04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úkraína verður aldrei söm og sársaukinn ólýsanlegur, segir María Vygovska

„Ég er úrvinda,“ segir úkraínski sérnámslæknirinn María Vygovska. Hún hefur búið og starfað sem læknir hér á landi í rúm fjögur ár. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu tekur af henni hugarróna. Læknablaðið settist niður með Maríu og eiginmanni hennar, Sveini Rúnari Sigurðssyni lækni

Sveinn Rúnar og María kusu að hitta Læknablaðið á kaffihúsi því erillinn heima er nú meiri en þar, með foreldra, mágkonu, vinkonu mágkonunnar og börnin þeirra á heimilinu – flóttamenn stríðsreksturs Rússa í Úkraínu. Mynd/gag

„Ég hefði aldrei trúað því að Rússland myndi hefja allsherjarstríð gegn Úkraínu, þrátt fyrir hótanir og tilburði til að æsa landsmenn til þess að svara fyrir sig og þrátt fyrir ólöglega viðveru í landinu frá 2014,“ segir María Vygovska, sérnámslæknir í meinafræði á Landspítala.

„Ég sá fyrir mér að geta áfram farið tvisvar á ári heim til fjölskyldunnar með son okkar til að gefa honum tækifæri til að alast upp líkt og ég gerði, verja sumrinu í sumarhúsi foreldra minna á landsbyggðinni. Úkraína verður aldrei söm eftir þessa árás,“ segir María sem óttast um börnin og áhrif stríðsins á uppvöxt þeirra.

„Kannski munu þau yngstu gleyma en hin gera það aldrei.“ Hún lýsir því hvernig fjögurra ára frændi hennar, sem nú hleypur um stofuna heima hjá henni, óttast þyrlulæti og hvell hljóð. „Hann beygir sig við minnsta hvell og verður mjög hræddur, þrátt fyrir að hafa einungis upplifað einn dag af sprengjugný. Ég hugsa til þess með hryllingi hvernig komið er fyrir öðrum börnum sem enn búa við þessar aðstæður.“

María situr á móti blaðamanni á Te og kaffi í Borgartúni. Hún er ekki ein heldur með eiginmanni sínum, Sveini Rúnari Sigurðssyni lækni. Þau hafa ekki aðeins tekið á móti foreldrum hennar heldur einnig mágkonu, vinkonu mágkonunnar og börnum þeirra. Samtals 7. Stríðsflóttamönnum.

Milljónir eru á flótta af rúmlega 43 milljóna þjóð. Þau lýsa því að þjóðarmorð eigi sér nú stað í Úkraínu, ekki einungis í Mariupol þar sem 400.000 höfðu verið innlyksa án vatns og matar í 11 daga þegar viðtalið er tekið. „Ólýsanlegt,“ segja þau. Bróðir hennar, sem rak kaffihús í Kænugarði, varð eftir heima eins og svo margir karlmenn.

„Reksturinn hans er fyrir bí,“ segir hún. „En hann er nú í vesturhluta landsins og hjálpar þar til. Hann berst ekki og mér líður betur að vita af honum þar en í stríðsátökum.“

Heræfingar sýndu hvert stefndi

Þau lýsa því í skarkala kaffihússins hvernig þau sáu í upphafi árs í hvað stefndi. „Við vorum búin að hvetja þau öll til að koma eftir að heræfingar Rússa við landamærin hófust. Glugginn sem Oleg bróðir hennar hafði, lokaðist aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann ætlaði að fara,“ segir Sveinn.

Hann hefur verið áberandi í fjölmiðlum frá innrás Rússahers, en þau hjón reka tvö íslensk fyrirtæki með starfsstöðvar og starfsmenn á víð og dreif um Úkraínu, einkum tölvunarfræðinga.

Fyrir stríðið héldu þau lífi sínu fyrir sig. Nú segja þau mikilvægt að tala. „Það er gjarnan sagt að sannleikurinn sé það fyrsta sem deyr í stríði en hann hefur ekki verið aðgengilegur Rússum í stjórnartíð Pútíns,“ segir hann. Því sé mikilvægt að ræða og fræða, ekki síst til að minna Rússa á Íslandi á að miðla upplýsingum áfram til ættingja heima fyrir. „Sigur vinnst ekki nema Rússar taki sjálfir á þeim sem fara fyrir Kreml.“

Þau vilji líka koma fram því nauðsyn sé á samhæfðu viðbragði hins opinbera, fyrirtækja og einstaklinga. „Já, áður en algjört neyðarástand skapast. Nú koma um 30-40 konur og börn til Íslands á dag og því er útlit fyrir að þjóðinni fjölgi um 1% fyrir 17. júní,“ segir Sveinn Rúnar.

Þau lýsa miklum áhyggjum af því hvernig innviðir Úkraínu eru sprengdir upp. Hvernig fjölskyldur heillar þjóðar eru nú sundraðar um allan heim. „Það mun taka áratugi að reisa allt við,“ segja þau. „Sársaukinn er ólýsanlegur. Mörg ár, ef ekki áratugi, mun taka að græða sárin – ef það þá tekst nokkurn tímann.“

En hvað geta læknar gert í stöðunni sem nú er uppi? „Ástandið er þannig að ekki er hægt að hvetja til þess að læknar hætti sér inn á stríðssvæði þar sem heilbrigðisstofnanir, blaðamenn og almennir borgarar eru skotmörk,“ segir María og Sveinn segir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hafi sagt að aldrei í sögunni hafi jafn margar árásir verið gerðar á heilbrigðisstofnanir eins og í stríðinu nú.

„Það er nauðsynlegt að þjóðir heims standi með Úkraínu þegar stríðinu lýkur.“

Úkraína er einstök

Sveinn Rúnar kom fyrst til Úkraínu árið 2005, skömmu eftir appelsínugulu byltinguna, en hefur nú 17 árum síðar komið þangað oftar en 100 sinnum: „Það eru ekki mörg skúmaskot eftir í þessu risavaxna landi sem við höfum ekki sótt heim.“ Hún brosir. „Já, hann þekkir landið og sögu þess jafnvel og ég.“

Stórfjölskylda Maríu býr í Kænugarði og nágrenni, nálægt Zhytomyr-héraði. „Foreldrar mínir þrá ekkert heitar en að komast aftur heim,“ segir hún og að þau Svein dreymi um að sonurinn fái að kynnast rótum sínum, móðurmálinu og menningunni. Þau hugsa til sumarhússins, griðastaðarins þar sem ávextir vaxa ómælt á trjánum.

„Sólblómabreiðurnar eru endalausar í Úkraínu og jörðin frjósöm. Á örlitlum landskika við sumarhús pabba er hægt að gæða sér á ferskum melónum, jarðarberjum, rifsberjum, bláberjum, eplum og perum, eins og maður getur í sig látið,“ segir María.

Þau eru þreytt, harmi slegin og reið vegna stríðsins. „Umræða hefur gjarnan skapast um viðbragð Íslands gagnvart öðrum áföllum og komu flóttamanna. Fjöldinn nú verður meiri en nokkru sinni áður,“ segir hann.

„Það vantar ekki samtakamátt einstaklinga og fyrirtækja en það er nauðsynlegt að hið opinbera og stjórnsýslan bretti upp ermar sem aldrei fyrr og láti verkin tala. Það skiptir máli að við getum litið stolt um öxl."

Þjóðinni fjölgi með flóttafólkinu

María segir að hún sé þegar stolt af hugarfarinu. „Þótt Ísland sé lítið og herlaust er ég stolt af því að vera hér og heyra fólk fordæma árásina á Úkraínu. Ég er stolt að sjá Ísland á lista yfir óvinalönd Rússlands.“

Sveinn segir að barátta og dugnaður úkraínsku þjóðarinnar hafi hreyft við heimsbyggðinni. „Það kemur því ekki á óvart að fyrsta spurning þeirra sem hingað flýja sé ekki hvort að hér sé hægt að borða eða fá þak yfir höfuðið, heldur hvort hér megi vinna,“ segir hann og leggur mat á stöðuna.

„Við höfum nú val um það hvort þessi hópur verði á framfærslu eða hvort hann verði öflugur þátttakandi í þeirri efnahagslegu viðspyrnu sem þörf er á. Við verðum að virkja hópinn og um leið draga úr líkum þess að undan halli, ekki síst heilsufarslega séð.“

Góðgerðasamtök sem nefnast Flottafólk, ekki flóttafólk, verði því stofnuð. „Þetta er ekki fólk í leit að ölmusu. Þetta er fólk í leit að friði og tækifærum í skemmri tíma.“

María og Sveinn benda á að hér á landi séu í það minnsta 7 rússneskumælandi læknar. „Öll tilbúin að hjálpa. Viðbrögð heilbrigðiskerfisins þurfi að vera traust og samtaka. Rússneskumælandi læknar þurfi að fá hlutverk. Sálfræðingar og geðlæknar þurfi að koma að. „Við vitum að læknar vilja hjálpa og kerfið þarf að vinna á sama hraða og þeir,“ segir hann. „Við þurfum að vinna hraðar.“

Par gengur að borðinu á kaffihúsinu: „Ert þú ekki Sveinn Rúnar?“ Hann jánkar og hún segir þeim að þau séu með fjórar úkraínskar konur hjá sér, flóttamenn. Hann bendir þeim á Guðrúnartún frá mánudegi til fimmtudags. Þar fái þær að borða, geti hitt aðra landa sína, fengið áheyrn og samtal; stuðning.

„Fólk verður að fá andrými til að gráta og koma börnum í var,“ segir hann við parið. Hann bendir á helpukraine.is og á mikilvægi þess að fólkið fái tækifæri til að dreifa huganum. Bendir á að mestmegnis sé um að ræða brotnar fjölskyldur. Synir, eiginmenn og bræður séu fastir í Úkraínu.

„Takið fólk í faðminn og hlúið að því,“ segir hann. Um 250 sjálfboðaliðar standi nú að baki Guðrúnartúni sem hafi sprottið út frá hjálparbeiðni hans á Facebook fyrir tveimur vikum. Grunnsálgæsla sé á staðnum af hálfu rússneskumælandi sálfræðinga auk fræðslufunda um íslenskt samfélag.

„Þar eru framreiddar 150 máltíðir á dag í samvinnu við íslensk fyrirtæki. Fólkið getur þar fengið kort í líkamsrækt, sund, strætó, ný föt á börnin og neyðarleikskóli opnar tímabundið í húsi Fíladelfíu í samstarfi við þjóðkirkjuna,“ segir hann.

María vill nú komast heim úr hávaða kaffihússins og í faðm fjölskyldunnar. „Já, sjá son minn. Knúsa mömmu og pabba. Hvílast.“ Dagarnir langir. Framhaldið óvíst. En er ekki erfitt að hjálpa öðrum þegar þau eru sjálf í sárum?

„Jú,“ segir Sveinn Rúnar. „En allt þetta fólk er í sárum. Við erum í sárum. Staðan í heiminum er þannig að ef ég myndi ekki sinna þessu þegar ég á lausa stund er ég ólíklegri til þess að geta klárað daginn. Ég yrði óvinnufær. Það er nauðsynlegt að dreifa huganum og vera að frá morgni til miðnættis,“ segir hann.

„Ekki má gleyma því að sú sem stendur erfiðustu vaktina í Guðrúnartúni er sjálf flóttamaður, að hjálpa flóttamönnum, ekki orðin tvítug og hefur ekki heyrt frá pabba sínum frá 1. mars. Hún kýs að vera að frá morgni til miðnættis, til að dreifa huganum sömuleiðis og draga úr líkum þess að brotna.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica