05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Fleiri 15-55 ára konur nota ADHD-lyf en karlar á sama aldri

Þetta kom fram í orðum landlæknis á Læknadögum. Margfaldur munur er á notkun hér á landi og á Norðurlöndunum. Landlæknir og framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá Heilsugæslunni benda á að rannsóknir skorti til að meta ástæður

„Okkur vantar rannsóknir til að geta skýrt þennan mun,“ sagði Alma D. Möller landlæknir á Læknadögum um þá staðreynd að konur á aldrinum 15-55 noti meira af ADHD-lyfjum en karlar. Hún sagði hins vegar ekki koma á óvart að notkunin sé meiri meðal drengja en stúlkna og sýndi tölur fyrir 5 og 10 ára börn.

Alma benti í erindi sínu á að notkun örvandi lyfja hafi aukist um tæp 49% frá árinu 2017. Ávísaðir skammtar hafi á sama tíma aukist um 56% og þeim fjölgi sem fái háa skammta hvern dag.

Guðlaug Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir vert að skoða magnið sem sumir fá ávísað. „Við höfum áhyggjur þegar við sjáum skammtastærðir umfram það sem mælt er með. Við sjáum dæmi um einstaklinga sem taka jafnvel 140 mg tvisvar sinnum á dag af Elvanse þar sem ráðlagður hámarksskammtur er 70 milligröm. Engar rannsóknir styðja slíka notkun. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu,“ segir hún.

Alma sagði á málþinginu notkun ADHD-lyfja hafa aukist 85% meira hér en í Svíþjóð á árunum 2016-2020, en Svíar stóðu þó landanum næst í notkun. Notkun karla hér sé 280% meiri en meðal sænskra karla. Meðal kvenna sé munurinn 310%. Alma sagði að rannsaka þyrfti þettatil að skýra málið en mikilvægt væri að allir sem þurfi meðferð fái hana. „Ég tek það fram að ég er ekki að dæma eitt eða neitt. Þetta eru tölurnar.“

Guðlaug tekur undir að rannsóknir skorti. „Við höfum ekki kortlagt hvort við greinum of marga eða of fáa. Heldur ekki hver gæði greininganna séu. En auðvitað hjálpa lyfin heilmikið,“ segir hún og bendir á að 1300 séu nú á biðlista eftir greiningu.

„Við sjáum veldisvöxt í greiningum á ADHD,“ segir hún. Lítið hafi verið um greiningar fullorðinna fyrir 20-30 árum. Aðgengi að geðlækningum sé mikill flöskuháls en þeir greini og ávísi fyrstu lyfjunum.

„Það er því gríðarleg ásókn á stofulæknana. Mikill meirihluti tilvísana til þeirra snýst orðið um ADHD. Það er mikil breyting frá því sem áður var,“ segir hún. Biðin eftir tíma geti varað í eitt til þrjú ár.

Landlæknir benti á að leiðbeiningar um vinnulag við greiningar og meðferð við ADHD hafi verið endurskoðaðar 2007, 2012 og 2014 og aftur núna 2022. „Það er mjög mikilvægt að endurskoða stöðugt verklag og endurmeta árangurinn,“ sagði hún.

Undir það tekur Guðlaug, sem fór einmitt yfir leiðbeiningarnar nýju fyrir fullorðna á málþinginu. Hún segir að við næstu endurskoðun megi skoða hvort ráð sé að heimilislæknar og taugalæknar fái þjálfun í ADHD-greiningum og lyfjagjöfum.

„Það væri ekki óeðlilegt. Barnalæknir getur gert þetta hjá börnunum og því mætti staðan vera sambærileg hjá fullorðnum.“ Heimilislæknar sinna nú þegar eftirfylgni. „Þeir hafa því þegar mikla reynslu og það væri eðlilegt að áhugasamir fengju formlega handleiðslu og þjálfun í greiningunum.“

Helmingur barna vaxi upp úr ADHD

Alls 12,1% barna fékk örvandi lyf í fyrra. Þetta kom fram í hjá landlækni á Læknadögum. Í máli Guðlaugar Þorsteinsdóttur geðlæknis á málþinginu kom fram að rannsóknir sýni að allt að helmingur barna vaxi upp úr greiningu sinni á fullorðinsárum. Því væri best að endurmat færi fram frá 18 ára aldri.

„Framheilinn þroskast. Mikið af hömlunum lagast því bæði af utanaðkomandi ástæðum og/eða vegna einhvers sem gert er.“ Í viðtali við Læknablaðið segir hún ekki kerfisbundið skimað eftir þessu en mælt sé með árlegu viðtali við þá sem séu á ADHD-lyfjum. Því sé mögulegt að bregðast við þegar ADHD hættir að hamla einstaklingnum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica