03. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Lærdómur. Magnús Karl Magnússon
Læknir á að vita margt um sjúkdóm, skilja sjúkdóminn og ef vel lætur hafa áhrif á framgang hans. Læknir þarf að einblína á sjúkdóminn, spyrja um einkenni og fylgjast með framgangi og stuðla að bata. Ef grunur vaknar, reynum við að afhjúpa falda sjúkdóma. Við könnum hvort sjúklingur sé áttaður á stund og stað. En þegar vinnu er lokið reynum við sjálf að gleyma stund og stað. Við tölum um að sjúklingur með Alzheimer-sjúkdóm hafi ekki innsýn í sjúkdóm sinn, en þegar við hittum gamla sjaldséða kunningja furðum við okkur á hve mikið þessi jafnaldri hefur elst. Þannig afhjúpast að við höfum löngu glatað innsýn í eigið sjálf. Þegar þau sem standa manni næst, þau sem eru manni kærari en allt annað fá sjúkdóminn sem við óttumst, sjúkdóm sem við afhjúpum með vægðarlausum spurningum í klínísku starfi, þá erum við berskjölduð. Við hvorki viljum né getum séð einkennin sem blasa við. Sjálfsblekkingin sem þróunarfræðingurinn Robert Trivers telur að sé okkur lífsnauðsynleg grípur inn í framvinduna. Hún slær augu okkar blind.
Ég sá aldrei sjúkdóminn. Hann kom óboðinn, læddist aftan að okkur. Ég veit að sjúkdómurinn er vægðarlaus. Hann hlítir ekki vilja mínum, hann bara líður áfram eins og tíminn. Hann herjar á það sem mér þykir vænst um af öllu, persónuna sjálfa. Það gerist hægt og hljótt. Ég sé engan mun frá degi til dags. En ég veit að sjúkdómurinn er þarna. Ef ég fókusera á hann, þá þarf ég að fókusera á allt sem ég sakna, allt það sem var en er ekki í dag. Það gengur ekki. Ég verð að fókusera á það sem er, á allt sem hún er. Ég get ekki fókuserað á það sem sjúkdómurinn hefur tekið. Þannig verð ég að gleyma því sem ég hef lært um sjúkdóminn. Þannig get ég ekki verið læknirinn í þessu hlutverki mínu.
Sagt er að ljósmyndun sé list augnabliksins. Hún fangar augnablikið, hún frystir stað og stund, hún grípur það sem er. En ljósmyndin hefur líka negatívu. Negatívan er allt það sem myndin er ekki. Svart er hvítt og hvítt er svart. Hún sýnir okkur þannig að augnablik tímans er tvírætt, þarna lifa tveir heimar. Kannski er Alzheimer eins og negatívan. Alzheimer er allt sem persónan er ekki lengur. Þeir sem hafa unnið með galdra gömlu ljósmyndafilmunnar vita að þegar ljósi er lýst á negatívuna þá umbreytist hún. Ljósið framkallar undurfagra mynd. Kannski er það hlutverk mitt að reyna að varpa ljósi á lífið og það sem er. Þannig lýsir ljósið upp það sem maður hefur. Og maður verður að fókusera á það sem er, en ekki það sem var. Læknirinn má varpa ljósi á sjúkdóminn en það er ekki hlutverk mitt í dag. Það er kannski öfugsnúinn lærdómur að gleyma því hlutverki sem maður á að kunna, en það getur verið mikilvægur lærdómur.