05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Uppfærður gagnagrunnur um faraldsfræði krabbameina á Norðurlöndunum – NORDCAN 2.0

Vefslóð: https://nordcan.iarc.fr/en

Norrænu krabbameinsskrárnar hefa lengi unnið náið saman í Samtökum norrænna krabbameinsskráa (Association of Nordic Cancer Registries, ANCR; www.ancr.nu/). Árið 2002 kom út fyrsta útgáfa þeirra af NORDCAN sem er gagnagrunnur og forritapakki. Með honum varð bylting í aðgengi að upplýsingum um nýgengi, dánartíðni og aðra þætti tengda faraldsfræði krabbameina á Norðurlöndunum. NORDCAN varð aðgengilegur með netútgáfu árið 2007 og á síðasta ári var grunnurinn endurforritaður og viðmót uppfært og kallast útgáfan NORDCAN 2.0.

Norska krabbameinsskráin stýrir nú daglegum rekstri NORDCAN gagnagrunnsins en Danir höfðu sinnt honum frá upphafi, verkefnið er fjármagnað af Samtökum norrænna krabbameinsfélaga (Nordic Cancer Union) og Alþjóðakrabbameinssamtökin (IARC) sjá um forritun. Fyrir hönd Íslands sinnir Elínborg J. Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins gagnagrunninum.

Með NORDCAN 2.0 er notendum gert auðvelt að skoða nýgengi, algengi, dánartíðni og lífshorfur sjúklinga með krabbamein og gera samanburð milli landa (mynd 1) eða mismunandi krabbameina (mynd 2) á yfir 60 ára tímabili.

Einnig er hægt að skoða líkur á því hvert nýgengi og dánartíðni krabbameina verður í framtíðinni og skoða aldurssamsetningu þjóðanna.

Þegar línuritin eru gerð er unnt að jafna tilviljunarsveiflur með því að velja „Smoothing” undir „Options” og er sú aðferð notuð í meðfylgjandi myndum (LOESS regression algorithm (bandwidth: 0.2). Tilviljanasveiflur eru áberandi í íslenskum tölum vegna þess hve þýðið er lítið. Gagnagrunnurinn er mikið notaður af þeim sem vilja fá faraldsfræðilegar upplýsingar um krabbamein.

Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á uppfærslu gagnagrunnsins og minna á hversu mikilvægur hann er fyrir okkur á Íslandi. Með NORDCAN 2.0 gefst einstakt verkfæri til þess að fylgjast með þróun í faraldsfræði krabbameina, árangri meðferðar, nákvæmni skráningar og til þess að geta borið okkur saman við önnur lönd.


Mynd 1. Aldursstaðlað (norrænn staðall) nýgengi allra krabbameina í körlum á Norðurlöndunum á hverja 100.000 íbúa. Nýgengið hefur lækkað mest hjá íslenskum körlum síðastliðinn áratug sem skýrist meðal annars af lækkun nýgengis blöðruhálskirtils- og lungnakrabbameina.Mynd 2. Aldursstöðluð (norrænn staðall) dánartíðni valinna krabbameina í meltingarvegi kvenna á Íslandi á hverja 100.000 íbúa. Dánartíðni magakrabbameins hefur lækkað mikið vegna breytinga á mataræði og upprætingar á Helicobacter pylori. Dánartíðni ristil- og endaþarmskrabbameins hefur ekki breyst þrátt fyrir framþróun í meðferð og skýrist af aukningu í nýgengi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica