta heimilislæknar geta vísað sjúklingum.“

Á Íslandi eru 18 ofnæmis- og ónæmisfræðinga. Unnur Steina segir mikla vináttu og gleði ríkja hjá þeim. „Það er heiður að fá að tilheyra þessum góða hópi lækna. Við erum meira að segja með Félag íslenskra ofnæmisfræðinga í hestamennsku!“

Algengustu sjúkdómar sem Unnur Steina og kollegar hennar sjá eru frjónæmi, dýraofnæmi, mygluofnæmi, rykmauraofnæmi og einnig fæðuofnæmi og lyfjaofnæmi. „Auk þess eru margir með bæði ofnæmistengdan astma og fullorðinsastma. Þeir eru oft með ýmsa fylgisjúkdóma eins og sepa í afholum nefs, bakflæði, offitu, kæfisvefn og oföndun sem þarf að greina og taka á.“ Fleiri sjúkdómar eru þina og ofsabjúgur. Unnur Steina nefnir einnig dæmi um arfgengan ofsabjúg sem geti verið bæði erfiður og lífshættulegur, en hann einkennist af gríðarlegum bjúg í andliti auk kviðverkja vegna bólgu í görnum. Rétt greining leiðir til meðferðar með sértækum líftæknilyfjum og geti bætt lífsgæði. „Það bætast stöðugt nýir sjúkdómar við sérgreinina og dæmi um það er rauðkirningsvélindabólga sem lýsir sér með kyngingarörðugleikum. Ekki má gleyma bráðaofnæmiskasti sem er lífshættulegur sjúkdómur.“

Fyrirsjáanlegur er gríðarlegur mönnunarvandi í þessu fagi og aðeins örfáir erlendis að tileinka sér fræðin. „Það sem gerir sérgreinina sérstaklega áhugaverða er að nú þekkjum við bólguboðleiðirnar sem liggja að baki æ fleiri sjúkdómum og skiljum hvernig lyf gegn þeim virka.“ Hægt er að læra ofnæmis- og ónæmisfræði vestanhafs og austan. Grunnurinn er alltaf annaðhvort lyflækningar eða barnalækningar og svo sérnám í tvö til þrjú ár. Lögð er áhersla á alla þrjá þættina í náminu: astma-, ofnæmis- og ónæmisfræði.

Húðpróf, blóðrannsóknir og öndunarmælingar

Flestir ofnæmislæknar eru einnig sérfræðingar í ónæmisfræði eða klínískri ónæmisfræði og sérhæfa sig í ýmsum ónæmissjúkdómum en þó sérstaklega ónæmisbresti eins og sértækum mótefnaskorti. „Til þess að greina þessa sjúkdóma gerum við húðpróf eða blóðrannsóknir og niðurstöðurnar eru bæði sértækar og næmar. Hægt er að spá fyrir um þá með yfir 95% vissu. Spennandi nýjung í fæðuofnæmi er að nú er að hægt að sundurgreina molecular componenta með sértækri blóðrannsókn til þess að aðgreina hvort um lífshættulegt fæðuofnæmi sé að ræða eða ekki. Þetta á við um bæði jarðhnetu- og heslihnetuofnæmi. Varðandi astma eru ýmis tæki notuð eins og öndunarmælingar og mælingar á bólgu í öndunarfærum (FeNO) en þannig er bæði hægt að meta bólgu og fylgjast með meðferðarárangri. Ónæmisbrestir eru greindir með flóknum blóðrannóknum.“

„Kennslan hefur veitt mér gríðarlegan innblástur. Ég var yfirlæknir við ofnæmisdeild Landspítala og dósent við læknadeild. Stór hluti af starfinu eru fyrirlestrar á þingum og ráðstefnum. Þannig hef ég fengið að ferðast um allan heim og kynnst helstu sérfræðingum í minni grein.“

Raki, mygla og hreinsiefni

Umræða hefur verið um raka og myglu, og veikindi fólks vegna raka og myglu í skólum og á vinnustöðum þar sem viðhaldi hafi ekki verið sinnt, sérstaklega á vegum hins opinbera. Unnur Steina segir að vandinn við mygluóþol sé að innan við 5% séu með mygluofnæmi sem getur valdið slæmum astma og ofnæmi, en langflestir séu með önnur einkenni sem erfitt er að skilgreina. „Rakinn veldur jafn miklum skaða og myglan, þar sem raki í byggingarefnum losar rokgjörn efni. Aðeins um 20% finna fyrir þessu en hin 80% finna ekki fyrir neinu og skýrir kannski skilningsleysi á vandanum. Mikilvægt er að við læknar hlustum á sjúklingana og tökum einkennin alvarlega.“

Nýjar rannsóknir sýna skaðsemi hreingerningarefna og aukaefna sem bætt er í matvæli til að auka samloðunarhæfni þeirra. Unnur Steina segir að margt bendi til þess að hreinsiefni hafi áhrif á ofnæmismyndun og hafi bein áhrif á yfirborðsþekju í nefi, berkju, meltingarvegi og húð. „.Ef til vill er aukin notkun þessara efna ein af skýringum þess að astma- og ofnæmistilfellum fer fjölgandi.“

Staðan hér heima

„Aðstæður hér eru erfiðar. Samningsleysi sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands hefur takmarkað aðgang lækna sem hafa lokið sérnámi að komast á samning. Þetta hindrar nýliðun og hefur áhrif á innleiðingu nýrrar þekkingar. Nú ríður á að SÍ komi til móts við sérfræðilækna. Ekki hefur verið bætt nýjum læknisverkum í samninga lengi og laun sérfræðilækna hafa ekki fylgt launavísitölu. Þetta er ekki aðlaðandi umhverfi til að snúa heim til eftir langt og strangt nám. Það eru margir hérlendir sérfræðingar að gefast upp og fara út aftur. Bætt aðstaða og kjör sjálfstætt starfandi lækna myndu fjölga læknum. Töluverð umræða hefur verið um að flytja af bráðasjúkrahúsinu verk sem hægt er að vinna annars staðar þannig að spítalinn geti einbeitt sér að því sem hann þarf að sinna og gerir vel. Heilbrigðisráðherra hefur sýnt þessu áhuga.“

„Eins og staðan er núna er meðalaldur okkar orðinn hár og mjög fáir í námi. Við vitum um einn í fullorðinsofnæmis- og ónæmislækningum í Svíþjóð og ég held tveir í barnalækningum.“

Læknanemar kynnast astma- og ofnæmislækningum á göngudeild í Fossvogi og á ónæmisfræðideild Landspítala. „Þetta eru virkar deildir með starfandi aðstoðar- og deildarlæknum. En ef upp koma mönnunarvandamál annars staðar er þeim kippt héðan. Ég hef á stofunni minni haft læknanema en það þyrfti að auka samstarf stofulækna og Háskóla Íslands. Deildarlæknar í lyflæknaprógramminu fara á mis við að sjá þann fjölbreytileika sem við sjáum á stofunum okkar. Oft gríðarlega sjaldgæfa og flókna sjúkdóma.“

Spennandi og gefandi fræðigrein

Unnur Steina hvetur unglækna til þess að kynna sér sérgreinina og nefnir sérstaklega fjölbreytni starfsins og sveigjanlegan vinnutíma auk tækifæra til rannsóknarvinnu. „Ég var innanbúðar í rannsóknum hjá Íslenskri erfðagreiningu í tvö ár. Við höfum birt gríðarlega mikið um erfðafræði astma og vorum fyrst til að finna astmagenin í gegnum eosinophila.“

Unnur Steina brennur fyrir starf sitt. „Þess eru mörg dæmi að læknar komnir á aldur eru enn á fullu og vilja ekki hætta að lifa og hrærast í þessum fræðum. Það sem við eigum sameiginlegt er vita að það að vera góður læknir er að hlusta á sjúklingana og hafa ástríðu fyrir því að skilja og viðurkenna vandann sem þeir standa frammi fyrir,“ segir hún að lokum.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica