06. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Mikið álag, undirmönnun og vaktabinding á landsbyggðinni, - Steinunn Þórðardóttir hitti lækna þar

Fulltrúar frá Læknafélagi Íslands fóru nýlega í hringferð um landið. Tilgangur ferðarinnar var að kortleggja mönnunarvanda á landsbyggðinni og að kanna hvaða kjaramál brenna á læknum utan höfuðborgarinnar vegna komandi kjarasamninga

„Við stoppuðum á alls 16 stöðum, bæði stórum og smáum, hringinn í kringum landið, skoðuðum heilbrigðisstofnanir og ræddum við læknana á hverjum stað,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, sem fór í ferðina ásamt framkvæmdastjóra félagsins, Dögg Pálsdóttur. „Þá fannst okkur að við sem félag yrðum líka að leggja okkar af mörkum við að kortleggja mönnunarvandann. Til þess að skilja vandann betur á landsbyggðinni og átta okkur á því hvaða aðgerða er þörf fannst okkur mikilvægt að fara þessa ferð og tala beint við lækna utan höfuðborgarinnar,” segir Steinunn og heldur áfram.

Hjónin Sigurgeir Már Jensson læknir í Vík í Mýrdal og Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður ásamt Steinunni Þórðardóttur formanni LÍ á yfirreið hennar um landið í vetrarveðrinu um miðjan maí. Myndin er tekin fyrir utan heilsugæsluna í Vík og Reynisdrangar fengu að vera með. Mynd/Dögg Pálsdóttir

„Það er náttúrulega mönnunarvandi mjög víða og í mörgum af þeim héruðum sem við heimsóttum eru læknar að komast á aldur. Sumir þeirra hafa verið mjög lengi á sama staðnum. Það stefnir því hratt í það að ákveðin byggðarlög verði læknislaus innan fárra ára ef ekkert verður að gert. Þetta er staðreynd sem hefur ekki farið hátt í samfélaginu og við erum svolítið hissa á því. Af hverju eru sveitarfélög ekki að þrýsta meira á að læknisþjónusta sé tryggð á þeirra svæðum? Heilbrigðisþjónusta er jú eitthvað sem er mjög ofarlega á lista þegar fólk er að velja sér stað til búsetu.”

Á vakt allan sólarhringinn

Aðeins var stoppað á stöðum með fasta lækna. Var það meðvituð ákvörðun vegna tímaleysis. Þjónusta verktakalækna sé að sjálfsögðu líka mikilvæg, en við þá verður rætt síðar. Einnig verður á næstunni farið til Vestfjarða, Vestmannaeyja, Akraness, Borgarness og Suðurnesja auk þess sem fundað verður með læknum á höfuðborgarsvæðinu. „Við heyrðum það hjá flestum læknunum úti á landi að þeim líður þar mjög vel og eru mjög ánægðir með störf sín og starfsumhverfi þó greinilegt sé að álag sé víða allt of mikið. Þetta virðist því meira spurning um það hvernig við löðum lækna á staðina, jafnvel með einhverjum nýjum ráðum. Það kom til dæmis til tals hvort eitthvað væri hægt að styðja lækna varðandi íbúðarhúsnæði og kannski koma á einhvers konar ívilnunum, skuldbindi læknar sig til búsetu í tiltekinn tíma. Í stórum héruðum eru oft fáir læknar þannig það er gríðarleg vaktabinding á hvern lækni. Sums staðar er bara einn læknir á staðnum, sem er þá alltaf á vakt allan sólarhringinn, jafnvel svo dögum og vikum skiptir. Í komandi kjarasamningum þarf að horfa til þess að launa þessa miklu bindingu sérstaklega, að það komi eitthvað álag þegar bindingin er orðin ákveðið mikil.“

Þá segir Steinunn að þær hafi upplifað töluverðan mun á milli minni og stærri staða. Á stóru stöðunum hafi hreinræktaður mönnunarvandi verið afar áberandi. „Það er gríðarlegt álag á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum, læknarnir þar eru bara mjög undirmannaðir. Þar vantar fjármagn og þar var meiri örmögnun, heldur en hjá læknunum í minni héruðunum. Til dæmis á Heilsugæslunni á Akureyri, þar þyrfti að tvöfalda læknahópinn. Sama er að segja um Heilsugæsluna á Selfossi. Þar hefur orðið gríðarleg íbúafjölgun og mikil fjölgun ferðamanna, auk stórra orlofshúsasvæða, en læknunum hefur ekki fjölgað í takt við þessa aukningu.” Aðspurð hvort fjarheilbrigðisþjónusta geti ekki leyst einhvern vanda segir Steinunn svo eflaust vera, það er að segja ef það væru til læknar sem gætu bætt fjarþjónustu á sig.

Ferðin var mjög fróðleg, gagnleg og góð og þær stöllur komu til baka með mikið af góðum hugmyndum. „Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem stéttarfélag að hitta fólkið okkar þar sem það starfar. Enda mætti framtakið mikilli ánægju meðal félagsmanna sem við hittum. Líklega verða ferðir af þessu tagi framvegis fastur liður í starfi félagsins.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica